Arkitektafélag Íslands og Hafnarborg standa fyrir málstofu um Guðjón Samúelsson í Hafnarborg laugardaginn 11. janúar milli kl. 11–13. Fjallað verður um Guðjón Samúelsson og verk hans skoðuð og metin af fimm þátttakendum sem kynnst hafa byggingarlist hans í störfum sínum á ýmsum sviðum. Í Hafnarborg hefur undanfarna mánuði staðið yfir sýning á verkum Guðjóns Samúelssonar en sýningunni lýkur sunnudaginn 12. janúar.
Frummælendur á málstofunni verða Guðni Valberg, arkitekt, Sigurður Einarsson, arkitekt, Sigríður Björk Jónsdóttir, byggingarlistsagnfræðingur, Sigríður Magnúsdóttir, arkitekt, og Pétur H. Ármannsson, arkitekt og annar sýningarstjóri sýningarinnar í Hafnarborg. Fundarstjóri er Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar og annar sýningarstjóri sýningarinnar. Í lok málstofunnar verða umræður milli frummælenda og áhorfenda sem Ágústa mun stýra.
Guðjón Samúelsson er án efa einn áhrifamesti arkitekt landsins og eru verk hans fyrir löngu orðin kennileiti um landið allt. Guðjón lék einnig lykilhlutverk í skipulagi höfuðborgarinnar og þar af leiðandi nútímavæðingu hennar. Hinn 20. apríl næstkomandi verða liðin 100 ár frá því að Guðjón Samúelsson tók við starfi húsameistara ríkisins. Réttu ári fyrr lauk hann háskólanámi í arkitektúr, fyrstur Íslendinga.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.