Hafnarborg

Safnið lokað vegna uppsetningar á nýrri sýningu

Vikuna 24. – 28. ágúst er lokað í Hafnarborg vegna uppsetningar á haustsýningu safnsins,
Heimurinn án okkar,  sem opnar föstudagskvöldið 28. ágúst kl. 20.

Nánari um sýninguna hér.

ÁgústaKristófersdóttir

Ágústa Kristófersdóttir nýr forstöðumaður Hafnarborgar

Ágústa Kristófersdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Hafnarborgar.

Ágústa starfaði sem framkvæmdastjóri Safnaráðs  og áður sem  sýningarstjóri Þjóðminjasafns Íslands og Deildarstjóri sýningardeildar Listasafns Reykjavíkur.

Starfsfólk Hafnarborgar býður Ágústu hjartanlega velkomna.

 

www.hafnarfjordur.is/thjonusta/frettir/agusta-kristofersdottir-nyr-forstodumadur-hafnarborgar

slideshow1

Enginn staður – sýningu lýkur fyrr á sunnudag

Sýningunni Enginn staður verður lokað klukkustund fyrr sunnudaginn 9. ágúst, þ.e. klukkan 16 vegna mótttöku í tilefni níræðis afmælis myndlistarmannsins Eiríks Smith (f.1925)
Sjá nánar hér.

Hafnarborg

23 sóttu um starf forstöðumanns Hafnarborgar

Hafnarfjarðarbær auglýsti í byrjun júlí starf forstöðumanns Hafnarborgar, menningar- og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar. Alls sóttu 23 um starfið en þrír drógu síðan umsókn sína til baka. Listi yfir umsækjendur hefur nú verið birtur á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar og má nálgast hann hér.

úti3

Viðgerðir á útilistaverkum og ganga um Víðistaðatún.

Um þessar mundir standa yfir lagfæringar á útilistaverkunum á Víðistaðatúni.

Alþjóðlegi höggmyndagarðurinn á Víðistaðatúni var stofnaður í framhaldi af listahátíð sem haldin var á árunum 1991 og 1993. Verkin sem staðsett eru á túninu eru sextán talsins og eru eftir listamenn frá Mexíkó, Sviss, Frakklandi, Svíþjóð, Japan, Þýskalandi og Íslandi.

úti4
Verk eftir Alberto Gutierrez Chong Lárétt landslag / Horizontal Landscape, 1993.
úti3

Föstudagskvöldið 23. júlí kl. 20 verður farin menningarganga um Víðistaðatún í fylgd Þráins Haukssonar landslagsarkitekts. Hugað verður bæði að sögu, skipulagi og listaverkunum á túninu. Miðað er við að gangan taki um klukkustund og sé við allra hæfi. Þátttaka er ókeypis.

Gengið verður frá Skátaheimilinu við Hjallabraut. 

Nánar um gönguna hér.

Hafnarborg

Auglýst eftir forstöðumanni Hafnarborgar

Auglýst hefur verið laus til umsóknar staða forstöðumanns Hafnarborgar – menningar- og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar. Umsóknarfrestur er til 20. júlí næstkomandi.

Núverandi forstöðumaður, Ólöf Kristín Sigurðardóttir, lætur senn af störfum og tekur við stöðu safnstjóra Listasafns Reykjavíkur. Hún hefur stýrt Hafnarborg í tæp sjö ár eða frá því í október 2008.

Hlutverk Hafnarborgar – menningar- og listastofnunar Hafnarfjarðar er að standa fyrir öflugu og metnaðarfullu menningarstarfi sem endurspeglar gerjun samtímans og stuðla þannig að fjölbreyttu mannlífi.  Hafnarborg varðveitir listaverkaeign Hafnarfjarðarbæjar og stendur fyrir rannsóknum og sýningum á henni þannig að fólk fái notið og verkin verði sýnilegur hluti íslenskrar menningar- og listasögu. Ennfremur rekur Hafnarborg alþjóðlega gestavinnustofu.

