Favim.com-empty-lights-magic-snow-tree-272085

Jóla- og nýárskveðja

Starfsfólk Hafnarborgar óskar ykkur gleðilegra jóla og gæfuríks nýs árs með þökk fyrir árið sem er að líða. Hlökkum til að sjá ykkur í Hafnarborg á komandi ári.

HFB_aramotakv_rafraent_2015-sýningar-samantekt

 

isl_kaerleikskulan_2

Kærleikskúlan 2015

Landslag eftir Rögnu Róbertsdóttur er Kærleikskúla ársins 2015. Kærleikskúlan er fáanleg í safnbúð Hafnarborgar frá 5. – 19. desember 2015.

LANDSLAG

“Verkið kallast á við frumform jarðarinnar og orkumynstur hennar, sköpunar- og tortímingarkraftana og í raun það sem mætti kalla lífskraftinn. Ég nota sjálflýsandi plastagnirnar meðal annars sem tákn fyrir hin litríku íslensku líparítfjöll og sláandi litadýrð þeirra sem orsakast af háu steinefnamagni og samspili þess við birtuna.”

Ragna Róbertsdóttir

isl_kaerleikskulan_1

UM KÆRLEIKSKÚLUNA

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hefur staðið að útgáfu Kærleikskúlunnar frá árinu 2003 og eru kúlurnar því orðnar þrettán talsins. Frá upphafi hafa kúlurnar fengið frábærar viðtökur landsmanna enda um að ræða einstakt safn listaverka eftir marga þekktustu listamenn okkar Íslendinga.

Listamenn Kærleikskúlunnar hafa allir gefið vinnu sína og þannig stutt dyggilega við starf í þágu fatlaðra barna og ungmenna.

TILGANGUR

Tilgangurinn með sölu Kærleikskúlunnar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna, með því að efla starfsemi Reykjadals. Gera þannig fleirum mögulegt að njóta þar ævintýra tilverunnar í hópi með jafnöldrum – eignast vini og dýrmætar minningar.

ÚTLIT

Ár hvert fær Kærleikskúlan nýtt útlit – og er verkið í höndum fremstu listamanna þjóðarinnar. Í grunninn er Kærleikskúlan tær eins og kærleikurinn – með borða í rauðum lit, lit jólanna og kærleikans. Kærleikskúlan er blásin og eru því engar tvær kúlur nákvæmlega eins, en allar fallegar hver á sinn hátt. Kærleikskúlan kemur í kassa og fylgir henni bæklingur. Litir bæklinsins eru svartur og silfraður. Svartur táknar árstímann og silfraður birtuna sem er svo lýsandi fyrir boðskap jólanna.

SÖLUAÐILAR

Allir þeir söluaðilar sem selja Kærleikskúluna gera það án þóknunar og leggja því málefninu mikilvægt lið.

 

Ragna Róbertsdóttir er fædd í Reykjavík 1945. Hún stundaði nám í Myndlista- og handíðaskólanum og í Konstfack í Stokkhólmi en hún býr nú og starfar jöfnum höndum í Reykjavík, í Arnarfirði og í Berlín. Ragna er einn fremsti listamaður landsins og hefur sýnt víða um heim. Hún var tilnefnd til Carnegie-verðlaunanna árið 2012 og einkasýning hennar „Kynngikraftur“ á Kjarvalsstöðum árið 2004 er af mörgum talin ein af áhrifameiri sýningum safnsins. Ragna notar einkum náttúru Íslands sem efnivið verka sinna en efnin sem hún vinnur með ýmist líkja eftir eða ögra náttúrulegum mynstrum. Náttúruöflin verða áþreifanleg í „landslagi“ Rögnu þar sem þau eru tamin, löguð að ákveðnu rými og að hinu manngerða.

4f479d1e-d350-4ab0-a5a1-1aa7d5afdd50

Jólagjöfin fæst í safnbúð Hafnarborgar

Í safnverslun Hafnarborgar er að finna fallegar hönnunarvörur, listaverkabækur og rit sem tilvaldar eru til jólagjafa. Meðal nýrra gripa í búðinni eru hreindýrakerti kerti frá Pyropet, treflar í nýjum litum frá Vík Prjónsdóttur og vegleg listaverkabók um margbreytilegan listferil listmálarans Eiríks Smith sem Hafnarborg gaf út í nóvember.
Screenshot_2015-09-08_13.36.33_large
Pyropet dýrakerti eftir Þórunni Árnadóttur. Nokkrir nýjir litir eru í boði sem og glæný hreindýrakerti sem koma í bláu og hvítu.

