Hádegistónleikar – Hanna Ágústa Olgeirsdóttir

Þriðjudaginn 4. mars kl. 12 bjóðum við ykkur velkomin á næstu hádegistónleika í Hafnarborg en þá verður söngkonan Hanna Ágústa Olgeirsdóttir gestur Antoníu Hevesi, píanóleikara og listræns stjórnanda tónleikaraðarinnar. Á efnisskrá tónleikanna, sem bera yfirskriftina „Daður og Drama“, verða vel valdar aríur úr óperum og óperettum eftir Verdi, Mozart, Lehár og Catalani.

Hanna Ágústa Olgeirsdóttir, sópran, var sigurvegari söngkeppninnar Vox Domini í byrjun árs 2024 og hlaut þar einnig titillinn Rödd ársins. Hanna fór með hlutverk Óla Lokbrár í uppsetningu Kammeróperunnar á Hans og Grétu í Tjarnarbíói í desember 2023 og var einsöngvari á Reykholtshátíð 2023 og 2024. Hún hefur einnig sungið víða í Evrópu en hún fór meðal annars með hlutverk Papagenu í Töfraflautunni í Theater Rudolstadt árið 2021. Hún var auk þess einn sigurvegara keppninnar Ungra einleikara á vegum Listaháskóla Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Íslands og söng einsöng á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands vorið 2022.

Hún lauk bakkalárprófi frá Tónlistarháskólanum í Leipzig árið 2022, þar sem hún nam söng undir leiðsögn prófessors Carolu Guber. Áður hafði hún stundað söngnám við Söngskólann í Reykjavík og lauk þaðan framhaldsprófi undir leiðsögn Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur. Vorið 2016 hlaut Hanna styrk úr Minningarsjóði Vilhjálms Vilhjálmssonar til náms í Söngskólanum og árið 2021 hlaut Hanna styrk úr minningarsjóði Heimis Klemenzsonar. Hanna var útnefnd listamanneskja Borgarbyggðar árið 2024.

Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, sem hafa verið fastur liður í dagskrá safnsins síðan 2003. Þar hefur Antonía fengið til liðs með sér marga af fremstu söngvurum landsins en markmiðið með tónleikunum að veita gestum tækifæri til að njóta lifandi tónlistarflutnings í góðu tómi. Þá fara hádegistónleikarnir að jafnaði fram fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.