Hafnarborg starfar samkvæmt stofnskrá og í samræmi við menningarstefnu Hafnarfjarðarbæjar, safnalög og siðareglur Alþjóðaráðs safna.

Nánar um starfsemina á heimasíðu safnsins www.hafnarborg.is

Hagvangur annast umsóknarferlið og er texti auglýsingarinnar eftirfarandi: Laus er til umsóknar staða forstöðumanns Hafnarborgar, menningar- og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar. Starfið felur í sér stjórnun og rekstur stofnunarinnar ásamt stefnumótun í menningarmálum.

Staða forstöðumanns heyrir undir stjórnsýslusvið Hafnarfjarðarbæjar og næsti yfirmaður er sviðsstjóri stjórnsýslusviðs.

Starfs- og ábyrgðarsvið

 • Ábyrgð á faglegri starfsemi, rekstri, þjónustu og stjórnsýslu Hafnarborgar
 • Ábyrgð á mannauðsmálum
 • Fjárhagsáætlanagerð
 • Þátttaka í stefnumótun og skipulagningu menningarmála Hafnarfjarðarbæjar
 • Framkvæmd stefnumörkunar stjórnar Hafnarborgar og  bæjarstjórnar
 • Skipuleggur sýningar safnsins, tónleikahald og aðra menningartengda starfsemi sem fram fer í Hafnarborg
 • Sérfræðingur bæjaryfirvalda um málefni er varða listir- og menningu

Menntunar- og hæfniskröfur

 • Háskólamenntun sem nýtist í starfi, framhaldsmenntun æskileg
 • Stjórnunarreynsla og reynsla af stefnumótun
 • Þekking á og reynsla af starfsemi listasafna og / eða rekstri menningarstofnana
 • Góð þekking á myndlist, listasögu og/ eða safnafræðum
 • Leiðtogahæfileikar og hæfni í mannlegum samskiptum
 • Frumkvæði, sjálfstæði og skipulagshæfileikar
 • Góð íslensku- og enskukunnátta
 • Hæfni til að miðla þekkingu og upplýsingum í ræðu og riti

Kjör eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga við viðkomandi stéttarfélag. Gert er ráð fyrir að forstöðumaður hefji störf sem fyrst.

Ráðið verður í starfið til 5 ára með möguleika á framlengingu.

Upplýsingar veita: Geirlaug Jóhannsdóttir geirlaug@hagvangur.is og Katrín S. Óladóttir.

Umsóknir óskast fylltar út á www.hagvangur.is. Umsóknarfrestur er til og með 20. júlí nk. Með umsókn þarf að fylgja ítarleg starfsferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni í starfið.

Konur, jafnt sem karlar, eru hvattar til að sækja um starfið skv. jafnréttisstefnu Hafnarfjarðarbæjar.

Nánari upplýsingar:

Geirlaug Jóhannsdóttir, geirlaug@hagvangur.is

Katrín S. Óladóttir, katrin@hagvangur.is

Umsóknarfrestur:

Til og með 20.7.2015

hekla_dogg_framkollun

Stefna Hafnarborgar 2015 – 2020

Hafnarborg menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar

Áræðin miðstöð menningar í virku sambandi við samtímann 2015-2020

Þegar litið er til samfélagslegs hlutverks safna og annarra menningarstofnana er mikilvægt að huga að þeim samfélagslegu aðstæðum sem ríkja hverju sinni. Til að mæta breyttum tímum, og í raun vera í fararbroddi nýsköpunar, er nauðsynlegt að endurskoða stefnu og framtíðarsýn reglulega. Róttækar breytingar á einstökum þáttum ytra umhverfis hafa áhrif á stöðu og starfsgetu sem brýnt er að leggja reglulega mat á og taka afstöðu til. Á svokölluðum uppgangstíma í íslensku samfélagi jókst stuðningur við menningar- og listastarfsemi af ýmsu tagi, en við efnahagshrunið harðnaði á dalnum og brýnt var að endurskoða áherslur og útfærslur í ljósi nýrra aðstæðna. Margt horfir nú til betri vegar og aðstæður í samfélaginu hafa enn breyst og efnahagsástand batnað. Á sama tíma felast bæði tækifæri og áskoranir í miklum tæknibreytingum síðustu ára.

