Laugardaginn 7. maí kl. 14 verður boðið upp á leiðsögn um sýningu Fléttu og Kristínar Sigurðardóttur, Efnisheimur steinullar, þar sem hönnuðirnir munu segja gestum frá yfirstandandi efnisrannsókn sinni sem liggur til grundvallar sýningunni. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.
Efnisheimur steinullar er samstarfsverkefni Fléttu og Kristínar Sigurðardóttur þar sem leikið er með ólíkar leiðir til að umbreyta steinull í nýtt efni. Steinull sem fellur til við byggingarframkvæmdir er ekki endurnýtt í dag heldur send til urðunar. Hún er eitt af fáum byggingarefnum sem framleidd eru á Íslandi og er meginuppistaða hennar íslensk jarðefni. Sýningin er tilraunakennd og notast er við ólíka miðla til að varpa ljósi á virði hráefnis sem annars færi til urðunar. Myndskeið, ljósmyndir, efnisprufur, hlutir, hljóð og texti flæða saman í ferðalagi um áður ókannaðan efnisheim íslenskrar steinullar.
Kristín Sigurðardóttir (f. 1989) er vöruhönnuður sem býr í Gautaborg. Kristín er hluti af Willow Project sem hefur verið sýnt á Dutch Design Week og á sýningunni Earth Matters í TextielMuseum í Tilburg, Hollandi. Fjallað er um verkefnið í bókunum Radical Matter: Rethinking Materials for a Sustainable Future og Why Materials Matter: Responsible Design for a Better World. Rannsóknarverkefni Fléttu og Kristínar, Efnisheimur steinullar, er beint framhald af útskriftarverkefni Kristínar frá Listaháskóla Íslands 2016, þar sem hún vann með umbreytingu steinullar í svart glerjað efni.
Hönnuðirnir Birta Rós Brynjólfsdóttir (f. 1992) og Hrefna Sigurðardóttir (f. 1989) stofnuðu Fléttu í byrjun árs 2018 en hafa unnið saman að verkefnum tengdum endurvinnslu og uppvinnslu hráefna síðan 2014. Á yfirborðinu einkennast verk þeirra af leikgleði og léttleika en undir niðri krauma gagnrýnar spurningar. Þær setja sér skorður hvað varðar efnisnotkun og vinnuaðferðir í því augnamiði að móta nýjar og sjálfbærari leiðir til að hanna og umgangast hluti. Í höndum Fléttu fá efni og hlutir sem hafa þjónað sínum tilgangi eða nýtast ekki lengur í sínu fyrra hlutverki nýtt líf í nýju samhengi. Verk þeirra hafa verið sýnd víða, bæði hérlendis og á alþjóðlegum vettvangi.
Verkefnið hefur hlotið styrk úr Hönnunarsjóði, Samfélagssjóði Landsbankans og Launasjóði listamanna. Sýningin er hluti af dagskrá HönnunarMars 2022.