Hljóðön – Skýjastaðir

Sunnudaginn 27. apríl kl. 20 fara fram í Hafnarborg tónleikar Gunnhildar Einarsdóttur, hörpuleikara, og Matthiasar Englers, slagverksleikara, undir merkjum Ensemble Adapter. Efnisskráin er helguð tónlist þýska tónskáldsins Walters Zimmermanns sem hefur allt frá 7. áratugnum verið leiðandi rödd í þýskri samtímatónlist, bæði sem höfundur en ekki síst sem menningarlegur tengiliður á milli þýskrar og bandarískrar samtímatónlistar. Tónleikarnir eru hluti af samtímatónleikaröð Hafnarborgar, Hljóðönum.

Tónlist Walters Zimmermanns mætti lýsa sem kjarnyrtri og lausri við alla óþarfa útúrsnúninga. Í tónlistinni bregður fyrir einföldum og skýrum tónlistarlegum hugmyndum sem fá í tónlistinni að vaxa og dafna án nokkurs uppbrots. Gunnhildur og Matthias hafa á síðustu misserum unnið náið með Walter Zimmermann að flutningi verka hans og munu meðal annars leika á tónleikunum nýlegt verk Walters fyrir hörpu og slagverk sem samið var sérstaklega fyrir þau, sem og einleikshörpuverkið Skýjastaði (þý. Wolkenorte) frá árinu 1980.

Aðgöngumiðar eru seldir í Hafnarborg: almennt miðaverð er 2.500 krónur og er verð fyrir eldri borgara og námsmenn 1.500 krónur.

Hljóðön, samtímatónleikaröð Hafnarborgar, er sérstaklega tileinkuð tónlist 20. og 21. aldar, þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir en tónleikaröðin hefur verið hluti af dagskrá Hafnarborgar síðan 2013. Tónleikarnir njóta stuðnings Tónlistarsjóðs.


Kammerhópurinn Ensemble Adapter starfar bæði hér á landi og í Berlín. Stofnmeðlimirnir Matthias Engler, slagverksleikari, og Gunnhildur Einarsdóttir, hörpuleikari, leiða starf hópsins þar sem einblínt er á samstarf og samsköpun með fjölbreyttum hópi listamanna víða um heim. Ensemble Adapter nálgast tónlistarsköpun á breiðum grunni og starf hópsins er fjölbreytt, allt frá því að skapa, sýningarstýra, framleiða, halda úti vinnusmiðjum og fræðslu yfir í flutning samtímatónlistar, hvort sem er á sviði eða í gegnum aðra rafræna miðla. Allt frá stofnun hópsins árið 2004 hefur hópurinn frumflutt hundruði verka og komið fram á fjölda hátíða og tónleika um Evrópu.

Gunnhildur Einarsdóttir, hörpuleikari, hefur starfað um víða Evrópu með kammerhópum og hljómsveitum á borð við Klangforum Wien, Ensemble Recherche, Ensemble Modern, Ensemble Mosaik, CAPUT Ensemble og Kammersveit Reykjavíkur, auk hljómsveita á borð við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Konzerthausorchester í Berlín, Bayerisches Staatsorchester í München og Lautencompagnie í Berlín. Sem einleikari hefur Gunnhildur leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Pernu City Orchestra, Ensemble Modern og Ensemble Recherche en Gunnhildur hefur haldið einleikstónleika víða og meðal annars komið fram á tónleikaröð Les signes de l’arc í París og í Nordic Heritage Museum í Seattle.

Matthias Engler, slagverksleikari, hefur starfað með fjölda kammerhópa um Evrópu en má þar einkum nefna Ensemble Modern og MusikFabrik. Í því samhengi hefur Matthias unnið með helstu tónskáldum og stjórnendum í heimi samtímatónlistar á borð við Pierre Boulez, Helmut Lachenmann, Maurizio Kagel og Steve Reich, auk annarra. Matthias hefur jafnframt komið fram á öllum helstu samtímatónlistarhátíðum Evrópu, svo sem Darmstädter Ferienkurse für Neue Musik, MaerzMusik, Donaueschinger Musiktage og World New Music Days.