Safnverslunin er rekin í samstarfi við Spark hönnunargallerí. Lögð er áhersla á íslenska hönnun meðal annars frá Róshildi Jónsdóttur, Þórunni Árnadóttur, Sigríði Rún, Scintilla, hönnunarteyminu Vík Prjónsdóttur og As we grow.

bók-feature
Bókin um Eirík Smith Á eintali við tilveruna kemur í fimm mismunandi kápum.

Í safnverslun Hafnarborgar er einnig boðið upp á úrval af bókum og sýningarskrám sem tengjast sýningum safnsins. Eins selur Hafnarborg vönduð og falleg kort með listaverkum úr safneign.

Screen Shot 2015-12-13 at 23.09.32
Sívinsælu plakötin Anatomy of Letters fást í Hafnbarborg.

Screen Shot 2015-12-13 at 23.34.18
Lambhúshetta úr 100% Alpaca ull frá As We Grow.

Safnverslunin er opin á opnunartíma Hafnarborgar, alla daga, nema þriðjudaga, frá 12 – 17 og til kl. 21 alla fimmtudaga. Opnunartíma um jól og áramót má finna hér.

57642

Lokað í dag frá kl. 15

Í dag, mánudaginn 7. desember, er spáð vonskuveðri á höfuðborgarsvæðinu og um allt land og því mun safnið loka fyrr en ella eða klukkan 15. Á morgun er lokað í Hafnarborg eins og venjulega á þriðjudögum en á miðvikudag er opið frá kl. 12 – 17.

Opnunartíma yfir jól og áramót má finna hér að neðan.

Hafnarborg

Opnunartímar um jól og áramót

Þriðjudagur 22. des – Lokað

Þorláksmessa, 23. des – Opið frá kl. 12 – 17

Aðfangadagur, 24. des – Lokað

Jóladagur, 25. des – Lokað

Annar í jólum, 26. des – Lokað

 

Sunnudagur 27. des – Opið frá 12 – 17

Mánudagur 28. des – Opið frá 12 – 17

Þriðjudagur 29. des – Lokað

Miðvikudagur 30. des – Opið frá 12 – 17

 

Gamlársdagur 31. des – Lokað

Nýársdagur 1. jan – Lokað

 

Laugardagur 2. jan – Opið frá 12 – 17

Sunnudagur 3. jan – Opið frá 12 – 17

syngjandijól2015-featureimage

Syngjandi jól 2015

Laugardaginn, 5. desember fyllist Hafnarborg af söng og hátíðaranda frá morgni og fram á kvöld en þá koma saman fjölmargir kórar Hafnarfjarðar skipaðir söngfólki á öllum aldri. Syngjandi jól eru nú haldin í nítjánda sinn og eru samstarfsverkefni skólaskrifstofu Hafnarfjarðar, skrifstofu menningar- og ferðamála og Hafnarborgar.

Vegna tónleikanna eru sýningar Hafnarborgar eru ekki opnar þennan dag.

Dagskráin er eftirfarandi:

09.40-10.00    Kór Setbergsskóla

10.00-10:20    Leikskólinn Hvammur

10:20-10:40    Leikskólinn Álfasteinn

10:40-11:00    Leikskólinn Stekkjarás

11:00-11:20    Kór Lækjarskóla

11.20-11:40    Leikskólinn Brekkuhvammur

11:40-12:00    Hraunvallaskóli (leikskóli)

12:00-12:20    Kór Áslandsskóla

12:20-12:40    Kvennakór Hafnarfjarðar

12:40-13:00    Graflarakórinn

13:00-13:20    Litli kór Öldutúnsskóla

13:20-13:40    Kór Öldutúnsskóla

13:40-14:00    Kór Flensborgarskólans og Flensborgarkórinn

14:00-14:20    Gospelkór Ástjarnarkirkju

14:20-14:40    Karlakór eldri þrestir

14:40-15:00    Kvennakórinn Rósir

15:00-15:20    Hrafnistukórinn

15:20-15:40    Barna- og unglingakór Hafnarfjarðarkirkju

15:40-16:00    Kammerkór Hafnarfjarðar

SyngjandijolDreifibref15
bók-feature

Hafnarborg gefur út bók um feril Eiríks Smith

Hafnarborg  kynnir með stolti útgáfu listaverkabókar um listmálarann Eirík Smith sem gefin var út í tengslum við sýninguna Á eintali við tilveruna sem nú stendur yfir í sölum safnsins.

