Sunnudaginn 12. janúar kl. 14 verður boðið upp á leiðsögn um yfirlitssýningu Hafnarborgar á verkum Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins 1920–1950, ásamt Pétri H. Ármannssyni, arkitekt og sýningarstjóra, á lokadegi sýningarinnar. Sýningin er sett upp í tilefni þess að öld er nú liðin frá því að Guðjón lauk háskólaprófi í byggingarlist, fyrstur Íslendinga, árið 1919 og var skipaður húsameistari ríkisins ári síðar. Á sýningunni er lögð áhersla á sýn Guðjóns sjálfs á eigin verk, stílþróun í byggingarlist hans og líklega áhrifavalda. Þar má sjá teikningar, ljósmyndir og líkön af byggingum Guðjóns, ásamt ýmsum tillögum sem ekki urðu að veruleika.
Guðjón var frumkvöðull á mörgum sviðum og átti veigamikinn þátt í nútímavæðingu íslensks samfélags. Opinber staða hans gaf honum einstakt tækifæri til áhrifa á byggingar- og skipulagsmál heillar þjóðar sem fáum arkitektum hefur hlotnast fyrr né síðar. Verk hans voru umdeild á sinni tíð og hafa fáir listamenn mátt sæta óvægnari gagnrýni. Það kom í hans hlut að gefa bæjum og byggingum hins nýfullvalda lands áþreifanlegt form og listrænt svipmót. Fyrir þjóð sem aldrei eignaðist gotneskar kirkjur eða hallir í klassískum stíl hafa verk Guðjóns sérstaka þýðingu.
Sýningarstjórar eru Ágústa Kristófersdóttir og Pétur H. Ármannsson. Sýningin er unnin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands og Þjóðskjalasafn Íslands, sem veittu ómetanlegt aðgengi að safnkosti sínum. Sýningin naut einnig styrks frá safnasjóði.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.