Síðustu hádegistónleikar Hafnarborgar á þessu ári fara fram þriðjudaginn 6. desember kl. 12 og að þessu sinni er það sópransöngkonan Alda Ingibergsdóttir sem kemur fram ásamt Antoníu Hevesi píanóleikara. Aðventan er nú gengin í garð og því verður dagskrá tónleikanna sveipuð hátíðarljóma. Á meðal verka á efnisskránni eru: Ave Maríur Jenkins og Lorenc, Panis Angelicus og aríur úr óperunni La Bohème sem eins og óperuunnendur vita gerist um jól.
Alda Ingibergsdóttir er fædd og uppalin í Hafnarfirði. Hún lauk einsöngvaraprófi frá Söngskólanum í Reykjavík og fór síðan í framhaldsnám við Trinity College of Music í London þaðan sem hún lauk Fellowship Diploma. Meðal hlutverka hefur Alda sungið, Paminu í Töfraflautunni, Lillian Russel í Mother of us all eftir Virgil Thomson, Fyrsta anda í Töfraflautunni, Dísu í Galdra-Lofti Jóns Ásgeirssonar, Næturdrottninguna í Töfraflautunni, Arzenu í Sígaunabaróni J. Strauss, Helenu Fögru í samnefndri óperu eftir Offenbach og Kátu ekkjuna í samnefndri óperettu eftir Lehar. Þá hefur Alda haldið tónleika víða og komið fram sem einsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Tufts Symphony Orchestra í Boston.
Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.
Hádegistónleikar Hafnarborgar eru haldnir mánaðarlega. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir og enginn aðgangseyrir. Húsið er opnað kl. 11.30.