Fjörufræði -)

Sumarlistsmiðjur í Hafnarborg

Í sumar verður boðið upp á listsmiðjur fyrir börn á aldrinum 6 – 12 ára í Hafnarborg. Í fyrra fylltist fljótt á námskeiðin sem eru bæði skemmtileg og uppbyggjandi. Farið verður í rannsóknarleiðangra og undirstöðuatriði myndlistar kynnt bæði í gegnum það að rannsaka umhverfið, sýningarnar í safninu og með skapandi vinnu. Unnin verða skapandi verkefni í fjölbreytta miðla, teiknað, málað og mótað, með það að markmiði að þjálfa sjónræna athygli, örva skapandi hugsun og persónulega tjáningu barnanna.

Í boði eru tvö námskeið fyrir aldurshópana 6- 9 ára og 10-12 ára. Hvert námskeið um sig fjallar um ólíkt þema þannig að hægt er að taka þátt í fleiri en einu. Umsjón hefur Sigurrós Svava Ólafsdóttir myndlistarmaður.

Boðið verður upp á eftirfarandi námskeið:

11. – 19. júní kl. 9 – 12, fyrir 6 – 9 ára,
6 dagar kr. 13.000 FULLT
11. – 19. júní kl. 13 – 16, fyrir 10 – 12 ára,
6 dagar kr. 13.000

22. júní – 2. júlí kl. 9 – 12, fyrir 6 – 9 ára,
9 dagar kr. 19.000
22. júní – 2. júlí kl. 13 – 16, fyrri 10 – 12 ára,
9 dagar kr. 19.000

Námskeiðsgjald er 13.000 eða 19.000 krónur eftir lengd námskeiðs.

Athugið að fjöldi þátttakenda er takmarkaður.

Skráning og nánari upplýsingar í s. 585-5790 og í gegnum netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is

Jónína Guðnadóttir2

Opnunartímar um páska

Opnunartímar Hafnarborgar um páskana 2015 eru eftirfarandi:

Skírdagur: opið 12 – 21

Föstudagurinn langi: opið 12 – 17

Laugardagur 4.apríl : opið 12 – 17

Páskadagur: Lokað

Annar í páskum: opið 12 – 17

Aðgangur ókeypis

Uppsetning sýninga stendur yfir

Uppsetning stendur nú yfir í aðalsal og Sverrissal og því verður safnið lokað þangað til á laugardag 28. mars.

Þá munu tvær sýningar vera opnaðar. Í aðalsal Hafnarborgar verður sýningin MENN með verkum eftir fjóra karllistamenn, þá Curver Thoroddsen, Finn Arnar Arnarson, Hlyn Hallsson og Kristinn G. Harðarson. Í Sverrissal verður opnuð sýningin Vörður með verkum eftir Jónínu Guðnadóttur.

Verið velkomin á opnun sýninganna laugardaginn 28. mars kl. 15.

Sýningarlok Largo – presto

Sýningunni Largo – presto í Hafnarborg lýkur nú um helgina 21. – 22. mars.

Á sýningunni eru ný verk eftir Tuma Magnússon sem lengi hefur verið í fremstu röð íslenskra listamanna. Titill sýningarinnar Largo – presto er sóttur í stóra innsetningu sem einkennist af reglubundnum hljóðum og hreyfingu. Ólíkir taktar, hægir og hraðir, sameinast og verða að mótsagnakenndri upplifun af síbylju og kyrrð. Hamarshögg, bank í borð og fótatak eru á meðal þeirra hljóða sem sem hljóma um sali Hafnarborgar og mynda síbreytilegan takt sem svo ferðast um rýmið og tengist átta aðskildum myndflötum.

Verkin á sýningunni bera sterk höfundareinkenni Tuma en hann hefur frá upphafi ferils síns unnið með hversdagslega hluti eða athafnir sem hann sýnir þó ekki á hversdagslegan hátt. En viðfangsefni sín nálgast hann iðulega með einstakri næmni og oft á tíðum hárfínum húmor. Tumi kvaddi sér hljóðs á tímum nýja málverksins og hefur ætíð reynt á þanþol málverksins með því að tengja það rými eða færa lögmál þess um merkingarbæran myndflöt inn í heim kvikra mynda og hljóðs.

