Tónleikadagskrá – haust/vetur 2023

Þann 1. september hefst nýtt tónleikaár í Hafnarborg en framundan er fjölbreytt dagskrá, þar sem fram mun koma tónlistarfólk í fremstu röð, auk ungra og efnilegra flytjenda. Þá hefja Síðdegistónar fjórða starfsár sitt með tónleikum Kjalar Martinssonar Kollmar á föstudag kl. 18 og í næstu viku hefja hinir sívinsælu hádegistónleikar göngu sína á ný en tónleikaröðin hefur verið hluti af dagskrá Hafnarborgar síðan árið 2003, undir listrænni stjórn Antoníu Hevesi, píanóleikara. Á misserinu verða einnig haldnir hausttónleikar samtímatónleikaraðarinnar Hljóðana sem tileinkuð er tónlist frá 20. og 21. öld.

Tónleikadagskráin í haust/vetur 2023

1. september kl. 18
Síðdegistónar
Kjalar Martinsson Kollmar ásamt hljómsveit

5. september kl. 12
Hádegistónleikar
Ívar Helgason

3. október kl. 12
Hádegistónleikar
Gissur Páll Gissurarson

8. október kl. 20
Hljóðön: Minni
Berglind María Tómasdóttir og Júlía Mogensen

13. október kl. 18 (ath. ný dagsetning)
Síðdegistónar
Hrafnhildur Magnea Ingólfsdóttir ásamt hljómsveit

7. nóvember kl. 12
Hádegistónleikar
Bryndís Guðjónsdóttir

10. nóvember kl. 18
Síðdegistónar
Los Bomboneros

5. desember kl. 12
Hádegistónleikar
Diddú

8. desember kl. 18
Síðdegistónar
Kristjana Stefáns ásamt hljómsveit

Sönghátíð í Hafnarborg – master class í aðalsal

Sönghátíð í Hafnarborg hefur frá upphafi staðið fyrir master class námskeiði fyrir lengra komna söngnemendur og söngvara. Í ár stendur námskeiðið yfir dagana 19. til 22. júní og fyllir tónlistin því húsakynni Hafnarborgar á meðan. Námskeiðið er haldið í aðalsal safnsins frá morgni til seinniparts dags, svo gestir sem heimsækja sýningar safnsins fá að njóta söngs þátttakenda í leiðinni. Námskeiðinu lýkur svo með tónleikum nemenda sem fara fram fimmtudaginn 22. júní kl. 20 sem hluti af dagskrá Sönghátíðar. Leiðbeinandi námskeiðsins að þessu sinni er stórsöngvarinn Kristinn Sigmundsson en honum til fulltingis er píanóleikarinn Matthildur Anna Gísladóttir, sem mun einnig koma fram með nemendum á tónleikunum.

Nánari upplýsingar um Sönghátíð í Hafnarborg má finna á heimasíðu hátíðarinnar, www.songhatid.is.

Stórafmæli – 40 ár liðin frá stofnun Hafnarborgar

Í dag eru 40 ár liðin síðan hjónin Ingibjörg Sigurjónsdóttir og Sverrir Magnússon afhentu Hafnarfjarðarbæ gjafabréf, dagsett 1. júní 1983, að húseign þeirra við Strandgötu 34 ásamt veglegu listaverkasafni sem myndaði grunninn að Hafnarborg – menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar.

Höfðu þau hjón rekið Hafnarfjarðar Apótek hér í húsinu um áratuga skeið, auk þess sem þau höfðu safnað fjölda listaverka yfir ævina, sem þau vildu að samfélagið myndi njóta, en frá stofnun hefur hlutverk Hafnarborgar verið að efla alhliða lista- og menningarlíf í Hafnarfirði, svo sem með rekstri salarkynna fyrir listsýningar, tónleika og aðra skylda starfsemi.

Þá vinnur starfsfólk Hafnarborgar nú að uppsetningu nýrra sýninga í safninu og því bjóðum við ykkur að ganga í bæinn annað kvöld, föstudag, milli kl. 18 og 21, þar sem gestir munu fá að skyggnast á bak við tjöldin í safninu og sjá hvernig sýning verður til.

