Þriðjudaginn 5. mars kl. 12 bjóðum við ykkur velkomin á næstu hádegistónleika ársins í Hafnarborg en þá verður Óskar Bjartmarsson, tenór, gestur Antoníu Hevesi, píanóleikara og listræns stjórnanda tónleikaraðarinnar. Þá munu þau flytja fjörugar aríur eftir tónskáldin Mozart og Rossini.
Óskar Bjartmarsson, tenór, er ungur og upprennandi söngvari sem lærði söng í Söngskóla Sigurðar Demetz hjá Kristjáni Jóhannssyni. Óskar hefur tekið þátt í skólaóperum á vegum Söngskóla Sigurðar Demetz en hlaut einnig starfsþjálfun nýlega sem Rodolfo í La bohéme og Don Ottavio í Don Giovanni í uppsetningu La Musica Lirica á Ítalíu. Þá var Óskar einn af einsöngvurunum á „bel canto“ óperukvöldverði í Iðnó í október 2022.
Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, sem hafa verið fastur liður í dagskrá safnsins síðan 2003. Þar hefur Antonía fengið til liðs með sér marga af fremstu söngvurum landsins en markmiðið með tónleikunum að veita gestum tækifæri til að njóta lifandi tónlistarflutnings í góðu tómi. Þá fara hádegistónleikarnir að jafnaði fram fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.
Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.