Hópar

Hafnarborg leggur áherslu á að gefa öllum tækifæri til að kynnast listum og menningu og býður því hópa velkomna til fræðslu og leiðsagnar um sýningarnar – sér í lagi skólahópa, sem ávallt er velkomið að fá leiðsögn um sýningarnar ásamt kennurum sínum.

Markmið safnfræðslunnar er að hvetja gesti til umhugsunar um myndlist og hönnun, auk þess að skapa vettvang til umræðu um listir og veita gestum tækifæri til að læra af listamönnum um ólík svið myndlistar og menningar.

Myndlist er víðtæk og margslungin og fátt er listamanninum óviðkomandi en fræðslan er sniðin að hverjum aldurshóp, hverju sinni. Fyrir leikskóla miðast safnfræðslan við elstu árganga leikskólans.

Heimsókn í safnið tekur að jafnaði eina til tvær kennslustundir og er skólum að kostnaðarlausu. Mikilvægt er að fjöldi nemenda sé almennt ekki meiri en tuttugu og fimm, svo allir fái sem mest út úr safnfræðslunni.

Tekið er á móti skólahópum virka daga kl. 8:30 til 15:30.

Einnig eru í boði leiðsagnir fyrir almenna hópa, gestum að kostnaðarlausu, á opnunartíma safnsins. Þá er mögulegt að taka á móti hópum utan opnunartíma, samkvæmt samkomulagi.

Bóka má hópa í síma 585 5790 eða með því að senda póst á hafnarborg@hafnarfjordur.is.