Sýningin sem nú er í Hafnarborg verður sett upp í MACMO samtímalistasafninu í Montevideo í Uruguay í október næstkomandi. Sýningin er studd af Statens Kunstfond.

Nánar um sýninguna hér.

hönnunarmars1

Dagskrá Hafnarfjarðar á Hönnunarmars

Í ár verða Hafnarborg, Íshúsið og Litla hönnunarbúðin þátttakendur í Hönnunarmars 2015 sem verður haldin dagana 12. – 15. mars. Kynnið ykkur dagskránna og og verið velkomin. Aðgangur er ókeypis.

 

Hafnarborg, Strandgötu 34

Á gráu svæði / Gray Area

David Taylor

Opnunartími: fimmtudag kl. 12-21, föstudag, laugardag og sunnudag kl. 12-17

Sýning á nýjum verkum skoska hönnuðarins David Taylor sem liggja á mörkum hönnunar og myndlistar. Hann er þekktur fyrir frumlega hönnun og óhefðbundið efnisval en hann sækir sérstaklega í ódýr og verðlaus efni á borð við steypu og gjall sem hann svo umbreytir í fágaða gripi.

Laugardag 7. mars kl. 15

Opnun sýningarinnar Á gráu svæði með verkum skoska hönnuðarins David Taylor.

Sunnudag 8. mars kl. 15 (í aðdraganda Hönnunarmars)

Samtal við hönnuð David Taylor ræðir við gesti safnsins um verk sín.

-Hönnunarmars hefst-

Fimmtudag 12. mars kl. 18

Samtal við hönnuð David Taylor ræðir við gesti safnsins um verk sín.
 

Föstudag 13. mars kl. 12.30

Hádegisleiðsögn þar sem veitt er innsýn í hugmyndaheim og vinnu David Taylor.
Sunnudag 15. mars kl. 15 

Leiðsögn um sýninguna þar sem fjallað verður um hugmyndir og efnisval hönnuðarins

 


Íshús Hafnarfjarðar við Flensborgarhöfn

Skapandi klasi

Opnunartími: fimmtudag kl. 12-21, föstudag, laugardag og sunnudag kl. 12-17

Kynning verður á starfsemi Íshúss Hafnarfjarðar sem er klasi vinnustofa og verkstæða úr ólíkum geirum hönnunar, iðnaðar og myndlistar. Í opnum vinnurýmum er meðal annars starfrækt hnífasmiðja, þrívíddarverkstæði, keramikvinnustofur, trésmiðja og textílverkstæði.

Fimmtudagur 12. mars kl. 18 – 21

Opið hús

Sunnudagur 15. mars kl. 13

Leiðsögn og spjall í Íshúsi Hafnarfjarðar

 

Litla Hönnunarbúðin, Strandgötu 17

Margrét Leópoldsdóttir

Sértu velkomin heim / Blow The Wind Westerly

Opnunartími: fimmtudag kl. 12-21, föstudag kl. 12-18, laugardag og sunnudag kl. 12-17

Hönnuður Golu & Glóru, Margrét O. Leópoldsdóttir rær á ný mið í hönnun sinni með textíllínu er hún nefnir Sértu velkominn heim. Innblásin af störfum sjómanna og fiskvinnslufólks teiknar hún myndir og mynstur sem hún yfirfærir á textíl með þrykki.


