Þriðjudaginn 6. október kl. 12 mun Hanna Dóra Sturludóttir, mezzósópran, koma fram á hádegistónleikum ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara. Á tónleikunum sem bera yfirskriftina Konur úr öllum áttum flytur Hanna Dóra aríur úr óperum eftir Saint-Saëns, Ponchielli og Bizet. Vegna fjöldatakmarkana verður tónleikunum einungis streymt í beinni útsendingu á netinu, sem má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Hanna Dóra Sturludóttir stundaði söngnám hjá Kristni Sigmundssyni og Snæbjörgu Snæbjarnardóttur við Söngskólann í Reykjavík áður en hún hélt til framhaldsnáms við Listaháskólann í Berlín, hvaðan hún útskrifaðist með viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur. Stuttu síðar fékk Hanna Dóra tilnefningu sem efnilegasta söngkona Þýskalands en hún hefur sungið við mörg helstu óperuhús Þýskalands, meðal annars í Bonn, Weimar, Gelsenkirchen, Kassel og Berlín. Á meðal þeirra um það bil fjörutíu hlutverka sem hún hefur túlkað á ferlinum eru Greifynjan í Brúðkaup Fígarós, Cio Cio San í Madame Butterfly, Marie í Wozzeck, Miss Jessel í Tökin hert og titilhlutverkið í óperunni Ariadne á Naxos sem hún söng í Íslensku óperunni 2007. Haustið 2010 söng Hanna Dóra Miss Donnithorne´s Maggot eftir Peter Maxwell Davies í Staatsoper í Berlín og hlaut fyrir það mikið lof gagnrýnenda. Auk þess að hafa komið fram á tónleikum vítt og breitt um Þýskaland hefur Hanna Dóra komið fram víðar í Evrópu, sem og í Katar og Egyptalandi.
Undanfarin ár hefur Hanna Dóra verið einn aðalsöngvari óperusmiðjunnar Novoflot í Berlín sem sérhæfir sig í nýrri óperutónlist og þá hefur hún tekið þátt í fjölmörgum frumuppfærslum. Sumarið 2012 var hún svo í aðalhlutverki í sviðsverkinu Wagnerin sem hópurinn setti upp í samstarfi við Staatsoper í München. Á Íslandi hefur Hanna Dóra haldið fjölda ljóðatónleika og sungið með Sinfóníuhljómsveit Íslands við fjölmörg tækifæri. Hanna Dóra var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2013 fyrir flutning sinn á Wesendonck-ljóðum Richards Wagners með Sinfóníuhljómsveit Íslands vorið 2013 og fyrir túlkun sína á titilhlutverkinu í Carmen eftir Bizet hjá Íslensku óperunni. Hún söng einnig hlutverk Eboli prinsessu í uppsetningu Íslensku óperunnar á Don Carlo eftir Verdi árið 2014, við mjög góðar undirtektir áhorfenda og gagnýnanda, og hlaut í kjölfarið Íslensku tónlistarverðlaunin sem söngkona ársins.
Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, þar sem hún hefur fengið marga af fremstu söngvurum landsins til liðs við sig. Hádegistónleikar eru að venju á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.
Tónleikunum verður sem fyrr segir streymt í beinni útsendingu á netinu, bæði á Facebook og hér á heimasíðu Hafnarborgar. Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund en upptakan verður áfram aðgengileg á netinu að tónleikunum loknum. Nánari upplýsingar eru veittar í síma 585 5790.