Þriðjudaginn 5. september kl. 12 hefja hádegistónleikar í Hafnarborg göngu sína að nýju en á þessum fyrstu tónleikum vetrarins verður Hafnfirðingurinn – og Gaflarinn – Ívar Helgason, barítón, gestur Antoníu Hevesi, píanóleikara og listræns stjórnanda tónleikaraðarinnar. Þá munu þau flytja aríur úr óperum og óperettum eftir Mozart, Lehár og Kálmán. Yfirskrift tónleikanna að þessu sinni er Skin og skúrir.
Ívar Helgason, barítón, hóf leikferil sinn ellefu ára gamall í titilhlutverki barnaóperunnar Litla sótarans eftir Benjamin Britten í uppfærslu Íslensku óperunnar og hefur Ívar verið viðloðandi sviðið allar götur síðan. Hann hóf söngnám við Tónlistarskólann í Hafnarfirði hjá Eiði Ágústi Gunnarssyni og við Söngskólann í Reykjavík naut hann svo handleiðslu Bergþórs Pálssonar og Guðmundar Jónssonar. Haustið 2001 hóf Ívar nám við söngleikjadeild Tónlistarháskólans í Vínarborg en sú menntun felur í sér að vera jafnvígur í söng, leiklist og dansi. Ívar útskrifaðist með láði árið 2003 og var þá þegar kominn með stöðu við Raimund Theater í Vínarborg við heimsfrumsýninguna á rokksöngleiknum Barbarella eftir Dave Stewart.
Næstu fjögur árin starfaði Ívar í Austurríki, Sviss, Þýskalandi og á Ítalíu þar sem hann tók þátt í fjölda söngleikja. Þar ber hæst hlutverk Jean Valjean og Enjolras í Vesalingunum í tveimur uppfærslum og Kaiser Franz Joseph í söngleiknum Elisabeth sem var fluttur sjö sinnum í viku yfir eitt og hálft ár í Apollo Theater í Stuttgart. Árið 2007 fluttist Ívar aftur heim og hóf störf við Þjóðleikhúsið uns listagyðjan togaði hann norður á land þar sem hann hefur fest rætur. Ívar gaf út jólaplötuna Jólaljós, þar sem má heyra útsetningar, textasmíð og lög eftir hann. Einnig hefur hann leikstýrt og dansstýrt ótal leikverkum og söngleikjum. Ívar lauk LRSM-söngkennaraprófi frá Söngskólanum í Reykjavík og hefur kennt klassískan og ritmískan söng við Söngskólann, auk þess sem hann kenndi við Tónlistarskólann á Akureyri um margra ára skeið. Í dag er hann sjálfstætt starfandi listamaður, auk þess sem hann kennir steppdans í STEPS dansskólanum á Akureyri.
Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, sem hafa verið fastur liður í dagskrá safnsins síðan 2003. Þar hefur Antonía fengið til liðs með sér marga af fremstu söngvurum landsins en markmiðið með tónleikunum að veita gestum tækifæri til að njóta lifandi tónlistarflutnings í góðu tómi. Þá fara hádegistónleikarnir að jafnaði fram fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.
Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.