Sunnudaginn 25. september kl. 20 fara fram í Hafnarborg tónleikar Gunnhildar Einarsdóttur, hörpuleikara, og Matthiasar Engler, slagverksleikara, en tónleikarnir eru hluti af samtímatónleikaröðinni Hljóðönum.
Yfirskrift tónleikanna er hrein og bein: „Ernste Musik“ eða „alvarleg tónlist“ á íslensku. Á efnisskránni má finna verk sem eru allt frá því að vera einbeitt og alvarleg í efnistökum sínum yfir í verk sem vinna á gáskafullan og óræðan hátt með þann alvarleika sem svo oft einkennir heim samtímatónlistar. Frumflutt verður nýtt verk eftir Gunnhildi Einarsdóttur, sem hún hefur samið í tilefni tónleikanna, en ásamt því má heyra tónlist eftir Luciano Azzigotti, Matthias Kaul, Gérard Grisey og Simon Steen-Andersen, auk annarra.
Þess má geta að Gunnhildur og Matthias eru staðarlistamenn tónleikaraðarinnar Hljóðön starfsárið 2022-2023 og munu þau koma aftur fram á vortónleikum raðarinnar í apríl 2023.
Gunnhildur Einarsdóttir, hörpuleikari, hefur starfað um víða Evrópu með kammerhópum og hljómsveitum á borð við Klangforum Wien, Ensemble Recherche, Ensemble Modern, Ensemble Mosaik, CAPUT ensemble, Kammersveit Reykjavíkur, auk hljómsveita á borð við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Konzerthausorchester í Berlin, Bayerisches Staatsorchester í München og Lautencompagnie í Berlín. Sem einleikari hefur Gunnhildur leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Pernu City Orchestra, Ensemble Modern og Ensemble Recherche en Gunnhildur hefur haldið einleikstónleika víða og meðal annars komið fram á tónleikaröð Les signes de l’arc í París og í Nordic Heritage Museum í Seattle.
Gunnhildur lauk meistara- og bakkalárprófi frá Tónlistarháskólanum í Amsterdam og lagði einnig stund á nám í barrokkhörpuleik við Konunglega konservatoríið í Haag. Árið 2013 lauk Gunnhildur svo doktorsprófi í tónlistarrannsóknum og tónlistarflutningi frá Síbelíusar-akademíunni. Þá hefur Gunnhildur haldið námskeið og fyrirlestra um nútíma-hörpuleik og nótnaskrift við virta háskóla í Evrópu og Bandaríkjunum, svo sem Stanford-háskóla, Harvard-háskóla og Háskólann í Leeds. Frá árinu 2014 hefur Gunnhildur verið kennari við Alþjóðlegu sumarakademíuna í Darmstadt.
Matthias Engler, slagverksleikari, hefur starfað með fjölda kammerhópa um Evrópu en má þar nefna Ensemble Modern og MusikFabrik. Í því samhengi hefur Matthias unnið með helstu tónskáldum og stjórnendum í heimi samtímatónlistar á borð við Pierre Boulez, Helmut Lachenmann, Maurizio Kagel og Steve Reich, auk annarra. Matthias hefur jafnframt komið fram á öllum helstu samtímatónlistarhátíðum Evrópu, svo sem Darmstädter Ferienkurse für Neue Musik, MaerzMusik, Donaueschinger Musiktage og World New Music Days.
Matthias hóf nám í klassískum slagverksleik við Studienseminar Kiel hjá Paulgerfried Zulauf, pákuleikara fílharmóníuhljómsveitarinnar í Kiel. Árið 2004 lauk Matthias svo prófi í klassískum slagverksleik frá Tónlistarháskólanum í Amsterdam, þar sem kennarar hans voru Peter Prommel, Jan Pustjens, Marinus Komst, Lorenzo Ferrandiz og Gustavo Gimeno (allir meðlimir Konunglegu Concertgebouw hljómsveitarinnar). Frá 2005 til 2006 var hann meðlimur í International Ensemble Modern Academy í Frankfurt, þar sem hann hlaut sérstaka þjálfun í flutningi samtímatónlistar og kammertónlistar. Frá árinu 2010 hefur Matthias verið stundakennari við University of the Arts í Braunschweig og meðlimur í teknóhljómsveitinni Brandt Brauer Frick Ensemble í Berlin.
Gunnhildur og Matthias eru stofnendur kammerhópsins Adapter en allt frá stofnun hans árið 2004 hefur hópurinn frumflutt hundruði verka og komið fram á fjölda hátíða og tónleika um Evrópu, ásamt því að halda námskeið og fyrirlestra.
Hljóðön, samtímatónleikaröð Hafnarborgar, er sérstaklega tileinkuð tónlist 20. og 21. aldar, þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir en tónleikaröðin hefur verið hluti af dagskrá Hafnarborgar síðan 2013.
Aðgöngumiðar eru seldir í Hafnarborg. Almennt miðaverð er kr. 2.500, verð fyrir eldri borgara og námsmenn kr. 1.500.
Tónleikarnir njóta stuðnings Tónlistarsjóðs og starfslauna tónlistarflytjenda.