Þegar hlutverk og framtíðarsýn Hafnarborgar menningar- og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar eru skoðuð er margt sem horfa þarf til og meta, ekki síst upphaf stofnunarinnar og þann grunn sem tilvisti hennar byggir á og er þá einkum vísað til gjafabréfs þeirra hjóna Sverris Magnússonar og Ingibjargar Sigurjónsdóttur. Um leið er mikilvægt að ná samstöðu meðal allra hagsmunaaðila um það hvert Hafnarborg skal stefna til að þjóna sem best því hlutverki sem þessi menningar- og listamiðstöð hefur.

Skýr stefna og framtíðarsýn þýðir fyrst og fremst að öll starfsemi Hafnarborgar er markviss og í sátt við hagsmunaaðila í umhverfi Hafnarborgar, menningar- og listamiðstöðvar. Ákvarðanir um áherslur, samskipti, boðleiðir, skipulag, stjórnun og einstakar aðgerðir byggja á skýrum og sterkum grunni sem sátt og samstaða er um.

 

Vinnan

Frá árinu 2009 hefur jafnt og þétt verið unnið að endurskoðun stefnu Hafnarborgar. Við gerð starfsáætlunar fyrir árið 2009 var lögð fram ný stefna þar sem meginmarkmið starfsins voru endurskilgreind og þá einkum hugað að samfélagslegu hlutverki safnsins. Í áslok 2011 var síðan ráðist í að halda stefnuþing. Þar var kallað eftir áliti og hugmyndum úr samfélagi Hafnarborgar og var leitað eftir þátttöku breiðs hóps bæði úr sveitarfélaginu og úr hópi fagmanna á starfssviði stofnunarinnar. Margt af því sem þar kom fram hefur nú þegar orðið að veruleika, sumt er á þróunarstigi og annað á hugmyndastigi.

Að baki þeirri langtímastefnu sem hér birtist er því áralöng vinna en stefnan er einkum byggð á þeirri vinnu sem hófst 2011 með aðstoð ráðgjafa frá Capacent. Á þeim árum sem liðin eru hefur margt áunnist og ýmis verkefni komist í framkvæmd en nú skal enn litið til framtíðar og hugað að verkefnum sem gera Hafnarborg enn færari um að sinna hlutverki sínu og uppfylla þær væntingar sem gerðar eru.

 

Hafnarborg 2015-2020

 

Hlutverk

Hlutverk Hafnarborgar – menningar- og listastofnunar Hafnarfjarðar er að standa fyrir öflugu og metnaðarfullu menningarstarfi sem endurspeglar gerjun samtímans og stuðla þannig að fjölbreyttu mannlífi.  Hafnarborg varðveitir listaverkaeign Hafnarfjarðarbæjar og stendur fyrir rannsóknum og sýningum á henni þannig að fólk fái notið og verkin verði sýnilegur hluti íslenskrar menningar- og listasögu. Ennfremur rekur Hafnarborg alþjóðlega gestavinnustofu.

Hafnarborg starfar samkvæmt stofnskrá og í samræmi við menningarstefnu Hafnarfjarðarbæjar, safnalög og siðareglur Alþjóðaráðs safna.

 

Áherslur til framtíðar

Gróska og gerjun        Hafnarborg er samnefnari fyrir grósku og gerjun á sviði lista og menningar.

Samkomustaður          Hafnarborg er samkomustaður þar sem fólk leitar að innblæstri, örvun og umhverfi til að njóta listar og samveru hvert við annað.