Boðið verður upp á afmælisköku, kaffi og létta drykki.

Verið hjartanlega velkomin.

Hádegistónleikar í 20 ár – takk fyrir okkur!

Þann 2. maí fóru fram síðustu hádegistónleikar vetrarins hér í Hafnarborg en tónleikarnir mörkuðu jafnframt lok tuttugasta starfsárs hádegistónleikaraðar Hafnarborgar.

Þá þökkum við Valgerði Guðnadóttur kærlega fyrir sönginn og eins þökkum við Antoníu Hevesi, píanóleikara, kærlega fyrir sitt dygga starf en Antonía hefur verið listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar frá upphafi.

Á sama tíma færum við öllum þeim sem hafa komið fram á liðnum vetri og síðustu tveimur áratugum fyrir að taka þátt í að stuðla að öflugu menningarlífi í Hafnarfjarðarbæ með fríum hádegistónleikum fyrir alla sem hafa áhuga á tónlist.

Hlökkum til að taka á móti ykkur aftur í haust þegar tónleikaröðin hefur göngu sína á ný.

Aðalúthlutun safnasjóðs 2023 – verkefni Hafnarborgar

Tilkynnt hefur verið um aðalúthlutun safnasjóðs árið 2023 en að þessu sinni hlaut Hafnarborg styrki til tveggja verkefna.

Annars vegar er það ný viðburðadagskrá Hafnarborgar, Á mínu máli, sem miðar að því að auka aðgengi fólks með ólíkan bakgrunn að safninu með því að bjóða gesti velkomna á ýmsum tungumálum, en fyrsti viðburður dagskráarinnar verður haldinn sunnudaginn 19. febrúar.

Þá hlaut safnið styrk til útgáfu í tengslum við væntanlega yfirlitssýningu safnsins á verkum Jónínu Guðnadóttur, myndlistarmanns, sem hefur verið í framvarðarsveit íslenskra leirlistarmanna frá því að ferill hennar hófst upp úr miðjum sjöunda áratugnum.

Það var Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, sem afhenti Aldísi Arnardóttur, forstöðumanni Hafnarborgar, styrkina við hátíðlega athöfn í Þjóðminjasafni Íslands mánudaginn 13. febrúar.

Starfsfólk Hafnarborgar þakkar innilega fyrir styrkina, sem stuðla að því að safnið fái enn betur þjónað samfélaginu og verið vettvangur margradda samtals um menningu og listir.

Haustsýning Hafnarborgar 2023 – vinningstillaga

Listráð Hafnarborgar hefur valið Landslag fyrir útvalda, í sýningarstjórn Evu Línar Vilhjálmsdóttur og Oddu Júlíu Snorradóttur, sem haustsýningu ársins 2023. Í tillögu sinni fjalla sýningarstjórarnir um hvernig það er að búa í heimi yfirvofandi breytinga og í samfélagi sem kallar statt og stöðugt eftir því að einstaklingar axli aukna ábyrgð á hnattrænum vandamálum. Þá sé þetta í raun kapítalísk tálsýn sem hvetur okkur til að smíða einstaka sjálfsmynd, frábrugðna öllum öðrum.

Þegar tálsýnin hrynur svo í hugum okkar eins og spilaborg, liggur hún kylliflöt og loftlaus sem innantóm blekking. Okkur fallast hendur gagnvart máttleysinu og við flýjum – en hvert? Það er ekki lengur „hot“ að fara í heimsreisu, Evrópa er eiginlega eins og að fara út í bakgarð og Tene er bara fyrir gamlingja. Lífsflóttinn sem slíkur hefur þó ætíð verið órofa tengdur við það að leita á nýjar slóðir í gegnum listsköpun en nú þurfum við aftur að leita lengra en nokkurn tímann fyrr.

