Málverk – ekki miðill

Sýningin fjallar um málverkið og forsendur þess í því eftir-miðla umhverfi sem einkennir list samtímans. Það eru margskonar ástæður fyrir því að málverkið blómstrar í þessum nýju aðstæðum og sýningin er tilraun til þess að fjalla um nokkrar þeirra. Hún er tilraun til að hugsa um málverkið, ekki útfrá miðli (í hefðbundnum skilningi) heldur sem; annarsvegar ákveðna aðferð við að sjá, og hinsvegar ákveðna aðferð við myndræna framsetningu sem ekki er upptekin af efnislegum eða sögulegum eiginleikum miðils.

Verkin á sýningunni eru valin með það í huga að gefa áhorfandanum tækifæri til að velta málverkinu fyrir sér útfrá þessu nýja samhengi.

Það að sjá er alltaf það að sjá frá ákveðnu sjónarhorni. Það að sjá felur því í sér ákveðna skynræna / vitsmunalega afstöðu. Málverkið sem aðferð við að sjá hefur hér þá merkingu að vera ákveðin afstaða, ákveðin aðferð við að greina og gera skiljanlegar þær upplifanir sem við verðum fyrir. Skynjun er ekki hrein, heldur er hún alltaf undir áhrifum frá þekkingu, viðhorfum og hugmyndum. Málverkið er staður þar sem skynjun okkar tekur á sig efnislega mynd.

Sem aðferð við myndræna framsetningu hefur málverkið komið aftur til sjálfs sín á nokkuð þversagnarkenndan hátt. Sem framsetningarmáti einkennist málverkið bæði af áhuga á og skeytingarleysi um, tíma, stíl og þróun miðilsins. Þessi framsetningarmáti er ekki bundinn af hugmyndum um framþróun eða sögu, en er þrátt fyrir það eða meðfram því upptekinn af aðferðum sínum.

Það er ekki neinn einn samnefnari með þeim listamönnum sem taka þátt í sýningunni en með því að stefna þeim saman fæst ákveðin mynd af málverki, mynd sem er ekki bundin við miðil.

Listamenn á sýningunni eru Fritz Hendrik Berndsen, Hildur Bjarnadóttir, Hulda Stefánsdóttir, Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir, Jakob Veigar Sigurðsson, Magnús Helgason, Melanie Ubaldo, Sigurður Guðjónsson og Þorgerður Þórhallsdóttir.

Sýningarstjóri er Jóhannes Dagsson en hugmynd hans að sýningunni var valin úr innsendum tillögum síðastliðið haust þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu í safninu 2017.