Þriðjudaginn 7. febrúar kl. 12 bjóðum við ykkur velkomin á fyrstu hádegistónleika ársins í Hafnarborg en þá mun Erla Björg Káradóttir, sópran, koma fram ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara og listrænum stjórnanda tónleikaraðarinnar. Að þessu sinni bera tónleikarnir yfirskriftina „Söknuður“ en fluttar verða aríur úr óperum og óperettum eftir Massenet, Puccini, Strauss og Jón Ásgeirsson.
Erla Björg Káradóttir hóf tónlistarnám sitt við Tónlistarskólann í Garðabæ og lauk þaðan framhaldsstigi í söng árið 2003. Þá stundaði Erla Björg framhaldsnám við Mozarteum tónlistarháskólann í Salzburg, Austurríki. Erla Björg hefur komið fram á ýmsum tónleikum bæði hérlendis og erlendis en hún tók til að mynda tvisvar þátt í Opernwerkstatt Lofer í Austurríki, auk þess að taka þátt í verðlaunasýningu Ragnars Kjartanssonar, Bliss, á listatvíæringnum Performa í New York árið 2011 og An die Musik í Zürich, Sviss, árið 2012. Erla Björg söng einnig einsöng þegar Sinfóníuhljómsveit unga fólksins flutti Lobgesang eftir Mendelssohn ásamt Háskólakórnum og Kammerkór Háskólans í Erfurt, Þýskalandi, árið 2016.
Hlutverk sem Erla Björg hefur sungið eru hlutverk Systur Angelicu í samnefndri óperu eftir Puccini, hlutverk Grétu í óperunni Hans og Grétu eftir Humperdinck og hlutverk Tebaldo í uppsetningu Íslensku óperunnar á Don Carlo eftir Verdi. Einnig hefur hún hefur tekið þátt í sýningum ÓP-hópsins um Mariu Callas og Richard Strauss, sem og í sýningunni Verdi og aftur Verdi sem hlaut mikið lof gagnrýnenda. Erla Björg hefur sótt ýmis námskeið í söng og tónlist, meðal annars hjá Mariu Teresu Uribe, David Jones, Julie Kaufmann, Janet Williams, Donald Kaasch og Barböru Bonney, auk þess að sækja einkatíma hjá Kristjáni Jóhannssyni og Sigríði Ellu Magnúsdóttur.
Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, sem hafa verið fastur liður í dagskrá safnsins síðan 2003. Þar hefur Antonía fengið til liðs með sér marga af fremstu söngvurum landsins en markmiðið með tónleikunum að veita gestum tækifæri til að njóta lifandi tónlistarflutnings í góðu tómi. Þá fara hádegistónleikarnir að jafnaði fram fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.
Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.