HönnunarMars frestað – yfirstandandi sýningar framlengdar

Sýningar Hafnarborgar, Far og Þögult vor, sem opnuðu í tilefni Ljósmyndahátíðar Íslands í janúar síðastliðnum, hafa verið framlengdar fram á vor í ljósi þess að stjórn HönnunarMars hefur tekið þá ákvörðun að fresta hátíðinni vegna aðstæðna. Þá hefur sýningunni efni:við, sem til stóð að opnaði í lok marsmánaðar sem hluti af dagskrá HönnunarMars, einnig verið frestað þar til í sumar.

Yfirstandandi sýningar safnsins eiga það sameiginlegt að beina sjónum okkar að umheiminum, þar sem fegurðarinnar er ýmist leitað í náttúrunni eða nánasta umhverfi okkar, hinu daglega lífi. Jafnframt vekja þær okkur til umhugsunar um það hvernig við sjáum heiminn og það sem við skiljum eftir okkur. Að svo stöddu verður opið á sýningarnar eins og venjulega, alla daga nema þriðjudaga kl. 12–17, með fyrirvara um breytingar. Aðgangur er ókeypis.

Vinsamlegast athugið að skipulögðum viðburðum á vegum safnsins, svo sem tónleikum, leiðsögnum og listasmiðjum, verður frestað eða aflýst á meðan samkomubann er í gildi. Einnig er lögð aukin áhersla á sótthreinsun, þar sem sérlega er hugað að helstu snertiflötum, hurðarhúnum, handriðum og slíku. Þá eru gestir hvattir til að gæta hæfilegrar fjarlægðar hver við annan, jafnt í sýningarsölum og afgreiðslu safnsins.

Frekari upplýsingar um breytta sýningardagskrá Hafnarborgar, nákvæmar dagsetningar og fleira, verða birtar þegar nær dregur.