Líkt og undanfarin ár, gefst sýningarstjórum tækifæri til að senda inn tillögur að haustsýningu næsta árs í Hafnarborg. Haustsýningaröðin hóf göngu sína árið 2011 og hafa síðan verið settar upp ellefu sýningar í röðinni. Haustsýning Hafnarborgar í ár, Samfélag skynjandi vera, sem opnaði 28. ágúst síðastliðinn, var valin með sama hætti, úr þeim tillögum sem bárust á síðasta ári.
Markmiðið með því að óska eftir innsendum tillögum er að fá tækifæri til að velja til samstarfs sýningarstjóra eða sýningarstjórateymi, sem leggur fram áhugaverða sýningartillögu, auk þess að kalla nýtt fólk til leiks. Eru sýningarstjórar með stuttan feril að baki því sérstaklega hvattir til að sækja um. Það hefur enda sýnt sig að fyllsta ástæða er til að halda úti slíku verkefni en út frá því hafa orðið til fjölbreyttar sýningar, sem vakið hafa athygli og fengið góða aðsókn.
Óskað er eftir hugmyndum að samsýningum þar sem viðfangsefni, vinnuaðferð eða aðrar hugmyndir tengja verk listamanna en einnig koma til greina sýningar sem fela í sér greiningu eða sérstaka sýn á verk ákveðins listamanns. Jafnt koma til greina sýningar á verkum samtímalistamanna og sýningar sem fela í sér sögulega greiningu. Það er listráð Hafnarborgar, ásamt forstöðumanni, sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna.
Vinsamlegast athugið að frestur til að skila inn tillögum hefur verið framlengdur um tvær vikur til miðnættis sunnudaginn 24. október næstkomandi.
Aðeins er tekið við tillögum í tölvupósti á netfangið [email protected].
Umsóknarferli
Umsóknarferlið er tvískipt. Vinsamlegast kynnið ykkur ferlið vel með því að fara yfir þau atriði sem óskað er eftir hér fyrir neðan.
1. hluti
Í fyrri umferð er óskað eftir eftirfarandi upplýsingum:
- Lýsingu á verkefninu þar sem lögð er áhersla á hugmyndina að baki sýningunni (hámark 1000 orð).
- Ferilskrá(m) sýningarstjóra.
- Stuttum ferilskrám listamanns eða -manna, auk annarra sem lagt er til að verði hluti af sýningarverkefninu.
Gefa skal eins nákvæma lýsingu og unnt er, innan uppgefinna marka um orðafjölda. Einnig er leyfilegt er að láta myndefni, sem er lýsandi fyrir verkefnið, fylgja tillögunni, þó ekki séu gerðar kröfur um slíkt í fyrri umferð. Þá er umsækjendum bent á að kynna sér vel húsnæði Hafnarborgar áður en tillögur eru sendar inn. Listráð Hafnarborgar, ásamt forstöðumanni, metur innsendar tillögur og velur úr hópi þeirra tillögur til frekari skoðunar í annarri umferð.
2. hluti
Sýningarstjórum, sem eiga þær tillögur sem valdar eru til frekari skoðunar, verður boðið að kynna hugmyndir sínar og senda inn ítarefni, s.s. sýningarskrár, myndefni eða myndbönd, auk þess sem vinna þarf að raunhæfri fjárhagsáætlun fyrir verkefnið. Reiknað er með að sýningin og vinnan við hana falli að fjárhagsáætlun safnsins, ellegar verði leitað leiða til að fá sérstakan stuðning við verkefnið.
Við mat á tillögum verða eftirfarandi atriði skoðuð:
- Val á listamönnum.
- Hvort sýningin kynni nýstárlega sýn á myndlist, t.d. innihald og/eða miðla.
- Hvort um sé að ræða ný eða eldri verk eða jafnvel blöndu hvors tveggja.
- Hvort sýningin hafi sérstaka skírskotun til Hafnarborgar, þ.e. safneignar, umhverfis, bæjarlífs o.s.frv.
- Hvort sýningin nýti sýningarrými Hafnarborgar á frumlegan hátt.
- Ferill sýningarstjóra (sérstaklega er leitað eftir sýningarstjórum sem ekki eiga langan feril að baki).
- Tillögur að dagskrá í tengslum við sýninguna (leiðsögn, málþing, námskeið o.s.frv.).
- Tillögur að hugsanlegri útgáfu.
- Að kostnaður við verkefnið sé innan viðráðanlegra marka (nánari útfærsla kostnaðar fer fram í síðari hluta ferlisins).
Teikningar af sölum Hafnarborgar má finna hér. Þær eru ætlaðar til viðmiðunar við undirbúning tillagna en ekki er þess krafist að sýningar séu hannaðar nákvæmlega inn í rýmið.
Allar tillögur skulu sendar á netfangið [email protected], merktar „Haustsýning 2022“. Í kjölfarið verður send staðfesting á því að tillagan hafi verið móttekin en bent er á að hafa skal samband í síma 585 5790, berist sú staðfesting ekki. Þá verða allir umsækjendur upplýstir um það hvort tillaga þeirra hafi hlotið brautargengi eður ei, er líða tekur á ferlið. Allar niðurstöður verða sendar með tölvupósti.
Nánari upplýsingar veitir skrifstofa Hafnarborgar í síma 585 5790.