Gudrun Olafsdottir portrait-sm

Tónlistarnámskeið fyrir börn og fullorðna

Sönghátíð í Hafnarborg blæs til mikillar söngveislu dagana 7.–15. júlí 2018 með fjölda tónleika og námskeiða. Haldið er upp á aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands 2018 með því að bjóða upp á mikið úrval af íslenskri tónlist í alls konar mismunandi raddsamsetningum, frá gamalli þjóðlagatónlist til nýrra tónverka, að ógleymdri hinni erlendu tónlist sem mótaði hana – og okkur – frá barokktímanum til samtímans.

Á hátíðinni verður boðið upp á fjögur námskeið: master class fyrir unga söngvara og söngnemendur með Kristni Sigmundssyni, söngnámskeið fyrir áhugafólk með Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur, tónlistar- og söngsmiðjur fyrir 6–12 ára börn með Ingibjörgu Fríðu og Sigurði Inga og íslenskt þjóðlaganámskeið með Báru Grímsdóttur og Chris Foster.

Sönghátíð í Hafnarborg var fyrst haldin sumarið 2017 og er þetta því í annað sinn sem hún fer fram. Hátíðin var stofnuð með það að markmiði að koma list raddarinnar á framfæri en listrænn stjórnandi er Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og meðstjórnandi er Francisco Javier Jáuregui. Nánari upplýsingar um námskeiðin má finna á heimasíðu Sönghátíðar í Hafnarborg.