Je veux vivre – Sigrún Hjálmtýsdóttir

Gleðilegan þjóðhátíðardag, kæru vinir nær og fjær, og verið öll hjartanlega velkomin í Hafnarborg til að fagna með okkur.

Í tilefni dagsins viljum við deila með ykkur þessu myndbandi, þar sem hin ástsæla sópransöngkona Diddú, Sigrún Hjálmtýsdóttir, flytur líflegu aríuna „Je veux vivre“ úr óperunni Roméo et Juliette eftir Gounod, ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara og listrænum stjórnanda hádegistónleika í Hafnarborg.

Safnið er opið í dag kl. 12–17 og aðgangur er ókeypis, eins og venjulega, auk þess sem njóta má lifandi djasstónlistar á safninu í eftirmiðdaginn.

Casta diva – Sigrún Hjálmtýsdóttir

Í þessum mánuði falla því miður niður aðrir hádegistónleikar vegna aðstæðna, þrátt fyrir breytt viðmið um samkomubann, sem tóku gildi í gær. Þá verður áfram nokkur röskun á starfsemi Hafnarborgar, einkum með tilliti til tónleika og annarra stórra viðburða.

Í staðinn munum við þó halda áfram að deila með ykkur efni hér á netinu, bæði tónlist og myndlist, og hér viljum við einmitt deila með ykkur þessum undurfögru tónum, þar sem hin ástsæla sópransöngkona Diddú, Sigrún Hjálmtýsdóttir, syngur aríuna „Casta diva“ úr óperunni Normu eftir Bellini, ásamt Antoníu Hevesi, listrænum stjórnanda hádegistónleika í Hafnarborg, sem leikur á píanó.

Við hlökkum svo til að deila listinni með ykkur áfram, bæði hér á samfélagsmiðlum og eins í raunheimum, nú þegar loksins er búið að opna safnið gestum á ný.

Hafnarfjörður – vefsýning og leiðsögn

Ágústa Kristófersdóttir fjallar hér um valin verk úr safneign Hafnarborgar, sem sýna Hafnarfjörð, hvert með sínum hætti. Þar má sjá bæinn í gegnum augu listamanna – þar á meðal sumra af helstu meisturum íslenskrar myndlistar – sem vinna bæði á ólíkum tímum og með ólíka miðla, svo sem málverk, teikningar, grafík og ljósmyndir.

Verkin sem fjallað er um hér eru eftir Jón Hróbjartsson, Hörð Ágústsson, Nínu Tryggvadóttur, Gunnlaug Scheving, Gretu Björnsson, Eggert F. Guðmundsson, Gunnar Hjaltason, Pétur Friðrik Sigurðsson, Jón Þorleifsson, Erlu Stefánsdóttur, Árna B. Elfar, Spessa og Astrid Kruse Jensen.

Samhliða þessari leiðsögn höfum við þá opnað sérstaka vefsýningu á heimasíðu Sarps, þar sem hægt er að fræðast nánar um verkin, auk þess sem þar má finna upplýsingar um önnur verk í safneign Hafnarborgar.

Leiðsögnin er bæði textuð á íslensku og ensku.

De’ miei bollenti spiriti – Gissur Páll Gissurarson

Í tilefni sumardagsins fyrsta deilum við hér með ykkur nokkrum ljúfum tónum til að hjálpa ykkur að komast í sumarskapið.

Þá syngur Gissur Pál Gissurarson, tenór, hina þróttmiklu aríu „De’ miei bollenti spiriti“ úr La traviata eftir Verdi og Antonía Hevesi, listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, leikur á píanó.

Þá óskum við öllum vinum Hafnarborgar gleðilegs sumars og hlökkum til að sjá ykkur aftur í safninu á sumarmánuðum.

 

Þögult vor – rafræn leiðsögn um sýninguna

Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, fjallar hér um sýninguna Þögult vor, eftir myndlistarkonurnar Herttu Kiiski, Katrínu Elvarsdóttur og Lilju Birgisdóttur. Sýningin opnaði í janúar sem hluti af Ljósmyndahátíð Íslands 2020 en sýningarstjóri er Daría Sól Andrews.

Á sýningunni kalla Lilja, Hertta og Katrín fram hlýjar tilfinningar til náttúrunnar í þeirri von að vekja okkur til umhugsunar um skaðleg áhrif okkar á lífríki jarðarinnar. Andspænis hnattrænni hlýnun beita þær þá bæði ljósmyndamiðlinum og næmri, efnislegri nálgun við umhverfi sem þarfnast jafnt athygli og alúðar.

Sýningin hefur verið framlengd fram í miðjan maí, í ljósi aðstæðna, en meðan safnið er lokað vegna samkomubanns vonum við að þið njótið þess að skoða sýninguna hér í staðinn.

Leiðsögnin er bæði textuð á íslensku og ensku.

Una furtiva lagrima – Gissur Páll Gissurarson

Því miður falla hádegistónleikar mánaðarins niður vegna samkomubanns en við viljum bjóða ykkur upp á eitt lag hér í staðinn, til að létta lundina í aðdraganda páska.

Þá eru það Gissur Páll Gissurarson, tenór, og Antonía Hevesi, píanóleikari og listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, sem flytja aríuna „Una furtiva lagrima“ úr Ástardrykknum eftir Donizetti.

