Sýningarstjóraspjall – AFLÝST

Vegna mikils fjölda nýlega greindra Covid-19 smita í samfélaginu hefur verið ákveðið að aflýsa sýningarstjóraspjallinu um óákveðin tíma.

Sunnudaginn 20. september kl. 14 mun annar sýningarstjóri sýningarinnar Villiblómsins, Becky Forsythe, ræða við gesti safnsins um sýninguna.

Villiblómið byggir á samstarfi alþjóðlegra listamanna og sýningarstjóra frá Kanada og Íslandi. Þar beina listamennirnir sjónum sínum að plönturíkinu og margræðum birtingarmyndum blóma á norðurslóðum. Sýningarsalurinn umbreytist í engi fagurra blóma, sem maðurinn hefur skapað í ólíkum myndum og minna á tengingu okkar við umhverfið. Þar blómstra hugmyndirnar og upp spretta ýmsar spurningar um stöðu okkar í heimi sem tekur stöðugum breytingum. Þá verður villiblómið jafnt tákn um mátt og mýkt – hið hverfula og smáa jafnt sem hið óstöðvandi afl náttúrunnar.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Arna Óttarsdóttir, Asinnajaq, Eggert Pétursson, Emily Critch, Jón Gunnar Árnason, Justine McGrath, Katrina Jane, Leisure, Nína Óskarsdóttir, Rúna Þorkelsdóttir og Thomas Pausz. Villiblómið er fyrsta samstarfsverkefni sýningarstjóranna Becky Forsythe og Penelope Smart en samstarf þeirra byggir á nýju og kraftmiklu samtali um náttúru, vald og kvenleika. Þær koma báðar frá Kanada en þær kynntust fyrir nokkrum árum í Banff Centre for the Arts and Creativity.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir – spjallið fer fram á ensku.