Samkomubann – opið eins og venjulega frá 4. maí

Hafnarborg opnar gestum á ný, í samræmi við breytt viðmið um samkomubann, frá og með mánudaginum 4. maí. Opið verður eins og venjulega, alla daga, nema þriðjudaga, kl. 12–17, og aðgangur er ókeypis.

Í Hafnarborg stendur nú yfir sýningin Þögult vor, eftir Herttu Kiiski, Katrínu Elvarsdóttur og Lilju Birgisdóttur, í sýningarstjórn Daríu Sólar Andrews. Þar kalla þær fram hlýjar tilfinningar til náttúrunnar og vekja okkur til umhugsunar um þau áhrif sem skaðvænlegar neysluvenjur okkar hafa á umhverfið. Sýningin er hluti af Ljósmyndahátíð Íslands.

Áfram leggjum við áherslu á þrif og sótthreinsun, þar sem sérlega er hugað að helstu snertiflötum, hurðarhúnum, handriðum og slíku. Einnig eru gestir hvattir til að gæta hæfilegrar fjarlægðar hver við annan, jafnt í sýningarsölum og afgreiðslu safnsins.

Við hlökkum til að taka aftur á móti ykkur í Hafnarborg – í raunheimum.