Laugardaginn 22. mars kl. 13-15 býður Hafnarborg upp á fjöltyngda listasmiðju þar sem ímyndunarafl, blöndun menningarheima og draumar verða kannaðir undir leiðsögn listamannanna Nermine El Ansari og Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur. Tungumál smiðjunnar eru íslenska, enska og arabíska.
Í smiðjunni verður börnum og fullorðnum boðið að búa til sína eigin draumaheima í gegnum klippimyndir. Hvað gerist þegar brot úr íslensku landslagi blandast við mynstur úr persnesku teppi eða arkitektúr frá Sýrlandi? Ímynduðum heimum eru engin takmörk sett, geimskip geta lent á Mýrdalsjökli eða Taj Mahal risið á Sprengisandi. Komdu með fjölskylduna og kannaðu þinn ímyndaða heim! Allur efniviður verður á staðnum.
Nermine El Ansari (f. 1975) er egypsk listakona sem býr til skiptis í Reykjavík, Kaíró og Marseille. Hún er með MA-gráðu í margmiðlun frá Listaakademíunni í París og BA-gráðu í málaralist frá Akademíunni í Versölum.
Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir (f. 1976) er íslensk listakona búsett í Hafnarfirði. Hún er með MA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands, auk BA-gráðu í listasögu frá Háskólanum í Árósum. Ingunn Fjóla er jafnframt stofnandi GETU – hjálparsamtaka.
Á mínu máli er viðburðaröð sem miðar að því að auka aðgengi fólks með margs konar bakgrunn að Hafnarborg með því að bjóða gesti velkomna á ólíkum tungumálum. Viðburðurinn er samstarf Hafnarborgar og GETU – hjálparsamtaka sem með fjölbreyttum viðburðum og félagsstarfi leitast við að stuðla að inngildingu og jákvæðri fjölmenningu. Verkefnið er styrkt af safnasjóði.
Smiðjan fer fram á jarðhæð safnsins. Hún er opin öllum aldurshópum en börn skulu vera í fylgd með foreldri eða forráðamanni. Eins og alltaf er þátttaka í smiðjum sem og aðgangur að sýningum safnsins gestum að kostnaðarlausu.