Þriðjudaginn 4. apríl kl. 12 bjóðum við ykkur velkomin á næstu hádegistónleika ársins í Hafnarborg en þá mun Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, mezzósópran, koma fram ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara og listrænum stjórnanda tónleikaraðarinnar. Að þessu sinni bera tónleikarnir yfirskriftina „Grátandi karl og allskonar konur“ en fluttar verða aríur úr óperum eftir Gluck, Purcell, Rossini og Bizet.
Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, mezzósópran, hefur lokið söng- og píanókennaranámi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og meistaragráðu frá Royal College of Music í London. Sigríður syngur reglulega í óperum, óratoríum og á ljóðatónleikum hérlendis og erlendis. Hún hefur sungið yfir tuttugu óperuhlutverk, meðal annars sem Nunna í Love and Other Demons eftir Peter Eötvös (Glyndebourne Opera), í Jakob Lenz eftir Wolfang Rihm (English National Opera), Waltraute í Valkyrjunni (LidalNorth Norske Opera), Arcane í Teseo (English Touring Opera), Arbate í Mitridate (Classical Opera Company), Tisbe í Öskubusku (Iford Opera), þriðja dama í Töfraflautunni, Rosina í Rakaranum frá Sevilla og nýverið sem Flora Bervoiz í La traviata (Íslenska óperan). Sigríður hefur einnig verið einsöngvari með nokkrum af fremstu kórum landsins, svo sem með Mótettukórnum, Dómkórnum, Kór Langholtskirkju, Óperukór Reykjavíkur, Karlakór Reykjavíkur og Fóstbræðrum.
Sigríður hefur komið fram í tónleikasölum eins og Royal Albert Hall, Kings Place og Cadogan Hall í London, þar sem hún söng ásamt Emmu Kirkby og var tónleikunum útvarpað á Classic FM. Þá söng Sigríður með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Klassíkinni okkar árin 2017 og 2018 og í Níundu sinfóníu Beethovens árið 2021. Sigríður er meðlimur í barokk-bandinu Symphonia Angelica en þau komu meðal annars fram á Listahátíð í Reykjavík árið 2016 og á norrænu tónleikunum Concerto Grosso – Viking Barokk sem fóru fram í Oslo Konserthus, Berwaldhallen í Stokkhólmi og Musiikkitalo í Helsinki. Sigríður er einnig meðlimur í Tindru en þær komu fyrst fram árið 2022 í tónleikum á vegum Íslensku óperunnar bæði í Norðurljósum í Hörpu og í Hofi á Akureyri. Söng Sigríðar má heyra á plötunni Engel Lund’s Book of Folksongs (Nimbus Records) og á nýútgefinni plötu með sönglögum eftir Jónas Ingimundarson sem heitir Með vorið í höndunum. Sigríður var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna árin 2016, 2017, 2018 og 2021.
Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, sem hafa verið fastur liður í dagskrá safnsins síðan 2003. Þar hefur Antonía fengið til liðs með sér marga af fremstu söngvurum landsins en markmiðið með tónleikunum að veita gestum tækifæri til að njóta lifandi tónlistarflutnings í góðu tómi. Þá fara hádegistónleikarnir að jafnaði fram fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.
Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.