Hljóðön – „Ég trúi á betri heim“

Sunnudaginn 28. apríl kl. 20 fara fram í Hafnarborg tónleikar Mathiasar Halvorsens, píanóleikara, og Gunnars Gunnsteinssonar, tónskálds. Flutt verða verk Gunnars úr verkaröðinni Stefnuyfirlýsing húsvarðar, ásamt því sem heyra má verk Richards Wagners og Johanns Sebastians Bachs endurmótuð af Mathiasi Halvorsen. Tónleikarnir eru hluti af samtímatónleikaröð Hafnarborgar, Hljóðönum.

Yfirskrift tónleikanna, „Ég trúi á betri heim“, er fengin úr verki tónskáldsins Gunnars Gunnsteinssonar, Stefnuyfirlýsingu húsvarðar (e. A Janitor’s Manifesto) sem Gunnar mun koma til með að flytja á tónleikunum. Verkaröð Gunnars er samansafn frásagna úr uppdiktuðum sagnaheimi húsvarðar sem endurspeglar á skapandi hátt samtíma okkar á þessum frumstigum fjórðu iðnbyltingarinnar.

Píanóleikarinn Mathias Halvorsen afhjúpar afstöður samtímans til listarinnar og beinir sjónum að vægi sögunnar í samtímanum, með endurliti í söguna þar sem hann endurmótar hljóð- og hugmyndaheim þekktra verka tónlistarsögunnar úr fórum tónskáldanna Bachs (1685-1750) og Wagners (1813-1883). Þá má til gamans geta að við þetta tækifæri mun í fyrsta sinn heyrast tónlist frá á 18. og 19. öldinni á tónleikum Hljóðana.

Aðgöngumiðar eru seldir í Hafnarborg: almennt miðaverð er 2.500 krónur og er verð fyrir eldri borgara og námsmenn 1.500 krónur.

Hljóðön, samtímatónleikaröð Hafnarborgar, er sérstaklega tileinkuð tónlist 20. og 21. aldar, þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir en tónleikaröðin hefur verið hluti af dagskrá Hafnarborgar síðan 2013. Tónleikarnir njóta stuðnings Tónlistarsjóðs.


Gunnar Gunnsteinsson, tónskáld, lærði tónsmíðar í Amsterdam á árunum 2011-2015. Að undanförnu hafa verk Gunnars snúist um samþættingu tónlistar og talaðs máls. Í gegnum frásögnina má finna ákveðið frelsi til þess að nýta tónlistaráhrif úr ólíkum áttum svo að úr verði einhvers konar heild. Nýjasta útgefna verk Gunnars er hljómplatan A Janitor’s Manifesto sem kom út hjá útgáfunni Futura Resistenza í Brussel árið 2023. Verkið hlaut góðar viðtökur meðal annars í tónlistartímaritinu The Wire Magazine. Í verkinu er unnið með talað mál og karakterstúdíu en í því leikur skuggasjálf Gunnars, „Janitorinn“, aðalhlutverkið. Gunnar er búsettur í Reykjavík.

Mathias Halvorsen, píanóleikari, býr í Reykjavík ásamt fjölskyldu sinni en kemur reglulega fram á tónleikum víðs vegar um Evrópu, ýmist sem einleikari eða í samspili, og flytur allt frá sinni eigin tónlist yfir í nýstárlegar og skapandi túlkanir á hinum hefðbundnu tónbókmenntum. Þeirra á meðal er hljóðritun Mathiasar á verki Bachs, Das Wohltemperierte Klavier (BWV 846–893), sem kom út hjá Backlash Music útgáfunni árið 2018 undir heitinu The Well-Prepared Piano, Vol. 1. Árið 2020 fylgdi svo útgáfan On Goldberg Variations, sem unnin var ásamt Jan Martin Gismervik, þar sem brugðið var nýju ljósi á Goldberg-tilbrigði Bachs. Árið 2024 er loks væntanleg útgáfan On Palestrina sem kemur út hjá sama útgefanda.