Ögrandi hugmyndir     Hafnarborg hefur sérstöðu á listasviðinu sem tengist ásýnd, yfirbragði og framsetningu listviðburða sem markast af sterkri og einstakri upplifun gesta.

 

Grunngildi

Áræðni            Hleypa að nýju fólki og vera farvegur gerjunar og nýsköpunar

Fagmennska   Vönduð vinnubrögð og viðurkennd viðmið sem byggja á skýrri sýn á áherslur

Virkni               Frumkvæði og tengsl, þátttaka og virkt samstarf við ólíka aðila í samfélaginu.

 

Hafnarborg menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar er miðstöð sýninga og listviðburða sem örva samskipti, glæða mannlíf og skapa einstaka upplifun við hverja heimsókn.

 

Lögð er áhersla á að Hafnarborg sé:

Í sambandi við samfélagið og gesti

Lögð er áhersla á að þekkja gesti Hafnarborgar og byggja upp góð tengsl við ólíka hópa samfélagsins með virkri miðlun upplýsinga og samskipta í ýmsu formi.

Örvandi vettvangur upplifunar af listum

Lögð er áhersla á að auðga upplifun gesta af sýningum og safneign með fjölbreyttu formi miðlunar.

Farvegur nýrrar listar

Lögð er áhersla á að styðja við og vera vettvangur fyrir ungt listafólk á sviði myndlistar og tónlistar og tengjast á þann hátt nýjum kynslóðum á hverjum tíma.

Aflvaki listsköpunar í Hafnarfirði og í samtali við umheiminn

Lögð er áhersla á að Hafnarborg sé örvandi vettvangur listsköpunar í Hafnarfirði. Alþjóðleg gestavinnustofa Hafnarborgar tengi saman á faglegan hátt nýsköpun, leit að nýjum leiðum, farveg efnilegra listamanna, atvinnulíf, miðlun og tengsl út í samfélagið.

Vettvangur fjölbreyttrar þjónustu

Lögð er áhersla á að undirstrika heildarupplifun þjónustu og ímyndar og komið til móts við væntingar gesta Hafnarborgar til fjölbreyttrar þjónustu m.a. með veitingasölu og safnverslun þar sem í boði eru vörur sem tengjast skapandi greinum.

Screen Shot 2015-07-06 at 01.33.26

Myndir frá Sumarlistasmiðjum

Í síðustu viku lauk tveimur síðari (af fjórum) Sumarlistasmiðjum Hafnarborgar en allar gengu þær einstaklega vel fyrir sig. Hæfileikaríkir nemendur unnu að listaverkum sínum undir handleiðslu Sigurrósar Svövu Ólafsdóttur. Unnin voru skapandi verkefni í fjölbreytta miðla, teiknað, málað og mótað. Farið var í rannsóknarleiðangra og grunnatriði myndlistar kynnt í gegnum umhverfið, sýningarnar í safninu og með skapandi vinnu. Hverri listasmiðju lauk svo með sýningu þar sem foreldrum og öðrum aðstandendum gafst færi á að bera afrakstur nemendanna augum.

Hér að neðan má sjá myndir úr smiðjunum:

Screen Shot 2015-07-06 at 01.33.02
Screen Shot 2015-07-06 at 01.31.17
Screen Shot 2015-07-06 at 01.33.26
Screen Shot 2015-07-06 at 01.28.34
Screen Shot 2015-07-06 at 01.30.28
Screen Shot 2015-07-06 at 01.28.04
Screen Shot 2015-07-06 at 01.32.15
Screen Shot 2015-07-06 at 01.29.23
Screen Shot 2015-07-06 at 01.34.02
Screen Shot 2015-07-06 at 01.31.46
Screen Shot 2015-07-06 at 01.26.44
Screen Shot 2015-07-06 at 01.33.50
Screen Shot 2015-07-06 at 01.30.44
Screen Shot 2015-07-06 at 01.30.20
Screen Shot 2015-07-06 at 01.29.09
Screen Shot 2015-07-06 at 01.31.38
Screen Shot 2015-07-06 at 01.35.06