Bókin, sem ber sama titil og sýningin, er vegleg og gerir margbreytilegum ferli Eiríks Smith góð skil í máli og myndum. Höfundar texta bókarinnar eru Aðalsteinn Ingólfsson, Heiðar Kári Rannversson og Aldís Arnardóttir ásamt Ólöfu K. Sigurðardóttur, fyrrverandi forstöðumanni Hafnarborgar, sem jafnframt er sýningarstjóri sýningarinnar og ritstjóri bókarinnar.

kápa2

 

Ferill Eiríks Smith (f. 1925) er í senn langur og margbreytilegur. Hann hefur tekist á við málverkið sem tjáningarform og eftir hann liggja verk sem bera vitni um einstök tök á jafn ólíkum viðfangsefnum og strangflatarlist, tjáningarríku abstraktmálverki og raunsæisverkum þar sem maðurinn er oft í forgrunni en landið og mannanna verk mynda magnþrungna umgjörð. Aðferðir hans og afstaða hafa þannig tekið miklum breytingum bæði í takt við tíðarandann og einnig vegna þess að listamaðurinn hefur ákveðið að kanna nýjar slóðir.

bókakápur

Sýningin Á eintali við tilveruna er fimmta og síðasta sýningin í sýningarröð sem Hafnarborg hefur staðið fyrir síðan árið 2010 þar sem kynnt hafa verið fimm ólík tímabil á löngum og fjölþættum ferli Eiríks.

Gaman er að segja frá því að bókin kemur út með fimm mismunandi kápum, með mynd af málverki frá sitthvoru tímabilinu hver. Kaupendur geta þá valið sér kápu eftir persónulegum smekk hvers og eins. Útlit og hönnun bókarinnar var í höndum Ármanns Agnarssonar.

Bókin fæst í safnbúð Hafnarborgar og öllum helstu bókaverslunum.

Viti - Eiríkur Smith

Uppsetning á nýrri sýningu

Vikuna 2. – 6. nóvember eru salir Hafnarborgar lokaðir vegna uppsetningar á nýrri sýningu,
Á eintali við tilveruna – Eiríkur Smith sem verður opnuð laugardaginn 7. nóvember kl. 15

Sýningin er fimmta og jafnframt síðasta sýningin í röð sýninga Hafnarborgar þar sem margbreyttur ferill Eiríks Smith er rannsakaður. Sýnd eru olíumálverk og vatnslitamyndir unnar á árunum frá 1982 og til samtímans. Nánari um sýninguna hér.

4

Fræðslukynning þann 14. október.

Í síðustu viku var í fyrsta sinn haldin sameiginleg kynning á skipulögðu fræðslustarfi menningarhúsa Kópavogs, Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Mosfellsbæjar og fór hún fram í Salnum í Kópavogi. Á kynningunni gafst starfsfólki leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva sveitarfélaganna færi á að kynna sér þá fræðslu og viðburði sem í boði eru í vetur enda eru söfn og menningarhús mikilvægur liður í menntun barna og ungmenna. Stefnt er að því að þessi sameiginlega kynning sveitarfélaganna verði árviss og jafnvel í samvinnu við Reykjavík.

11
12

Alls ellefu ólík menningarhús kynntu fjölbreytta starfsemi sína og má nefna tónleikahús, myndlistarsöfn, hönnunarsafn, heimili Halldórs Laxness, náttúrugripasafn, tónlistarsafn og bókasöfn. Í þessum húsum gefst nemendum kostur á að upplifa, læra og skilja betur menningu, vísindi og listir og að tjá sig í gegnum listir og skapandi greinar. Fjölmargir skólar koma reglulega með hópa og nýta heimsóknina til kennslu og fræðslu.