Loks má greina ákveðið myndmál og fagurferði sem fæst við hálfvanmáttugar tilraunir okkar til þess að hafa áhrif á heildarmyndina en þátttakendur sýningarinnar eiga það allir sameiginlegt að viðurkenna þessa tálsýn og leita mismunandi leiða til að flýja þá tilfinningu um máttleysi sem fylgir. Sýningin viðheldur þannig togstreitunni sem felst í flóttanum og upplifun fólks af samtímanum, enda þótt hún veiti enga lausn aðra en að leyfa gestum að tapa sér um stund í landslagi fyrir útvalda.

Eva Lín Vilhjálmsdóttir útskrifaðist með BA í heimspeki frá Háskóla Íslands árið 2019 og MA í listheimspeki frá King’s College í London árið 2022.

Odda Júlía Snorradóttir útskrifaðist með BA í listfræði frá Háskóla Íslands árið 2021 og leggur nú stund á meistaranám í sýningargerð við Háskóla Íslands.

Nöfn þátttakenda og frekari upplýsingar verða birtar síðar.

Þessi sýning verður sú þrettánda í haustsýningarröð Hafnarborgar en verkefnið hefur það að markmiði að gefa sýningarstjórum sem ekki eiga langan feril að baki kost á að senda inn tillögu að sýningu í safninu. Það er Listráð Hafnarborgar ásamt forstöðumanni sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert.

Hádegistónleikar – dagskráin fram á vor 2023

Það er okkur ánægja að kynna dagskrá hádegistónleika fram á vor 2023 en tónleikaröðin hefur verið hluti af dagskrá Hafnarborgar síðan árið 2003 og er því á sínu tuttugasta starfsári. Þá munu fyrstu hádegistónleikar nýs árs fara fram í aðalsal Hafnarborgar þriðjudaginn 7. febrúar kl. 12. Þar mun koma fram Erla Björg Káradóttir, sópran, ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara og listrænum stjórnanda hádegistónleikaraðarinnar.

Dagskrá hádegistónleika fram á vor er eftirfarandi:

7. febrúar
Erla Björg Káradóttir, sópran

7. mars
Bernadett Hegyi, sópran

4. apríl
Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, mezzósópran

2. maí
Valgerður Guðnadóttir, mezzósópran

Hádegistónleikar eru vanalega á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann. Þeir hefjast tímanlega kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis.

Dagskrá er birt með fyrirvara um breytingar.

Listaverkagjöf og sýning á verkum Sóleyjar Eiríksdóttur

Á síðastliðnu ári bættist vegleg gjöf við safneign Hafnarborgar þegar safninu var fært úrval voldugra skúlptúra úr steinsteypu eftir hafnfirsku listakonuna Sóleyju Eiríksdóttur (1957–1994). Bætast verkin við það safn verka sem Hafnarborg varðveitir þegar eftir Sóleyju og spanna knappan en kraftmikinn feril listakonunnar.

Verkin afhenti Brynja Jónsdóttir, dóttir Sóleyjar og Jóns Axels Björnssonar, myndlistarmanns, safninu formlega síðasta haust en laugardaginn 14. janúar næstkomandi stendur til að opna sýningu á verkum listakonunnar í aðalsal Hafnarborgar.

Á sýningunni verða meðal annars sýnd þau verk sem nú hafa bæst við safneign Hafnarborgar, auk fleiri verka í eigu Hafnarborgar, safna og einkasafnara. Leirinn var gegnumgangandi efni í verkum listakonunnar og vann hún fyrst um sinn hefðbundna leirmuni sem telja má til nytjalistar. Síðar á ferlinum öðlast teikningar og myndefni hennar svo sjálfstætt líf í stærri þrívíðum verkum.

Sýningin ber titilinn Gletta og sýningarstjórar eru Aldís Arnardóttir og Aðalheiður Valgeirsdóttir.

