Sunnudaginn 12. nóvember kl. 14 verður boðið upp á sýningarstjóraspjall um sýninguna GILDI, þar sem getur að líta valin verk sem safnið hefur eignast síðan 2008. Þá mun Hólmar Hólm, sýningarstjóri, taka á móti gestum og segja frá sýningunni sem sett er upp í tilefni þess að nú eru 40 ár liðin frá stofnun Hafnarborgar.
Segja má að hvert safn endurspegli gildi þess sem safnar. Á þetta jafnt við um einkasafn eða opinbera stofnun með langa sögu. Safnið endurspeglar það sem skiptir hvern þann máli sem lagði grunn að því – af eigin áhuga og áræðni, af innri þörf eða tilviljun. Þegar safn kemur í hlut samfélagsins má svo segja að það eignist eigið líf en það segir að sama skapi fjöldamargt um það samfélag sem það tilheyrir og vex í takt við. Um tíðaranda og breytilegan smekk fólks, um efnisnotkun og áherslur, um hugmyndir og hugsjónir.
Þeir listamenn sem eiga verk á sýningunni eru Egill Sæbjörnsson, Georg Guðni, Guðný Rósa Ingimarsdóttir, Haraldur Jónsson, Hildigunnur Birgisdóttir, Ingólfur Arnarsson, Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir, Philipp Valenta, Sirra Sigrún Sigurðardóttir og Una Björg Magnúsdóttir.
Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.