Um safneign

Í safneign Hafnarborgar eru nú um 1400 listaverk. Stofnendur Hafnarborgar, þau Sverrir Magnússon lyfsali og kona hans Ingibjörg Sigurjónsdóttir lögðu grunn að safninu með listaverkagjöf til Hafnarfjarðarbæjar árið 1983. Eiríkur Smith færði safninu stóra listaverkagjöf árið 1990 og einnig gáfu þeir Elías B. Halldórsson og Gunnar Hjaltason safninu eintök af grafíklistaverkum sínum. Fleiri listamenn og einstaklingar hafa fært safninu listaverk að gjöf og einnig eru keypt verk til safnsins eftir því sem fjárveitingar leyfa og í samræmi við söfnunarstefnu Hafnarborgar. Reglulega eru haldnar sýningar á verkum í safneigninni.

Hægt er að kynna sér alla safneignina í safnmunaskránni Sarpi sem aðgengileg er á www.sarpur.is. Tekið skal fram að ekki fylgja öllum skráningum myndir af verkum þar sem samtök myndhöfundaréttarhafa, Myndstef, mótmæla rétti safna til að veita aðgang að myndum af listaverkum í safnmunaskrám sem aðgengilegar eru á internetinu. Á meðan ekki fæst skorið úr um rétt safna til að veita þennan aðgang eru aðeins birtar myndir af listaverkum eftir listamenn sem veitt hafa Hafnarborg heimild til að opna fyrir aðgang að myndum í Sarpi.

Sarpur