Hlutverk og markmið

Hlutverk Hafnarborgar – menningar- og listastofnunar Hafnarfjarðar er að standa fyrir öflugu og metnaðarfullu menningarstarfi sem endurspeglar gerjun samtímans og stuðla þannig að fjölbreyttu mannlífi.  Hafnarborg varðveitir listaverkaeign Hafnarfjarðarbæjar og stendur fyrir rannsóknum og sýningum á henni þannig að fólk fái notið og verkin verði sýnilegur hluti íslenskrar menningar- og listasögu. Ennfremur rekur Hafnarborg alþjóðlega gestavinnustofu.

Hafnarborg starfar samkvæmt stofnskrá og í samræmi við menningarstefnu Hafnarfjarðarbæjar, safnalög og siðareglur Alþjóðaráðs safna.

 

Áherslur til framtíðar

Gróska og gerjun
Hafnarborg er samnefnari fyrir grósku og gerjun á sviði lista og menningar.

Samkomustaður         
Hafnarborg er samkomustaður þar sem fólk leitar að innblæstri, örvun og umhverfi til að njóta listar og samveru hvert við annað.

Ögrandi hugmyndir
Hafnarborg hefur sérstöðu á listasviðinu sem tengist ásýnd, yfirbragði og framsetningu listviðburða sem markast af sterkri og einstakri upplifun gesta.

 

Grunngildi

Áræðni           
Hleypa að nýju fólki og vera farvegur gerjunar og nýsköpunar

Fagmennska
Vönduð vinnubrögð og viðurkennd viðmið sem byggja á skýrri sýn á áherslur

Virkni
Frumkvæði og tengsl, þátttaka og virkt samstarf við ólíka aðila í samfélaginu.

 

Hafnarborg menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar er miðstöð sýninga og listviðburða sem örva samskipti, glæða mannlíf og skapa einstaka upplifun við hverja heimsókn.

 

Lögð er áhersla á að Hafnarborg sé:

Í sambandi við samfélagið og gesti

Lögð er áhersla á að þekkja gesti Hafnarborgar og byggja upp góð tengsl við ólíka hópa samfélagsins með virkri miðlun upplýsinga og samskipta í ýmsu formi.

Örvandi vettvangur upplifunar af listum

Lögð er áhersla á að auðga upplifun gesta af sýningum og safneign með fjölbreyttu formi miðlunar.

Farvegur nýrrar listar

Lögð er áhersla á að styðja við og vera vettvangur fyrir ungt listafólk á sviði myndlistar og tónlistar og tengjast á þann hátt nýjum kynslóðum á hverjum tíma.

Aflvaki listsköpunar í Hafnarfirði og í samtali við umheiminn

Lögð er áhersla á að Hafnarborg sé örvandi vettvangur listsköpunar í Hafnarfirði. Alþjóðleg gestavinnustofa Hafnarborgar tengi saman á faglegan hátt nýsköpun, leit að nýjum leiðum, farveg efnilegra listamanna, atvinnulíf, miðlun og tengsl út í samfélagið.

Vettvangur fjölbreyttrar þjónustu

Lögð er áhersla á að undirstrika heildarupplifun þjónustu og ímyndar og komið til móts við væntingar gesta Hafnarborgar til fjölbreyttrar þjónustu m.a. með veitingasölu.
Stofnskrá – Gjafabréf
Viðauki við stofnskrá

Sagan og húsið

Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar var stofnuð árið 1983 og varð um leið aðsetur listaverkasafns Hafnarfjarðarbæjar. Stofnendur Hafnarborgar, þau Sverrir Magnússon lyfsali og Ingibjörg Sigurjónsdóttir kona hans lögðu grunn að safninu með listaverkagjöf sinni árið 1983. Á 75 ára kaupstaðarafmæli Hafnarfjarðar, 1. júní 1983 afhentu þau bænum með gjafabréfi húseignina að Strandgötu 34 ásamt veglegu safni málverka og bóka. Húsið að var hannað af Guðjóni Samúelssyni fyrir Sören Kampmann lyfsala sem bjó þar og rak apótek frá árinu 1921. Sverrir Magnússon tók síðan við húsinu og rekstrinum árið 1947 og stóð fyrir rekstri Hafnarfjarðar Apóteks til ársins 1984.

