Sumarnámskeið Hafnarborgar 2020

Í sumar verður boðið upp á myndlistarnámskeið fyrir börn á aldrinum 6–12 ára í Hafnarborg. Farið verður í rannsóknarleiðangra og undirstöðuatriði myndlistar kynnt í gegnum rannsóknir á umhverfinu, sýningar í safninu og skapandi vinnu.

Í boði eru þrjú 5 daga námskeið fyrir aldurshópana 6–9 ára og 10–12 ára, þar sem unnin verða verkefni í fjölbreytta miðla – teiknað, málað og mótað – með það að markmiði að þjálfa sjónræna athygli, örva skapandi hugsun og persónulega tjáningu barnanna. Ekkert námskeiðanna verður eins og er börnum því velkomið að taka þátt í fleiri en einu námskeiði, eins og fyrri ár. Leiðbeinendur verða Ólöf Bjarnadóttir og Unnur Mjöll S. Leifsdóttir.

Síðasta námskeiðið verður svo með sérstöku sönglistarívafi, þar sem annar hluti dagsins fer í að vinna með myndlist og hinn hluti dagsins fer í að vinna með tónlist, undir handleiðslu Ingibjargar Fríðu Helgadóttur og Sigurðar Inga Einarssonar, en í tónlistarsmiðjunum verður megináhersla lögð á að virkja og efla sköpunakraft þátttakenda – allt má, ekkert er bannað og engar hugmyndir eru lélegar.

Í tónlistarsmiðjunum vinna þátttakendur með tónlist og texta að einhvers konar lokaafurð sem verður síðan flutt á fjölskyldutónleikum á Sönghátíð í Hafnarborg. Það er velkomið að koma með og spila á sín eigin hljóðfæri, syngja eða jafnvel búa til nýtt hljóðfæri. Það er þó heldur ekki nauðsynlegt að kunna á hljóðfæri, því leiðbeinendurnir munu sjá til þess að allir fái að láta ljós sitt skína. Þá verður frítt inn á fjölskyldutónleikana sem munu fara fram föstudaginn 3. júlí kl. 17.

Boðið verður upp á eftirfarandi sumarnámskeið:

12.–19. júní
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára: kl. 13:00–16:00

22. júní–26. júní
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára: kl. 13:00–16:00

29. júní–3. júlí
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára:kl. 13:00–16:00

Námskeiðsgjald er 14.000 krónur fyrir 5 daga námskeið.

  • Systkinaafsláttur: fullt gjald er greitt fyrir eitt barn en 50% afsláttur er veittur af námskeiðsgjaldi annarra systkina.
  • Vinsamlegast látið vita ef barn er með sérþarfir sem taka þarf tillit til.

Opnað verður fyrir skráningu miðvikudaginn 13. maí í gegnum umsóknarvefinn Völu. Athugið að fjöldi þátttakenda í sumarnámskeiðunum er takmarkaður. Frekari upplýsingar um sumarnámskeiðin eru veittar í síma 585 5790 eða í gegnum netfangið
hafnarborg@hafnarfjordur.is.