1

Menningarhúsin sem kynntu fræðslustarf sitt eru: Gerðarsafn, Salurinn, Hafnarborg, Gljúfrasteinn, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Hönnunarsafn Íslands, Tónlistarsafn Íslands, Héraðsskjalasafn Kópavogs, Bókasafn Kópavogs, Bókasafn Garðabæjar og Bókasafn Hafnarfjarðar.

5
9
13
2
10
36

 

haustsýningar2014og2015

Frestur til að skila inn tillögum að haustsýningu 2016 framlengdur til 1. nóvember.

Vegna fjölda áskoranna hefur fresturinn til að skila inn tillögum að haustsýningu Hafnarborgar 2016 verið framlengdur til 1. nóvember 2015.

Undanfarin fimm ár hefur sýningarstjórum gefist tækifæri til að senda inn tillögur að haustsýningu í Hafnarborg og nú endurtökum við leikinn með því að kalla eftir tillögum að haustsýningu fyrir árið 2016. Sýningin Heimurinn án okkar sem nú stendur yfir í sölum safnsins var valin úr athyglisverðum tillögum sem sendar voru inn á síðasta ári. Markmiðið með því að óska eftir innsendum tillögum er að fá tækifæri til að velja til samstarfs sýningarstjóra sem leggur fram áhugaverða tillögu að sýningu en jafnframt að kalla til leiks nýtt fólk. Þannig er sérstaklega hugað að því að veita tækifæri sýningarstjórum með stuttan feril að baki. Hafnarborg er eina safnið hér á landi sem opnar dyr sínar fyrir sýningarstjórum með þessum hætti. Það hefur sýnt sig að fyllsta ástæða er til að halda úti slíku verkefni, en út frá því hafa orðið til fjölbreyttar og áhugaverðar sýningar sem vakið hafa athygli og verið vel sóttar.

Óskað er eftir hugmyndum að samsýningum þar sem viðfangsefni, vinnuaðferð eða aðrar hugmyndir tengja verk listamanna en einnig koma til greina sýningar sem fela í sér greiningu eða sýn á verk ákveðins listamanns. Jafnt koma til greina sýningar á verkum samtímalistamanna og sýningar sem fela í sér sögulega greiningu.

Frestur til að skila inn tillögum rennur út sunnudaginn 1. nóvember 2015. Aðeins er tekið við efni rafrænt á netfangið haust2016@hafnarfjordur.is

Umsóknarferlið er tvískipt og eru þeir sem áhuga hafa á að takast á við þetta verkefni hvattir til að kynna sér verkefnið frekar hér.

Árið 2011 hóf haustsýningaröðin göngu sína með sýningunni Í bili sem unnin var af Ólöfu Gerði Sigfúsdóttur mannfræðingi, 2012 var sett upp sýningin SKIA í sýningarstjórn Guðna Tómassonar listsagnfræðings og Anna María Bogadóttir menningarfræðingur og arkitekt vann sýninguna Vísar – húsin í húsinu árið 2013. Á árinu 2014 var hugmynd Helgu Þórsdóttur, menningarfræðings og myndlistarmanns, að sýningunni Rás valin úr áhugaverðum tillögum. Núna árið 2015 voru þær Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir með tillögu að sýningu sem varð fyrir valinu og ber sýningin heitið Heimurinn án okkar  þar sem leiddir eru saman íslenskir listamenn sem vinna með hugmyndir um alheiminn í verkum sínum og varpa ljósi á ákveðna þætti hans. Eins og fyrr þá komu tillögurnar frá fólki úr ýmsum geirum, listamönnum og fræðimönnum af ólíkum sviðum en einnig frá fólki með sérmenntun á sviði sýningarstjórnar. Með haustsýningaröðinni vill Hafnarborg skapa farveg fyrir áhugaverðar hugmyndir þannig að safnið verði vettvangur þar sem myndlist fær notið sín, mótuð af fjölbreyttum viðhorfum og viðfangsefnum. Sýningarnar og málþing sem skipulögð hafa verið samhliða þeim hafa skapað markverðan vettvang umræðna og þróunar í Hafnarborg.

Sendið tillögur á netfangið haust2016@hafnarfjordur.is
Merkið póstinn Haust2016.
Nánari upplýsingar í síma Hafnarborgar 585 5790 og á heimasíðu safnsins www.hafnarborg.is

Grunnmynd-af-öllum-sölum