Í gjafabréfinu kváðu Sverrir og Ingibjörg á um að í húsinu skyldi starfsrækt menningarstofnun sem efla skyldi lista- og menningarlíf í Hafnarfirði, með rekstri listaverkasafns, sýningarsala og gistivinnustofu fyrir listamenn auk þess sem þar skyldu haldnir tónleikar. Hafnarborg, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar var síðan formlega vígð 21. maí 1988. Þá hafði verið reist við húsið viðbygging sem hönnuð var af arkitektinum Ingimar H. Ingimarssyni.

Sýningadagskrá Hafnarborgar er fjölbreytt og eru að jafnaði haldnar 10 – 12 myndlistarsýningar á ári þar sem finna má verk sem spanna íslenska listasögu allt frá þjóðargersemum frumkvöðlanna til tilraunakenndra verka listamanna samtímans. Fyrirlestrar og málþing í tengslum við sýningar safnsins eru fastur liður auk þess sem áhersla er lögð á að bjóða upp á samtal gesta við listamenn og sýningarstjóra og stuðla þannig að áhugaverðari upplifun af sýningum. Listsmiðjur og leiðsagnir fyrir börn eru reglulegir viðburðir. Haldnir eru mánaðalegir hádegistónleikar þar sem lögð er áhersla á óperutónlist jafnframt því sem samtímatónleikaröðin Hljóðön skipar veglegan sess í dagskránni.

Árið 2014 hlaut Hafnarborg tilnefningu til hinna íslensku safnaverðlauna.
Safnaverðlaun logo

Gestavinnustofa

Hafnarborg rekur listamannaíbúð með vinnuaðstöðu á efstu hæð safnsins að Strandgötu 34. Vinnustofan er einkum ætluð er til dvalar fyrir erlenda listamenn. Hægt er að sækja um vinnustofudvöl á eyðublaði sem finna má hér fyrir neðan. Úthlutað til eins mánaðar í senn og greiðir dvalargestur 500 evrur minnst þrem mánuðum áður en dvöl hefst.

Húsnæðið er samtals um 80 fm  og skiptist í eldhús, borðstofu, baðherbergi, vinnurými og eitt stórt svefnherbergi með tvíbreiðu rúmi. Íbúðin er búin öllum nauðsynlegustu búsáhöldum, sængurfatnaði, handklæðum, þvottavél og þurrkara auk síma og internet-tengingar.

Gestavinnustofan er í miðbæ Hafnarfjarðar skammt frá aðalstrætóstöð bæjarins og er mjög auðvelt að komast til Reykjavíkur og á aðra staði. Þeir sem í íbúðinni dvelja, greiða dvalargjöld sem ákveðin eru af stjórn Hafnarborgar, 500 evrur- á mánuði.

Umsóknareyðublað

 

Starfsfólk

Ágústa Kristófersdóttir
safnstjóri
agusta(hja)hafnarfjordur.is

Áslaug Íris Friðjónsdóttir
upplýsinga – og fræðslufulltrúi
aslaugfridjons(hja)hafnarfjordur.is

Skúli Magnússon
tæknimaður / umsjónarmaður húss
s. 6645797

Hólmar Hólm
móttaka
holmarh(hja)hafnarfjordur.is

Unnur Mjöll S. Leifsdóttir
safnfulltrúi
unnurleifs(hja)hafnarfjordur.is

Almennt netfang
hafnarborg(hja)hafnarfjordur.is

Stjórn Hafnarborgar
Haraldur L. Haraldsson
Pétur Gautur Svavarsson
Sigríður Björk Jónsdóttir

Listráð Hafnarborgar
Brynhildur Pálsdóttir
Erling T.V. Klingenberg
Þorbjörg Br. Gunnarsdóttir