Við hlökkum svo til að sjá ykkur aftur á hádegistónleikum í Hafnarborg – vonandi áður en langt um líður.

Far – niðurtaka og rafræn leiðsögn

Sýningin Far opnaði í tilefni Ljósmyndahátíðar Íslands í upphafi árs en henni lauk í síðustu viku með hertu samkomubanni. Þá höfum við tekið sýninguna niður til þess að geta nýtt bæði þennan tíma og sýningarsalinn til að sinna mikilvægu innra starfi stofnunarinnar, með yfirferð og endurskipulagningu á safnkosti Hafnarborgar.

Á sýningunni mátti sjá samtal á milli verka þeirra Þórdísar Jóhannesdóttur, myndlistarmanns, og Ralphs Hannam, áhugaljósmyndara sem starfaði hér á landi um miðja síðustu öld. Þrátt fyrir að sýningunni sé lokið, gefst ykkur nú kostur á að upplifa hana hér í netheimum í gegnum þessa rafrænu leiðsögn, þar sem Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, segir frá tilkomu sýningarinnar, sköpunarferli listamannanna og völdum verkum á sýningunni.

Við þökkum öllum sem lögðu leið sína í Hafnarborg til að skoða sýninguna, á meðan henni stóð, og vonum að allir megi njóta hennar hér – bæði þeir sem eru að sjá hana í fyrsta sinn og þeir sem hafa séð hana áður. Við hvetjum ykkur enn fremur til að sækja innblástur í þeirra nálgun og finna áhugaverð sjónarhorn í kringum ykkur, í ykkar eigin daglega lífi.

Leiðsögnin er bæði textuð á íslensku og ensku.

Sarpur – heimild til að myndvæða skráningar

Hafnarborg og Myndstef hafa nú undirritað samning um stafræna birtingu á afritum af safnkosti úr rafrænum safnmunaskrám.

Þetta veitir Hafnarborg heimild til að myndvæða allar skráningar safnsins í menningarsögulega gagnasafninu Sarpi og bætir þar með aðgengi almennings að upplýsingum um safnkost Hafnarborgar.

Þá er unnið að því að gera þær myndir af safnkosti Hafnarborgar sem hafa hingað til ekki verið aðgengilegar almenningi sýnilegar í Sarpi.

Hafnarborg hlýtur Íslensku tónlistarverðlaunin 2020

Þann 11. mars hlaut Hafnarborg Íslensku tónlistarverðlaunin 2020 fyrir viðburð ársins (einstaka tónleika) í flokki sígildrar og samtímatónlistar, fyrir opnunartónleika sýningarinnar Hljóðana, sem var jafnframt hluti af dagskrá Myrkra músíkdaga.

Hafnarborg vill þakka slagverksleikaranum Jennifer Torrence, fyrir ógleymanlega túlkun á verkum þeirra Toms Johnson og Bergrúnar Snæbjörnsdóttur, og Þráni Hjálmarssyni, sýningarstjóra, fyrir hans frábæra starf. Einnig þökkum við öllu listafólkinu sem átti verk á sýningunni og tók þátt í viðburðadagskrá í tengslum við hana.

Það er ekki á hverjum degi sem listasafn fær tónlistarverðlaun en í Hafnarborg hefur tónlistinni í sínum fjölbreytilegu myndum verið sinnt allt frá fyrstu árum starfseminnar. Þessi verðlaun eru okkur hvatning til að halda áfram á þeirri braut.

Takk fyrir okkur!

Tónlistarsmiðjur – Tónagull po polsku í Hafnarborg

Hafnarborg og Hafnarfjarðarbær hafa nú gerst stuðningsaðilar við verkefnið Tónagull po polsku (Tónagull á pólsku), þar sem boðið verður upp á vikulegar tónlistarsmiðjur fyrir pólskumælandi börn og foreldra í Hafnarborg frá og með sunnudeginum 8. mars. Verkefnið nýtur einnig stuðnings Pólska sendiráðsins.

Tónagull er tónlistarnámskeið sem stofnað var af Helgu Rut Guðmundsdóttur, tónmenntakennara, með það markmið að mæta þörfum ungbarna, 0-3 ára, og foreldrum þeirra. Fyrsta Tónagullsnámskeiðið var haldið árið 2004 og hafa þau verið haldin samfleytt síðan en hundruðir fjölskyldna hafa sótt þau ár hvert. Námskeiðin eru haldin einu sinni í viku og byggjast á frjálslegri nálgun, þar sem virk þátttaka barna og foreldra er aðalatriði. Jafnframt hefur efni námskeiðanna frá upphafi byggst aðallega á íslenskum þulum og vögguvísum, þ.e. móðurmáli þátttakenda.

Árið 2019 fór svo fram fyrsta tónlistarnámskeiðið á pólsku. Þar er beitt sömu aðferð og á upprunalegu námskeiðunum á íslensku, með þýddum útgáfum af sumum íslensku laganna, auk þess sem unnið er með pólsk barnalög, þulur og vísur. Tónagull po polsku fékk strax góðar undirtektir og hefur notið mikilla vinsælda hjá pólska samfélaginu á Íslandi.

Frekari upplýsingar um tónlistarsmiðjurnar, tímasetningu, skráningu og fleira, má finna hér á pólsku.

Vinsamlegast athugið að tónlistarsmiðjurnar falla tímabundið niður í ljósi núverandi aðstæðna.