 

listasmidja3b

Sumarlistasmiðjur – örfá pláss enn laus

Skráning stendur nú yfir á sumarlistasmiðjur Hafnarborgar fyrir börn á aldrinum 6 – 12 ára. Örfá pláss eru ennþá laus á námskeiðunum sem eru bæði skemmtileg og uppbyggjandi. Farið verður í rannsóknarleiðangra og undirstöðuatriði myndlistar kynnt bæði í gegnum það að rannsaka umhverfið, sýningarnar í safninu og með skapandi vinnu. Unnin verða skapandi verkefni í fjölbreytta miðla, teiknað, málað og mótað, með það að markmiði að þjálfa sjónræna athygli, örva skapandi hugsun og persónulega tjáningu barnanna.

Í boði eru tvö námskeið fyrir aldurshópana 6- 9 ára og 10-12 ára. Hvert námskeið um sig fjallar um ólíkt þema þannig að hægt er að taka þátt í fleiri en einu. Umsjón hefur Sigurrós Svava Ólafsdóttir myndlistarmaður.

Fyrri námskeið fara fram dagana 11. – 19. júní og er námskeiðsgjald er kr. 13.000.
Seinni námskeið fara fram dagana 22. júní – 2. júlí og er námskeiðsgjald kr. 19.000.

Námskeiðin eru hópaskipt, 6-9 ára börn eru fyrir hádegi frá kl. 9-12 og eftir hádegi eru 10 – 12 ára frá kl. 13-16.

Námskeið 1:
11. – 19. júní kl. 9 – 12, fyrir 6 – 9 ára 6 dagar kr. 13.000 – FULLT

11. – 19. júní kl. 13 – 16, fyrir 10 – 12 ára 6 dagar kr. 13.000 – FULLT

Námskeið 2:
22. júní – 2. júlí kl. 9 – 12, fyrir 6 – 9 ára 9 dagar kr. 19.000 – FULLT

22. júní – 2. júlí kl. 13 – 16, fyrir 10 – 12 ára 9 dagar kr. 19.000 – FULLT

 

Athugið að fjöldi þátttakenda er takmarkaður og nauðsynlegt er að skrá sig.
Skráning og nánari upplýsingar í s. 585-5790 og í gegnum netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is

FAA strond

Sýningin MENN framlengd til 25. maí

Sýningin MENN verður framlengd til mánudagsins 25. maí.

Sýningin MENN beinir sjónum að stöðu karla við upphaf 21. aldar og þeim breytingum sem orðið hafa á högum þeirra í ljósi breyttrar stöðu kvenna.

Á sýningunni eru verk eftir fjóra karllistamenn í fremstu röð, þá Curver Thoroddsen, Finn Arnar Arnarson, Hlyn Hallsson og Kristinn G. Harðarson. Verkin sem valin hafa verið til sýningar eru unnin í fjölbreytta miðla bæði video-verk, ljósmyndir, málverk, teikningar og útsaumsverk. Í verkunum takast listamennirnir á við spurningar um stöðu karla innan fjölskyldu hvað varðar hugmyndir um þátttöku í heimilislífi, ábyrgð á afkomu og uppeldi barna. Jafnframt verða á sýningunni verk sem sækja myndefni á slóðir sem fyrir mörgum eru dæmigerðar fyrir konur og þeirra reynsluheim.

Verkin vekja upp áleitnar spurningar um karlmennsku og hugsanlega misvísandi skilaboð frá umhverfi og samfélagi. Megineinkenni verkanna er þó sú nánd sem lesa má úr afstöðu listamannanna til fjölskyldu og barna um leið og í sumum verkanna má greina tilvistarkreppu.

Nánar um sýninguna hér.