Sunnudaginn 11.október kl. 20 hefst nýtt starfsár Hljóðanar í Hafnarborg en þá mun Kristín Þóra Haraldsdóttir, víóluleikari og tónskáld flytja nýja útfærslu tónleikhúsverksins, Orðin, eftir Þórunni Grétu Sigurðardóttur, tónskáld. Verkið er unnið upp úr ljóðabók Lindu Vilhjálmsdóttur, Öll fallegu orðin, sem kom út árið 2000. Í verkinu féttast saman orð, tónlist og líkamleg tjáning í eina órjúfanlega heild þar sem sjónrænir og hljóðrænir þættir verksins fléttast saman við inntak ljóðanna. Verkið er tæp klukkustund í flutningi.
Kristín Þóra Haraldsdóttir, víóluleikari, kemur víða við í nálgun sinni á tónlist og sinnir jöfnum höndum hlutverkum flytjanda, tónskálds og spunaleikara. Hún kemur reglulega fram með hljómsveitum, kammersveitum, söngvaskáldum og spunaleikurum, ásamt því að hafa starfað með fjölda hópa tengdum líkamsleikhúsi og gjörningum. Kristín hefur frumflutt fjölda nýrra einleiksverka fyrir víólu á ýmsum hátíðum á borð við Myrka Músíkdaga, Tectonics Glasgow og Dogstar hátíðinni í Los Angeles. Kristín nam víóluleik við Listaháskóla Íslands og lauk vorið 2011 mastersnámi í flutningi, tónsmíðum og samtengdum miðlum við California Institute of the Arts.
Þórunn Gréta Sigurðardóttir, tónskáld, hefur í gegnum árin unnið verk sín í ólíka sjóntengda miðla á borð við myndbandsverk, innsetningar, hreyfimyndir ásamt því á seinni árum að einblína á möguleika tónleikhúsins í nálgun sinni. Þórunn Gréta lauk Bakkalárnámi í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands vorið 2011 og Meistaranámi í tónsmíðum frá Hochschule für Musik und Theater í Hamborg í janúar 2014. Hún hefur sótt masterclassa í tónsmíðum, píanóleik og spuna í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi og á Íslandi.
Hljóðön er tónleikaröð tileinkuð tónlist frá 20. og 21. öldinni þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir. Nafn tónleikaraðarinnar skírskotar til smæstu merkingargreinandi hljóðeininga tungumála, grunneininga sem púsla má ólíkt saman svo úr verði tilraun til merkingar. Hafnarborg efnir hér til tónleikaraðar þar sem ætlunin er að kynna ólík verk samtímatónskálda úr fremstu röð. Í forgrunni verða verk sem fá best notið sín við þær aðstæður og miklu nánd sem býðst í sal Hafnarborgar og telja má sérstakan í flóru tónlistarsala á höfuðborgarsvæðinu. Tónleikaröðin er styrkt af tónlistarsjóði mennta- og menningarmálaráðuneytis
Aðgöngumiðar eru seldir í Hafnarborg s. 585 5790 og á midi.is og tix.is. Almennt miðaverð er kr. 2500 en fyrir eldri borgara og námsmenn kr. 1500.
Verið velkomin í Hafnarborg, lifandi vettvang tónlistarflutnings.