Sóley Eiríksdóttir lagði stund á nám við málmiðnaðardeild Iðnskólans í Hafnarfirði í eitt ár eftir nám við Flensborgarskólann. Árið 1975 hóf hún svo nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, fyrst við kennaradeild en hún útskrifaðist síðan frá leirlistadeild skólans árið 1981. Sóley sýndi verk sín víða á stuttum ferli, meðal annars á Kjarvalsstöðum, í Hafnarborg, Gallerí Langbrók og Listasafni ASÍ, auk þess sem hún hélt sýningar í Bandaríkjunum, Finnlandi, Lúxemburg, Kanada og Þýskalandi.

Kærleikskúlan 2022 – fáanleg í safnbúð Hafnarborgar

Kærleikskúlan í ár, Kúla með stroku, eftir þýsku listakonuna Karin Sander er nú fáanleg í safnbúð Hafnarborgar. Kúlan er framleidd í takmörkuðu upplagi en á síðasta ári seldist kúlan upp áður en sölutímabili hennar lauk. Allur ágóði af sölunni rennur til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenna.

Rauð pensilstroka svífur í trénu, málningarvottur á stökkri glerkúlu, liturinn ljómar og hreyfist, sem tákn um endapunkt ársins.

Karin Sander strýkur penslinum einu sinni ákveðið eftir gagnsærri Kærleikskúlunni. Verknaðurinn er skýr listræn athöfn þar sem þykk málningarstrokan situr eftir á sléttu, kúptu yfirborði kúlunnar, sjáanleg í þrívídd frá öllum hliðum, einnig gegnum íhvolfu hliðina. Strokan er tjásuleg í annan endann og afhjúpar þannig seigju málningarinnar og lýsir athöfn sem er í senn varfærin og röskleg. Liturinn sjálfur sker sig úr umhverfinu á áberandi hátt og verður tákn um aðgát og sjálfsígrundun. Kúla með stroku er því hreyfanlegt, síbreytilegt málverk þar sem staðsetningin verður hluti af málverkinu sjálfu.

Karin Sander (f. 1957) býr og starfar í Berlín og Zürich en hún hefur verið viðloðandi íslenskt listalíf síðan snemma á tíunda áratugnum. Í listsköpun sinni rýnir hún í tilbúnar aðstæður og rými út frá formgerðar-, félags- og sögulegu samhengi og gerir sýnileg á ólíka vegu með hjálp ýmissa miðla. Verk hennar hafa verið sýnd á einkasýningum og hátíðum um allan heim og finnast í opinberum söfnum og safneignum víða um lönd. Hún hefur gegnt prófessorsstöðu í arkitektúr og listum við ETH (Swiss Federal Institute of Technology) í Zürich síðan 2007. Þá verður Sander, ásamt Philip Ursprung, fulltrúi Sviss á átjánda alþjóðlega arkitektúrtvíæringnum í Feneyjum árið 2023.

Kærleikskúlan verður til sölu í safnbúð Hafnarborgar frá 8. til 23. desember, á meðan birgðir endast.

Aðalúthlutun safnasjóðs 2022 – verkefni Hafnarborgar

Á Farskóla FÍSOS, Félags íslenskra safna og safnmanna, sem haldinn var á Hallormsstað dagana 21. til 23. september síðastliðinn, afhenti Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, forstöðumönnum viðurkenndra safna styrki úr safnasjóði við hátíðlega athöfn af hálfu safnaráðs.

Hlaut Hafnarborg að þessu sinni styrki til þriggja verkefna, sem hefur ýmist verið hrint í framkvæmd nú þegar eða eru á döfinni. Verkefnin þrjú sem hljóta styrk úr aðalúthlutun sjóðsins eru:

  • Gunnar Örn Gunnarsson, yfirlitssýning (1.200.000 kr.)
  • Sóley Eiríksdóttir, útgáfa og sýning (1.200.000 kr.)
  • Listir, hugarefling og vellíðan: Hittumst á safninu (550.000 kr.)

Starfsfólk Hafnarborgar þakkar innilega fyrir þá styrki sem eru veittir safninu, sem stuðla að því að safnið fái enn betur þjónað samfélaginu og verið vettvangur skapandi samtals.