Kærleikskúlan 2019 – fáanleg í safnbúð

SÓL ÉG SÁ eftir Ólöfu Nordal er Kærleikskúla ársins 2019. Kærleikskúlan er fallegur listmunur og skemmtileg til söfnunar en það sem gerir hana dýrmæta er innihaldið – kærleikurinn. Nafn kúlunnar er táknrænt en markmiðið með sölu hennar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna en allur ágóði rennur til starfsemi sumarbúðanna í Reykjadal, sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra á og rekur. Dvölin í Reykjadal er börnunum og fjölskyldum þeirra afar mikilvæg en þar eru gleði, jákvæðni og ævintýri höfð að leiðarljósi.

Þegar Sæmundur fróði lá banaleguna og mönnum virtist hann andaður hreyfðust á honum þrír fingurnir á hægri hendinni sem vildu þeir taka um eitthvað. Lengi vorumenn í efa um hvað slíkt hefði að þýða. Loksins voru ýmsir hlutir bornir að fingrunum en þeir héldu áfram að hreyfast þangað til þeim var fenginn penni. Þá beygði sig einn fingurinn utan um hann, síðan var réttur pappír hinum fingrunum og beygði sig annar fingurinn að honum, þá var nú sjálfsagt að fá hinum þriðja blekbyttuna. Eftir það skrifuðu fingurnir Sólarljóð og þegar þeim var lokið slepptu þeir ritfærunum og urðu máttvana og hreyfðust aldrei síðan.

Ólöf Nordalnam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, „Gerrit Rietveld“-akademíuna í Amsterdam, lauk meistaraprófi frá Cranbrook Academy of Art í Michigan og síðar meistaraprófi frá höggmyndadeild Yaleháskólans í Connecticut, Bandaríkjunum. Árið 2005 hlaut hún hin virtu „Richard Serra“-verðlaun. Ólöf er höfundur margra útilistaverka og minnisvarða á opinberum vettvangi. Verk Ólafar eru iðulega sprottin úr heimi þjóðsagna og þjóðtrúar. Listrannsóknir hennar beinast að sjálfsmynd þjóðarinnar á eftirnýlendutímum, uppruna og endurspeglun þjóðsagnaminna í samtímanum og brotunum sem spegla aftur til fortíðar.

Kærleikskúlan er blásin glerkúla, tær eins og kærleikurinn með borða í rauðum lit. Litur lífskrafts og gleði, jóla og vináttu. Eins og mennirnir eru engar tvær kúlur nákvæmlega eins en þær eru allar fallegar – hver á sinn hátt.

Kærleikskúlan verður fáanleg í safnbúð Hafnarborgar frá  7. desember til 21. desember.