Þriðjudaginn 5. október kl. 12 verða næstu hádegistónleikar vetrarins í Hafnarborg en þá mun Kolbeinn Jón Ketilsson, tenór, koma fram, ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara. Kolbeinn átti upprunalega að koma fram á hádegistónleikum í Hafnarborg í október á síðasta ári en þar sem hann er búsettur í Noregi þurfti að fresta tónleikunum af augljósum ástæðum. Á tónleikunum nú, sem bera yfirskriftina Ást og hamingja, flytur Kolbeinn lög eftir tónskáldin Lehár, Salvatore Cardillo, Ernesto de Curtis og Árna Thorsteinsson.
Kolbeinn Jón Ketilsson lauk burtfararprófi frá Nýja tónlistarskólanum og síðar frá Tónlistarháskóla Vínarborgar. Hann hefur sungið í óperettum og einnig mörg veigamestu tenórhlutverk óperubókmenntanna, m.a. titilhlutverkin í Ævintýrum Hoffmanns, Don Carlo og Parsifal, Tristan og Tannhäuser, Lohengrin, Florestan, Erik, Tamino, Max, Cavaradossi og Don José. Hjá Íslensku óperunni hefur hann m.a. sungið Alfredo í La Traviata, Rodolfo í La Bohème, Erik í Hollendingnum fljúgandi og Tenórinn í Ariadne á Naxos. Kolbeinn söng hlutverk Enée í Les Troyens á tónlistarhátíðinni í Salzburg við lofsamlegar viðtökur áheyrenda og gagnrýnenda.
Kolbeinn hefur komið fram í óperum á öllum Norðurlöndunum, í Norður-Ameríku og víðs vegar um Evrópu, m.a. í Staatsoper í München, Parísaróperunni, óperunni í Genf og óperunni í Valencia, Torino og San Carlo í Napoli og Lissabon. Hann söng Radames í Aidu í fyrstu uppsetningu nýja óperuhússins í Kaupmannahöfn árið 2005 og tenórhlutverkið í 9. sinfóníu Beethovens á fyrstu tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu undir stjórn Vladimir Ashkenazy vorið 2011. Hann söng hlutverk Don José í uppfærslu Íslensku óperunnar á Carmen haustið 2013. Nýlega tók hann þátt í heimsfrumsýningu á sænsku óperunni Notorious eftir Hans Gefors í Gautaborg. Auk þess að syngja í óperum kemur Kolbeinn reglulega fram á tónleikum sem ljóðasöngvari og einsöngvari í hljómsveitarverkum.
Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, þar sem hún hefur fengið marga af fremstu söngvurum landsins til liðs við sig. Hádegistónleikar eru vanalega á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.
Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Aðgangur er ókeypis en aðeins er hægt að taka á móti takmörkuðum fjölda gesta, vegna gildandi samkomutakmarkana. Þá skulu gestir sitja í númeruðum sætum, auk þess sem skrá skal upplýsingar um nafn, kennitölu og símanúmer viðstaddra. Eru gestir því beðnir um að taka frá sæti í síma 585 5790 á opnunartíma safnsins. Grímuskylda er á tónleikunum.