Feneyjatvíæringurinn 2017 – Egill Sæbjörnsson

Egill Sæbjörnsson verður fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum, sem haldinn verður í 57. sinn á næsta ári. Sýningarstjóri íslenska skálans að þessu sinni er hin þýska Stefanie Böttcher, listfræðingur og sýningarstjóri. Í fréttatilkynningu Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar, þar sem greint er frá niðurstöðu fagráðsins, segir:

„Uppátækjasemin og skopskynið sem einkennir verkefni Egils, auk færni hans í að draga saman aðskilda heima með notkun mismunandi miðla til þess að skapa heilsteypt heildarumhverfi þar sem raunveruleikinn skarast á við hið ímyndaða, mun fanga athygli áhorfenda á Feneyjartvíæringnum árið 2017, með sínum marglaga heimi sem endurspeglar okkar samtíma og á erindi við heiminn allan.“ 

Egill Sæbjörnsson (f. 1973) býr og starfar í Berlín og Reykjavík. Verk hans og gjörningar hafa meðal annars verið sýnd í Hamburger Bahnhof, Frankfurter Kunstverein, Kölnischer Kunstverein, The Baryshnikov Art Center í New York, Oi Futuro í Rio de Janeiro, PS1 MoMA, Kiasma í Helsinki og Nýlistasafni Ástralíu í Sydney. Egill var tilnefndur til Carnegie-listverðlaunanna árið 2010 og verk hans má finna í þónokkrum einkasöfnum. Egill hefur auk þess gefið út þrjár bækur með verkum sínum og fimm plötur með tónlist sinni. Egill vinnur með galleríunum i8 í Reykjavik og Hopstreet Gallery í Brussel.

Við hjá Hafnarborg óskum Agli hjartanlega til hamingju og hlökkum til að vinna með honum að sýningu hans sem opnar í Hafnarborg í lok október næstkomandi.