Sumarnámskeið 2022 – myndlist og tónlist

Hafnarborg býður upp á myndlistar- og tónlistarnámskeið fyrir börn á aldrinum 6–12 ára í sumar, líkt og fyrri ár. Farið verður í rannsóknarleiðangra og undirstöðuatriði myndlistar kynnt í gegnum rannsóknir á umhverfinu, sýningar í safninu og skapandi vinnu. Unnin verða verkefni í fjölbreytta miðla – teiknað, málað og mótað – með það að markmiði að þjálfa sjónræna athygli, örva skapandi hugsun og persónulega tjáningu barnanna.

Í boði eru tvö 5 daga námskeið og eitt 4 daga námskeið fyrir aldurshópana 6–9 ára og 10–12 ára. Ekkert námskeiðanna verður eins og því er börnum velkomið að taka þátt í fleiri en einu af námskeiðunum. Þá verður námskeiðið sem hefst þann 20. júní með tónlistar- og söngívafi í tengslum við Sönghátíð í Hafnarborg. Lýkur því námskeiði með þátttöku barnanna í fjölskyldutónleikum á Sönghátíð föstudaginn 24. júní kl. 17.

Myndlistarkennari er Unnur Mjöll S. Leifsdóttir og tónlistarkennari er Kolbrún Berglind Grétarsdóttir.


Boðið verður upp á eftirfarandi sumarnámskeið:

13. júní–16. júní*
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára: kl. 13:00–16:00
*Athugið að ekki er kennt á þjóðhátíðardaginn 17. júní.

20. júní–24. júní
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára: kl. 12:30–15:30

27. júní–1. júlí
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára: kl. 13:00–16:00


Námskeiðsgjald er 14.900 krónur fyrir 5 daga námskeið og 11.920 krónur fyrir 4 daga námskeið. Veittur er systkinaafsláttur: fullt gjald er greitt fyrir eitt barn en 50% afsláttur er veittur af námskeiðsgjaldi annarra systkina. Þá eru foreldrar og forráðamenn vinsamlegast beðnir að láta vita ef barn er með sérþarfir sem taka þarf tillit til.

Athugið að fjöldi þátttakenda í sumarnámskeiðunum er takmarkaður.

Skráning er opin frá mánudeginum 9. maí í gegnum vef Hafnarfjarðarbæjar eða beint á skráningarsíðu. Frekari upplýsingar um sumarnámskeiðin eru veittar í síma 585 5790 eða í gegnum netfangið [email protected].