haustsyning-featureimage2

Haustsýning Hafnarborgar 2019 – umsóknarfrestur framlengdur

Eins og undanfarin ár gefst sýningarstjórum tækifæri til að senda inn tillögur að sýningu í Hafnarborg haustið 2019. Sýningin Allra veðra von var valin úr athyglisverðum tillögum sem sendar voru inn á síðasta ári. Markmiðið með því að óska eftir innsendum tillögum er að fá tækifæri til að velja til samstarfs sýningarstjóra sem leggur fram áhugaverða tillögu að sýningu en jafnframt að kalla til leiks nýtt fólk. Þannig er sérstaklega hugað að því að veita tækifæri sýningarstjórum með stuttan feril að baki. Það hefur sýnt sig að fyllsta ástæða er til að halda úti slíku verkefni, en út frá því hafa orðið til fjölbreyttar og áhugaverðar sýningar sem vakið hafa athygli og verið vel sóttar.

Frestur til að skila inn tillögum hefur verið framlengdur um eina viku og rennur út sunnudaginn 25. nóvember 2018.

Óskað er eftir hugmyndum að samsýningum þar sem viðfangsefni, vinnuaðferð eða aðrar hugmyndir tengja verk listamanna en einnig koma til greina sýningar sem fela í sér greiningu eða sýn á verk ákveðins listamanns. Jafnt koma til greina sýningar á verkum samtímalistamanna og sýningar sem fela í sér sögulega greiningu.

Umsóknarferlið er tvískipt og eru þeir sem áhuga hafa á að takast á við þetta verkefni hvattir til að kynna sér verkefnið frekar hér.

Árið 2011 hóf haustsýningaröðin göngu sína með sýningunni Í bili sem unnin var af Ólöfu Gerði Sigfúsdóttur mannfræðingi, 2012 var sett upp sýningin SKIA í sýningarstjórn Guðna Tómassonar listsagnfræðings og Anna María Bogadóttir menningarfræðingur og arkitekt vann sýninguna Vísar – húsin í húsinu árið 2013. Á árinu 2014 var hugmynd Helgu Þórsdóttur, menningarfræðings og myndlistarmanns, að sýningunni Rás valin úr áhugaverðum tillögum. Haustið 2015 voru það listfræðingarnir Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir með sýninguna Heimurinn án okkar. Á síðasta ári, 2016, var tillaga hönnunartvíeykisins TOS fyrir valinu en TOS er skipað þeim Hildi Steinþórsdóttur og Rúnu Thors með sýninguna Tilraun – leir og fleira. 2017 var tillaga Jóhannesar Dagssonar listheimspekings Málverk – ekki miðill fyrir valinu og í ár var það sýningina Allra veðra von, tillaga Mörtu Sigríðar Pétursdóttur, menningar- og kynjafræðings, sem fjallaði um samband mannsins við veður .

Með haustsýningaröðinni vill Hafnarborg skapa farveg fyrir áhugaverðar hugmyndir þannig að safnið verði vettvangur þar sem myndlist fær notið sín, mótuð af fjölbreyttum viðhorfum og viðfangsefnum. Sýningarnar og málþing sem skipulögð hafa verið samhliða þeim hafa skapað markverðan vettvang umræðna og þróunar í Hafnarborg.

Sendið tillögur á netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is, merktar „Haust 2019“.

Nánari upplýsingar í síma Hafnarborgar 585 5790.

vetrarfri2018-featureimage

Listasmiðjur í vetrarfríi

Hafnarborg býður börnum á grunskólaaldri í vetrarfríi að koma og taka þátt í skemmtilegum og skapandi listasmiðjum á vegum safnsins. Smiðjurnar fara fram mánudaginn 22. október og þriðjudaginn 23. október kl. 13–15. Hægt er að mæta báða dagana eða annan hvorn daginn og eins og alltaf er ókeypis aðgangur að smiðjunum og safninu sjálfu. Mælst er til þess að börn komi í fylgd fullorðinna.

Mánudagur 22. október kl. 13–15
Haustlistasmiðja fyrir alla fjölskylduna. Unnið verður með haustið. Tilraunir með lauf, liti, málun og samsetningar. Smiðjan er fyrir börn á grunnskólaaldri ásamt foreldrum/forráðamönnum.
Leiðbeinandi er Berglind Jóna Hlynsdóttir, listakona.

Þriðjudagur 23. október kl. 13–15
Hrekkjavökulistasmiðja fyrir alla fjölskylduna. Hrekkjavaka er á næsta leiti og í smiðju dagsins verður unnið út frá því þema. Smiðjan er fyrir börn á grunnskólaaldri ásamt foreldrum/forráðamönnum.
Leiðbeinendur eru Áslaug Friðjónsdóttir og Irene Hrafnan, myndlistarkonur og starfsmenn Hafnarborgar.

Listasmiðjurnar fara fram í Apótekinu, sal á fyrstu hæð safnsins.

haust-featureimage

Haustsýning Hafnarborgar 2019 – kallað eftir tillögum

Eins og undanfarin ár gefst sýningarstjórum tækifæri til að senda inn tillögur að haustsýningu næsta árs í Hafnarborg. Haustsýning Hafnarborgar í ár, Allra veðra von, var valin úr athyglisverðum tillögum síðasta árs og var opnuð þann 31. ágúst sl.

Markmiðið með því að óska eftir innsendum tillögum er að fá tækifæri til að velja til samstarfs sýningarstjóra, sem leggur fram áhugaverða tillögu að sýningu, en jafnframt að kalla til leiks nýtt fólk. Þannig er sérstaklega hugað að því að veita tækifæri sýningarstjórum með stuttan feril að baki. Það hefur sýnt sig að fyllsta ástæða er til að halda úti slíku verkefni en út frá því hafa orðið til fjölbreyttar og áhugaverðar sýningar, sem vakið hafa athygli og fengið góða aðsókn.

