Þriðjudaginn 14. september kl. 12 hefjast hádegistónleikar í Hafnarborg að nýju eftir sumarfrí en þá mun sópransöngkonan Margrét Hrafnsdóttir koma fram ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara. Tónleikarnir bera að þessu sinni yfirskriftina Draumar og dauðinn. Þá verða fluttar aríur úr óperum eftir Verdi og Puccini.
Margrét Hrafnsdóttir lauk 8. stigi hjá Sieglinde Kahmann frá Tónlistarskóla Reykjavíkur árið 1998, auk 8. stigi á píanó hjá Selmu Guðmundsdóttur. Margrét lauk síðar söngkennara- og einsöngvaradiplóma frá tónlistarháskólanum í Stuttgart undir handleiðslu Michiko Takanashi, Robert Hiller og Franzisco Araiza. Einnig lauk hún prófi frá ljóðadeild tónlistarháskólans hjá Cornelis Witthoefft. Margrét hlaut styrk hjá Wagnerfélaginu í Stuttgart til að fara til Bayreuth og í framhaldi af því hélt hún tónleika hjá Wagnerfélaginu. Hún hefur sömuleiðis sótt fjölda námskeiða, þar á meðal hjá Anne Sofie von Otter á uppvaxtarheimili Birgit Nilsson í Svíþjóð.
Margrét fór með hlutverk Freyju í Þrymskviðu eftir Jón Ágeirsson sem flutt var í Norðurljósum undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar haustið 2018. Hún mun fara með hlutverk Ortlinde í uppfærslu Íslensku óperunnar og Sinfoníuhljómsveitar Íslands á Die Walküre eftir Richard Wagner á Listahátíð í febrúar 2022. Hún hefur haldið einsöngstónleika í Þýskalandi, Íslandi, Sviss, Danmörku og Svíþjóð. Þá hefur hún hlotið styrki úr tónlistarsjóði, auk þess sem hún hlaut þriggja mánaða listamannalaun árið 2020 og sex mánuði 2021. Margrét starfar sjálfstætt sem söngkona og söngkennari. Árið 2007 gaf hún út ásamt Ólöfu Sigursveinsdóttur, sellóleikara, geisladiskinn Hjartahljóð, með íslenskum þjóðlögum. Einnig fengu þær styrk frá Hlaðvarpanum til að láta semja fyrir sig verkið „Heimtur“, sem frumflutt var í Berlín 2011 en verkið var samið af Ingibjörgu Azima. Árið 2015 kom svo út diskurinn Vorljóð á Ýli með þeim lögum.
Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, þar sem hún hefur fengið marga af fremstu söngvurum landsins til liðs við sig. Hádegistónleikar eru vanalega á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.
Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Aðgangur er ókeypis en aðeins er hægt að taka á móti takmörkuðum fjölda gesta, vegna gildandi samkomutakmarkana. Þá skulu gestir sitja í númeruðum sætum, auk þess sem skrá skal upplýsingar um nafn, kennitölu og símanúmer viðstaddra. Eru gestir því beðnir um að taka frá sæti í síma 585 5790 á opnunartíma safnsins. Grímuskylda er á tónleikunum.