Laugardaginn 17. febrúar kl. 14 bjóðum við ykkur velkomin á leiðsögn á ensku um yfirstandandi sýningar safnsins – Flæðarmál, þar sem litið er yfir farsælan feril listakonunnar Jónínu Guðnadóttur, og Vísa, einkasýningu myndlistarmannsins Þórs Sigurþórssonar sem sýnir ný verk í Sverrissal safnsins. Leiðsögnin er hluti af viðburðaröðinni Á mínu máli sem miðar að því að bjóða gesti velkomna í safnið á ólíkum tungumálum og auka þannig aðgengi fólks með margs konar bakgrunn að Hafnarborg. Viðburðaröðin er styrkt af safnasjóði.
Jónína Guðnadóttir (f. 1943) hefur um árabil verið í framvarðarsveit íslenskra leirlistamanna og vakti snemma athygli fyrir einstaka nytjahluti. Þá hefur hún þróað sjálfstætt myndmál í listaverkum sem bera þekkingu hennar á leirnum gott vitni. Jónína lagði stund á myndlistarnám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Myndlistaskólann í Reykjavík og framhaldsnám í leirlist við Konstfack í Stokkhólmi. Sýningin spannar feril Jónínu, þar sem sjá má úrval af verkum listakonunnar, allt frá nytjahlutum sem hún vann á fyrstu árunum eftir útskrift til verka sem unnin voru á síðastliðnu ári.
Í verkum Þórs Sigurþórssonar má finna viss leiðarstef – vísa – sem áhorfandanum er látið eftir að sjá hvert leiða hann. Þá vinnur listamaðurinn gjarnan með fundna hluti eða hversdagslega hluti sem hann setur í nýtt samhengi svo að óvæntar tengingar myndast þvert á tíma og rúm. Efniviðurinn inniheldur leifar af tíma og vekur upp vangaveltur um endurtekningu, hringrás og gang tímans. Skilningi okkar á hversdagslegum hlutum er þannig snúið á hvolf og okkur birtast naum en næm myndljóð, þar sem reynsla, skynjun og úrvinnsla vísa til hverfuls heims á mörkum ræðni og óræðni.
Aðgangur ókeypis – sjáumst í Hafnarborg.