Þriðjudaginn 4. febrúar kl. 12 mun Herdís Anna Jónasdóttir, sópran, koma fram á fyrstu hádegistónleikum ársins í Hafnarborg, ásamt Antoníu Hevesi. Á tónleikunum flytur Herdís aríur eftir Verdi, Bellini og Donizetti.
Herdís Anna Jónasdóttir lagði stund á fiðlu, píanó og söng frá unga aldri við Tónlistarskóla Ísafjarðar. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði fór hún svo í framhaldsnám við Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Elísabetar Erlingsdóttur. Þaðan útskrifaðist hún með BA gráðu í söng og hélt til Berlínar í nám við Hanns-Eisler tónlistarháskólann. Hún lauk Konzertexamen-prófi árið 2012 með ágætiseinkunn og var þá ráðin að óperustúdíóinu við Óperuna í Zürich, þar sem hún tók þátt í ótal sýningum og masterclass-áföngum.
Herdís var fastráðin við Ríkisleikhúsið í Saarbrücken í Þýskalandi árin 2013-2018 en er núna sjálfstætt starfandi og búsett í Berlín. Herdís hefur komið fram á fjölda tónleika, s.s. með Kammersveit Reykjavíkur, Saarlensku ríkishljómsveitinni, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveitinni í Canberra, Ástralíu. Árið 2012 söng hún hlutverk Musettu í La bohème með Íslensku óperunni og síðasta vetur söng hún einnig hlutverk Víólettu Valery í La traviata í Hörpu en fyrir frammistöðu sína þar hlaut Herdís Grímuverðlaunin sem Söngvari ársins.
Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, þar sem hún hefur fengið marga af fremstu söngvurum landsins til liðs við sig. Hádegistónleikar eru á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.
Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.