Hádegistónleikar – Edda Austmann

Þriðjudaginn 6. maí kl. 12 bjóðum við ykkur velkomin á síðustu hádegistónleika vormisseris í Hafnarborg en þá verður Edda Austmann, mezzósópran, gestur Antoníu Hevesi, píanóleikara og listræns stjórnanda tónleikaraðarinnar. Á efnisskrá tónleikanna, sem bera yfirskriftina „Alls konar blóm – og ástin“, verða aríur úr óperum eftir Gluck, Purcell, Saint-Saëns og Delibes.

Edda Austmann, mezzósópran, hóf söngnám sitt í Söngskólanum í Reykjavík og lauk bakkalárgráðu í tónlist frá Konunglegu tónlistarakademíunni í London. Hún vann til söngverðlauna og hlaut fullan skólastyrk til náms í óperudeild Konunglega tónlistarháskóla Skotlands, þar sem hún fór með nokkur burðarhlutverk í óperuuppfærslum skólans. Eftir útskrift baust henni svo staða í Zürich óperustúdíói og þá þreytti hún frumraun sína á sviði Zürich óperunnar.

Edda hefur starfað sem einsöngvari með Konunglegu skosku sinfóníuhljómsveitinni og með Zürich kammerhljómsveitinni í Tonhalle. Eins hefur hún verið einsöngvari í helgiverkum með kór og hljómsveit. Edda hefur komið fram hérlendis og í Evrópu, meðal annars á vegum Zürich óperunnar, Garsington óperunnar og Íslensku óperunnar, auk sjálfstæðra óperuframleiðenda. Edda vann síðast undir handleiðslu Jóns Þorsteinssonar, tenórs og söngprófessors. Edda er skólastjóri Tónskólans í Reykjavík en hefur áður starfað við stjórnun í tónlistarhúsinu Hörpu.

Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, sem hafa verið fastur liður í dagskrá safnsins síðan 2003. Þar hefur Antonía fengið til liðs með sér marga af fremstu söngvurum landsins en markmiðið með tónleikunum að veita gestum tækifæri til að njóta lifandi tónlistarflutnings í góðu tómi. Þá fara hádegistónleikarnir að jafnaði fram fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.