jól-safnbúð-2

Kærleikskúlan og Jólaóróinn 2018

Kærleikskúlan Terrella eftir Elínu Hansdóttur er nú fáanleg í safnbúð Hafnarborgar til 19. desember 2018. Að vanda er Kærleikskúlan blásin glerkúla, tær eins og kærleikurinn, með borða í rauðum lit, lit lífskrafts og gleði, jóla og vináttu. Eins og mennirnir eru engar tvær kúlur nákvæmlega eins en allar fallegar, hver á sinn hátt.

kúla

Svona lýsir Elín sýn sinni á bakvið hönnun kúlunnar í ár:

Innan glerhjúpsins er kúla sem dregur að sér efni og skapar heild sem einungis varir eitt andartak. Um leið og utanaðkomandi kraftur hreyfir við henni verður samsetningin á yfirborði hennar önnur. Fegurðin býr í tilviljanakenndri lögun, þeim margbreytileika sem aðdráttaraflið býður upp á og þeim áhrifum sem við getum haft á umhverfi okkar – því kærleikurinn getur með krafti sínum sameinað og umbreytt því sem kemst í tæri við segulmagn hans.

Tilgangurinn með sölu Kærleikskúlunnar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna og rennur allur ágóði til starfsins í Reykjadal en þar dvelja fötluð börn og ungmenni í sumarbúðum og um helgar yfir vetrartímann. Dvölin í Reykjadal er börnunum og fjölskyldum þeirra afar mikilvæg. Mikið er lagt upp úr því að börnin njóti dvalarinnar til hins ýtrasta, þau upplifi ævintýri og skemmti sér í hópi jafnaldra.

Kúla Elínar Hansdóttur bætist í fjölbreytt safn Kærleikskúla sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hefur gefið út fyrir jólin síðan 2003. Fjölmargir listamenn hafa lagt málefninu lið í gegnum árin og því eru Kærleikskúlurnar fjölbreytt safn listaverka. Listamennirnir hafa allir gefið vinnu sína og þannig stutt dyggilega við starf í þágu fatlaðra barna og ungmenna. Allir þeir söluaðilar sem selja Kærleikskúluna gera það sömuleiðis án þóknunar og leggja þannig sitt af mörkum til þessa mikilvæga málefnis.

Einnig er fáanlegur í safnbúðinni Jólaóróinn Stekkjastaur, sem hannaður er af Dögg Guðmundsdóttur en með honum fylgir kvæði eftir Dag Hjartarson. Allur ágóði af sölu Jólaóróans rennur til Æfingastöðvar Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, þar sem fram fer umfangsmesta iðju- og sjúkraþjálfun barna á landinu.

órói