Sunnudaginn 15. mars kl. 14

Samtal við hönnuð Margrét Leópoldsdóttir kynnir hönnun sína.

kastari

Framköllun – sýningartímar og listamenn

Framköllun er verk Heklu Daggar Jónsdóttur og er sjálfstæður heimur þar sem sköpun, úrvinnsla, miðlun og viðtaka listaverks eiga sér stað í sama rými. Sýningarsalur Hafnarborgar hýsir nú lítinn bíósal, sviðsmyndir og leikmuni auk vinnslurýmis og búnaðar til að taka upp og vinna 16mm kvikmynd. Verkið er allt í senn skúlptúr, gjörningur og þátttökuverk þar sem Hekla Dögg kallar fram það afl sem býr í samstarfi skapandi einstaklinga en hún fær til liðs við sig ýmsa listamenn sem vinna stutt myndskeið sem síðan er skeytt saman í kvikmynd sem er sýnd í kvikmyndasal verksins.

 Á opnunartíma safnsins verður kvikmyndin sýnd á heila tímanum.

 


Eftirfarandi listamenn hafa komið að verki Heklu Daggar og tekið upp stutt myndskeið sem nú eru til sýnis á sýningunni:


Kolbeinn Hugi Höskuldsson
: !

Claudia Hausfeld: Disfigurement

Sigurður Guðjónsson

Erling TV Klingenberg

Gjörningaklúbburinn

Ásdís Sif Gunnarsdóttir

Unnar Örn J. Auðarson

Hannes Lárusson: Chief

Rakel Gunnarsdóttir

Hulda Stefánsdóttir

Sara Björnsdóttir

Ásta Fanney Sigurðardóttir

Curver: Aðlögun

Sunneva Weisshappel og Klāvs Liepiņš: Egg

Halldór Úlfarsson, Áki Ásgeirsson og Páll Ivan Pálsson: Verksmiðja 2015

Haraldur Jónsson

Óskar Kristinn Vignisson

Auður Ómarsdóttir

Sigga Björg Sigurðardóttir

Hildigunnur Birgisdóttir

Hrönn Gunnarsdóttir

Ingibjörg Sigurjónsdóttir

Ragnar Kjartansson

Bjargey Ólafsdóttir

Sirra Sigrún Sigurðardóttir

Lukka Sigurðardóttir

Þórdís Aðalsteinsdóttir

Katrín I. Hjördísardóttir

Ilmur Stefánsdóttir

Ragnheiður Gestsdóttir

Ólafur Sveinn Gíslason

Páll Banine

Hekla Dögg Jónsdóttir

aðalheiðurogaldís-featureimage

Haustsýning Hafnarborgar 2015 – vinningstillaga kynnt.

Nú hefur farið fram lokaval á tillögum að haustsýningu í Hafnarborg 2015 en það var tillaga Aðalheiðar Valgeirsdóttur og Aldísar Arnardóttur sem varð fyrir valinu. Sýningartillagan sem ber vinnutitilinn Heimurinn án okkar leiðir saman íslenska listamenn af ólíkum kynslóðum sem vinna með hugmyndir um alheiminn í verkum sínum. Sýningartillagan fjallar um tíma og rúm þar sem massi og kraftur koma saman og mörk fjarlægðar og nálægðar verða óræð. Það er því óhætt að segja að spennandi sýning er í vændum.

Í haust kynnti Hafnarborg í fimmta sinn, verkefni sem hafði það markmið að gefa sýningarstjórum kost á að senda inn tillögu að haustsýningu í Hafnarborg 2015. Höfundar tillaganna sem bárust eiga að baki ólíkan náms og starfsferil sem tengist myndlist og menningartengdum verkefnum en hafa þó ekki tekið að sér hlutverk sýningarstjóra áður. Það er síðan Listráð Hafnarborgar ásamt forstöðumanni sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert.

Aðalheiður Valgeirsdóttir útskrifaðist af Grafíkdeild MHÍ 1982. Hún hóf ferill sinn sem myndlistarmaður með grafíkverkum og teikningum en sneri sér fljótlega alfarið að málverkinu í listsköpun sinni. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hér á landi og erlendis. Aðalheiður lagði stund á listfræði við Háskóla Íslands og hlaut þaðan BA gráðu árið 2011 og MA gráðu árið 2014. Lokaritgerð Aðalheiðar ber titilinn Pensill, sprey, lakk og tilfinning. Málverkið á Íslandi á 21. Öld.  Þar fjallar hún um eðli málverksins, nálgun íslenskra samtímalistamanna á því í listsköpun sinni og endurskilgreiningu málverksins með tilkomu nýrra miðla.

