Laugardaginn 5. apríl kl. 15 bjóðum við ykkur hjartanlega velkomin á opnun sýningar Jónu Hlífar Halldórsdóttur, Alverundar. Á sýningunni vinnur Jóna Hlíf með samspil texta og mynda og kannar sköpunarmátt tungumálsins – hvernig það tengir okkur og gerir okkur fært að tjá okkur, auk þess hvernig merking flæðir á milli menningarheima. Þannig tekst hún á við það hvað það þýðir að vera manneskja og hvernig tungumálið mótar skilning okkar á heiminum, hugmyndir okkar um eigið sjálf og veruleika.
Ritað mál og myndræn framsetning renna saman og mörkin á milli hins staðbundna og hins algilda verða óljós, þar sem áhorfandinn fær tækifæri til þess að hugleiða brotakennt eðli tungumáls og merkingar og hina mannlegu hvöt til að tjá sig. Þá býður sýningin okkur jafnframt að velta því fyrir okkur hvernig tungumál endurspegla alheiminn og viðleitni okkar til að öðlast skilning á honum, út frá okkur sjálfum. Undir niðri er loks áhersla á hugmyndina um „mannlega tilveru“ og hvort hún verði nokkurn tímann aðskilin frá lífinu í breiðara samhengi.
Jóna Hlíf Halldórsdóttir (f. 1978) útskrifaðist frá fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri 2005, lauk MFA-gráðu frá Glasgow School of Art í Skotlandi 2007 og MA-gráðu í listkennslu frá Listaháskóla Íslands árið 2013. Myndlist Jónu Hlífar hefur á undanförnum árum einkum snúist um að kanna konseptin tíma, verund og ímynd með hliðsjón af fyrirbærunum lýsingu, rými og framsetningu. Þá hefur Jóna Hlíf haldið einkasýningar á ýmsum sýningarstöðum bæði innanlands og erlendis, þar á meðal í BERG Contemporary og Listasafninu á Akureyri. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og eru verk hennar í eigu fjölda opinberra safna hér á landi.
Sýningarstjóri er Hólmar Hólm.
Aðgangur ókeypis – sjáumst í Hafnarborg.