safnanott-featureimage

Safnanótt 2018

Hafnarborg opnar dyr sínar fram á kvöld og býður upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá fyrir bæði börn og fullorðna á Safnanótt föstudaginn 2. febrúar frá klukkan 1823.

Dagskrá

18:00–23:00 Ultimate, Relative
Innsetning eftir Ráðhildi Ingadóttur. Á sýningunni dregur hún upp svipmyndir af eigin heimi með upptökuvél, þar sem hún sækir í eigin reynslu og dregur fram minningar. Við greinum einstakling sem rennir augum sínum yfir fjölda upplifana og ristir fortíðina í nútíðina. Listamaðurinn er í sínum eigin heimi, á þeim stað þar sem hið lítilfjörlega mætir hinu stórmerkilega.

18:00–23:00 Minningarbrot og leyndir staðir
Sýning á völdum myndum úr tveimur ljósmyndaseríum, Hidden Places og Fragments oRemembrance, eftir danska ljósmyndarann Astrid Kruse Jensen, sem heimsótti Ísland fyrir 15 árum síðan og vann hér ljósmyndaseríur sem síðan hafa borið hróður hennar víða. Í verkum sínum fæst Astrid við myrkrið, tómleikann og minnið. Í myndum þeim sem teknar voru á Íslandi leitast hún við að fanga myrkrið, þöglar stillur í einmanalegu vetrarlandslagi. Í seríunni Fragments of Remembrance lætur hún efnafræðina skapa tilfinningu fyrir óljósum minningarbrotum úr eigin fjölskyldu með því að framkalla gamlar filmur úr eigu fjölskyldunnar.

18:00–23:00 Gamall draumur
Í tilefni safnanætur verður vídeóverki eftir Ráðhildi Ingadóttur varpað á húsgafl Hafnarborgar, þar sem gestir safnsins og fólk í nágrenni þess geta notið. Verkið kallast á við sýningu Ráðhildar, Ultimate, Relative, sem nú stendur yfir í safninu, en þar fjallar hún um óendanleikann, drauma og minningar.

radhildur-banner4
18:00–20:30 Draumasmiðja
Listasmiðja fyrir börn á aldrinum 6 – 12 ára. Smiðjan tengist umfjöllunarefni yfirstandandi sýninga í Hafnarborg, draumar og minningar sem efniviður í sköpun. Hvernig eru draumar uppbyggðir? Hafa þeir útlínur og form og hvernig er atburðarásin? Hvað eru minningar og minningarbrot? Unnið verður með mismunandi form, ljósmyndir og liti í þrívídd.

18:00–20:00 Draumafangarar – listasmiðja
Draumafangaragerð fyrir 8 ára og eldri. Það er skemmtilegt og einfalt að búa til draumafangara, enda mikil húsprýði og ganglegir til að fanga góða drauma. Leiðbeinandi er Tinna Þórudóttir Þorvaldar sem hefur haldið fjölda hannirðanámskeiða og gefið út þrjár bækur um hekl.

20:00–23:00 Teboð
Hafnarborg tekur hlýlega á móti gestum Safnanætur og býður uppá fjölbreytt úrval te-tegunda. Það er því tilvalið að koma og ylja sér á köldu febrúarkvöldinu og upplifa í leiðinni skemmtilega dagskrá Hafnarborgar á Safnanótt.

radhildur-banner2

20:00–20:30 Leiðsögn um sýninguna Ultimate, Relative
Leiðsögn um sýninguna Ultimate, Relative, innsetningu eftir Ráðhildi Ingadóttur.

astrid-banner

21:00–21:30 Leiðsögn um sýninguna Minningarbrot og leyndir staðir
Leiðsögn um sýninguna Minningarbrot og leyndir staðir eftir danska ljósmyndarann Astrid Kruse Jensen.

21:00–22:00 Draumar, talnaspeki og lófalestur
Fáðu ráðið úr draumum þínum, láttu lesa framtíðina úr lófa þínum eða rýna í tölur nafns þíns. Sýningar Hafnarborgar um þessar mundir fjalla um drauma og minningar og því er ekki úr vegi að kafa enn dýpra í undirmeðvitundina og skoða hvað framtíðin ber í skauti sér.

radhildur-banner2
21:30–22:30 Heim til míns hjarta
Tónlistarmaðurinn og Hafnfirðingurinn Marteinn Sindri mun leika fyrir gesti Hafnarborgar efni af fyrstu hljóðversplötu sinni, sem væntanleg er á þessu ári. Marteinn Sindri er tuttugu og átta ára aðfluttur Hafnfirðingur og hefur á síðustu misserum verið að hasla sér völl sem lagasmiður og textahöfundur. Marteinn býr að fjölbreyttri tónlistarreynslu, lærði klassískan píanóleik, hefur leikið djassmúsík og starfað með ýmsum hljómsveitum. Marteinn vinnur nú að upptökum á fyrstu hljóðversplötu sinni en fyrsta smáskífa plötunnar „Spring Comes Late Sometimes“ kom út á síðasta ári. Á Safnanótt koma fram með Marteini kontrabassaleikarinn Óttar Sæmundsen og slagverksleikarinn Ólafur Björn Ólafsson, sem báðir verið atkvæðamiklir í íslensku tónlistarlífi um langt skeið.