Music Workshops marimba

Tónlistarnámskeið í Hafnarborg

Tónlistarnámskeið á Sönghátíð í Hafnarborgar

Í tengslum við Sönghátíð í Hafnarborg 2017 býður listasafnið upp á tónlistarnámskeið fyrir börn á aldrinum 6 – 12 ára vikuna 3. – 7. júlí, sem lýkur með þátttöku þeirra í lokatónleikum hátíðarinnar sunnudaginn 9. júlí kl. 17:00. Námskeiðið er fyrir börn sem hafa gaman af tónlist, bæði þau sem nú þegar leika á hljóðfæri og syngja og þau sem hafa ekki verið í tónlistarnámi. Börnin munu fara í tónlistarleiki, syngja, spila, spinna og æfa upp efnisskrá fyrir tónleika. Markmið námskeiðsins er að börnin læri að njóta tónlistar sem skapandi og túlkandi gerendur.

Námskeiðið er í boði fyrir tvo aldurshópa, 6- 9 ára og 10-12 ára.

 

Boðið verður upp á eftirfarandi námskeið:

Mán. 3.7. – fös. 7.7. og tónleikar sun. 9.7. kl. 17:00

Kl. 09:00-12:00 fyrir 6 – 9 ára

Kl. 13:00-16:00 fyrir 10 – 12 ára

5 dagar og einir tónleikar

 

  • Námskeiðsgjald er 17.000 kr. Það innifelur einn boðsmiða á tónleikana.

Athugið að fjöldi þátttakenda er takmarkaður.

Skráning fer fram í gegnum email: hafnarborg@hafnarfjordur.is.

  • Við skráningu skal taka fram nafn barns og kennitölu, nafn foreldra/forráðamanna, síma allra forráðamanna, heimilisfang og email.
  • Vinsamlegast látið vita ef barn er með sérþarfir sem taka þarf tillit til.

Nánari upplýsingar í s. 585-5790 og í gegnum netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is og á heimasíðu hátíðarinnar: www.songhatid.is.

Leiðbeinendur á námskeiðinu eru Þórdís Heiða Kristjánsdóttir og Hildur Guðný Þórhallsdóttir.

 

Þórdís Heiða Kristjánsdóttir útskrifaðist frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, tónmenntakennaradeild 1999 og lauk 8. stigi í blokkflautuleik hjá Camillu Söderberg við sama skóla árið eftir. Eftir það fór hún til London og lærði Continuing Professional Development, í Guildhall School of Music and Drama og lauk því haustið 2002. Hún kennir við Salaskóla í Kópavogi, Tónlistarskólann í Reykjavík og stýrir tónlistarnámskeiðum hjá Hjallastefnunni.

Undanfarin ár hefur hún komið að mörgum verkefnum sem eiga það sameiginlegt að vinna skapandi starf og þá mest með börnum. Má þar nefna Sumartónleika í Skálholti, Barnamenningarhátíð í Reykjavík, Þjóðlagahátíð á Siglufirði, Listadaga í Garðabæ, Kammertónleika á Kirkjubæjarklaustri, smiðjur í kringum Landnámshelgi í Árnesi, Landsmót barnakóra og verkefni í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands og Listaháskólann. Hún hefur tekið þátt í Tónlist fyrir alla og heimsótt nær alla grunnskóla Reykjavíkur og Kópavogs með dagskrá sem kallast Virkir þátttakendur. Hóparnir sem hafa tekið þátt í þessu hafa af ýmsu tagi; grunnskólabekkir, tónlistarskólahópar, leikskólabörn, starfsmannahópar í hópefli og þannig mætti lengi telja. Allt með það að markmiði að hver og einn fái að njóta sín og sinna styrkleika í verkefnunum.

 

Hildur Guðný Þórhallsdóttir nam klassískan píanóleik og jazzsöng við Tónlistarskóla FÍH. Hún lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1998 og um haustið sama ár hóf hún störf sem tónfræðakennari við Tónlistarskóla FÍH. Hildur Guðný kennir í dag kennslufræði við kennaradeild skólans og heldur þar utan um æfingakennslu ásamt því að kenna tónheyrn og hrynþjálfun í grunndeild. Hrynþjálfunarfræðina lærði hún í Rytmisk Musikkonservatorium (RMC) í Kaupmannahöfn.

Hildur Guðný hefur unnið mjög mikið við verkefni tengdum sköpunarþætti tónlistarkennslu og hefur verið einn af frumkvöðlum þess háttar kennslu á Íslandi. Hún starfar sjálfstætt við skapandi tónlistarkennslu á öllum skólastigum í almennum skólum jafnt sem í tónlistarskólum. Hildur vinnur einnig með hópefli í skólum og fyrirtækjum þar sem hún hristir saman hópa af öllum aldri, stærðum og gerðum með hrynþjálfun, trommuslætti, söng og dansi.

Hildur Guðný hefur komið að margvíslegum tólistarverkefnum og viðburðum með einum eða öðrum hætti.   Þar má nefna:  Listahátíð í Reykjavík, Tónlist fyrir alla, Fræðslustarf Sinfóníhljómsveitar Íslands, Sumarhátíð í Skálholti, Kammertónleika á Kirkjubæjarklaustri, Landsmót barnakóra, Íslensku tónlistarverðlaunin, Jazzhátíð Reykjavíkur, Músíktilraunir, Þjóðlagahátíð Siglufjarðar, Gestakennslu í Háskóla Íslands, Námskeiðahald fyrir tónlistarkennara víða um land og Frístundasvið ÍTR.