Aldís Arnardóttir útskrifaðist með MA gráðu í listfræði við Háskóla Íslands árið 2014 og hafði áður lokið þaðan BA prófi árið 2012. Í masters ritgerð sinni fjallar hún um norrænu myndlistarsýninguna Experimental Environment II sem haldin var að Korpúlfsstöðum árið 1980. Í störfum sínum hefur Aldís fengist nokkuð við skrif og hefur hún gert sýningartexta fyrir bæði listamenn og gallerí. Einnig sat hún í ritstjórn og skrifaði greinar fyrir Sirkústjaldið, vefrit rekið af MA –nemum í menningar greinum við íslensku- og menningardeild HÍ.

Safnið að utan

Uppsetning sýninga stendur yfir

Uppsetning stendur nú yfir í aðalsal og Sverrissal og því verður safnið lokað þangað til á laugardag 17. janúar.

Þá munu tvær sýningar opna; Framköllun, sýning Heklu Daggar Jónsdóttur og Neisti, sýning á verkum Hönnu Davíðsson.

Verið velkomin á opnun sýninganna laugardaginn 17. janúar kl. 15.

Elías-mynd

Sýning á verkum Elíasar B. Halldórssonar framlengd

Sýning Elíasar B. Halldórssonar sem nú stendur yfir í Sverrissal Hafnarborgar hefur verið framlengd til sunnudagsins 11. Janúar.

Verkin á sýningunni eru grafíkverk sem Elías vann flest frá 1963 til aldamóta. Þau eru að stærstum hluta tréristur, sem sýna fjölbreytt myndefni allt frá daglegu amstri til nautnafullra athafna og myndefni sem hann vann útfrá ljóðum eða öðrum textum. Á sýningunni eru meðal annars verk sem hann vann við ljóð sonar síns Gyrðis Elíassonar. Sýningin bregður upp myndheimi listamanns sem hóf feril sinn um miðja síðustu öld, fór ætíð eigin leiðir og sigldi til hliðar við meginstraum myndlistarinnar. Sýningin bregður upp mynd af heimi sem oft virðist dimmur en er jafnframt glettinn, kraftmikill og ríkur af hugmyndum þegar kemur að útfærslu teikningarinnar í fast form tréristunnar. Listamanninum tekst að koma til skila andrúmslofti í einföldu formi tréristunnar þar sem efniviður og viðfangsefni skapa áhugaverðan heim.

Elías B. Halldórsson er fæddur 1930 á Borgarfirði Eystra. Hann stundaði nám við Myndlistar- og handíðaskólann og hélt svo erlendis í framhaldsnám, fyrst til Stuttgart í Þýskalandi og síðar til Kaupmannahafnar. Fyrstu einkasýningu sína hélt Elías í Bogasal Þjóðminjasafnsins 1960 og árið 1992 sýndi hann í fyrsta skipti í Hafnarborg.

Hafnarborg

Opnunartímar í Hafnarborg um jól og áramót 2014-2015

Opnunartímar í Hafnarborg um hátíðirnar verður eftirfarandi:

Þorláksmessa: OPIÐ kl. 12 – 17 (þriðjudagur)

Aðfangadagur: LOKAÐ

Jóladagur: LOKAÐ

Annar í jólum (föstudagur 26. desember): LOKAÐ

Laugardagur 27. desember: OPIÐ kl. 12 – 17

Sunnudagur 28. desember: OPIÐ kl. 12 – 17

Mánudagur 29. desember: OPIÐ kl. 12 – 17

Þriðjudagur 30. desember: LOKAÐ

Gamlársdagur: LOKAÐ

Nýársdagur: LOKAÐ

Aðgangur ókeypis

Yfirstandandi eru sýningarnar Vara-litir og Verk úr Safneign

Nánari upplýsingar í s. 585-5790 og á www.hafnarborg.is