Óskað er eftir hugmyndum að samsýningum þar sem viðfangsefni, vinnuaðferð eða aðrar hugmyndir tengja verk listamanna en einnig koma til greina sýningar sem fela í sér greiningu eða sýn á verk ákveðins listamanns. Jafnt koma til greina sýningar á verkum samtímalistamanna og sýningar sem fela í sér sögulega greiningu.

Frestur til að skila inn tillögum hefur verið framlengdur um eina viku og rennur út sunnudaginn 25. nóvember 2018.
Aðeins er tekið við tillögum rafrænt á netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is.

Umsóknarferlið er tvískipt.

1. Hluti

Í fyrri umferð er óskað eftir eftirfarandi upplýsingum:

– Lýsingu á verkefninu þar sem lögð er áhersla á hugmyndina að baki sýningunni (hámark 1000 orð).
– Ferilskrá sýningarstjóra.
– Stuttum ferilskrám listmanns/-manna og annarra sem lagt er til að verði hluti af sýningarverkefninu.

Vinsamlegast gefið eins nákvæma lýsingu og unnt er en virðið uppgefinn orðafjölda. Ekki er tekið við sýningarskrám, myndefni eða dvd-diskum í fyrstu umferð. Kynnið ykkur húsnæði Hafnarborgar áður en tillögur eru sendar inn. Listráð Hafnarborgar metur innsendar tillögur ásamt forstöðumanni og velur tillögur til frekari skoðunar.

2. Hluti

Sýningarstjórum sem eiga tillögurnar sem valdar eru til frekari skoðunar verður boðið að kynna hugmyndir sínar og senda inn ítarefni, s.s. sýningarskrár, myndefni eða dvd-diska, auk þess sem vinna þarf að raunhæfri fjárhagsáætlun fyrir sýninguna.

Með því að kalla eftir tillögum er verið að opna fyrir nýja sýn á myndlist en jafnframt gefa nýjum sýningarstjórum tækifæri til að vinna sýningar. Reiknað er með að sýningin og vinnan við hana falli að fjárhagsáætlun safnsins eða að leitað verði leiða til að fá sérstakan stuðning við verkefnið.

Við mat á tillögum verður skoðað:

– Val á listamönnum.
– Hvort sýningin kynni nýstárlega sýn á myndlist – innihald og/eða miðla.
– Hvort verkin á sýningunni eru ný eða eldri verk eða blanda nýrra og eldri.
– Hvort sýningin hafi sérstaka skírskotun til Hafnarborgar, þ.e. safneignar, umhverfis, bæjarlífs o.s.frv.
– Hvort sýningin nýti rými Hafnarborgar á frumlegan hátt.
– Ferill sýningarstjóra (sérstaklega er leitað eftir sýningarstjórum sem ekki eiga langan feril að baki).
– Tillögur að dagskrá í tengslum við sýninguna (leiðsögn, málþing, námskeið).
– Tillögur að hugsanlegri útgáfu.
– Að kostnaður við verkefnið sé innan viðráðanlegra marka (nánari útfærsla kostnaðar er í síðari hluta ferlisins).

Teikningar af sölum Hafnarborgar má sjá hér fyrir neðan. Þær eru ætlaðar til viðmiðunar við undirbúning tillagna en ekki er þess krafist að sýningar séu hannaðar nákvæmlega inn í rýmið.

Grunnmynd-af-öllum-sölum

Vinsamlegast sendið tillögur á netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is. Send verður staðfesting á því að tillagan hafi borist. Hafa má samband í síma 585 5790 ef staðfesting berst ekki. Allar niðurstöður verða sendar með tölvupósti.

Tillögur skulu merktar „Haust 2019“.

Nánari upplýsingar í síma Hafnarborgar 585 5790.

Gudrun Olafsdottir portrait-sm

Tónlistarnámskeið fyrir börn og fullorðna

Sönghátíð í Hafnarborg blæs til mikillar söngveislu dagana 7.–15. júlí 2018 með fjölda tónleika og námskeiða. Haldið er upp á aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands 2018 með því að bjóða upp á mikið úrval af íslenskri tónlist í alls konar mismunandi raddsamsetningum, frá gamalli þjóðlagatónlist til nýrra tónverka, að ógleymdri hinni erlendu tónlist sem mótaði hana – og okkur – frá barokktímanum til samtímans.

Á hátíðinni verður boðið upp á fjögur námskeið: master class fyrir unga söngvara og söngnemendur með Kristni Sigmundssyni, söngnámskeið fyrir áhugafólk með Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur, tónlistar- og söngsmiðjur fyrir 6–12 ára börn með Ingibjörgu Fríðu og Sigurði Inga og íslenskt þjóðlaganámskeið með Báru Grímsdóttur og Chris Foster.

Sönghátíð í Hafnarborg var fyrst haldin sumarið 2017 og er þetta því í annað sinn sem hún fer fram. Hátíðin var stofnuð með það að markmiði að koma list raddarinnar á framfæri en listrænn stjórnandi er Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og meðstjórnandi er Francisco Javier Jáuregui. Nánari upplýsingar um námskeiðin má finna á heimasíðu Sönghátíðar í Hafnarborg.

_MG_9312-Edit

Master class með Kristni Sigmundssyni

Kristinn Sigmundsson kennir námskeið fyrir söngvara á miðstigi, framhaldsstigi eða í framhaldsnámi og unga atvinnusöngvara. Píanóleikari námskeiðsins er Matthildur Anna Gísladóttir. Fimmtudaginn 12. júlí kl. 20 koma virkir þátttakendur á master class námskeiðinu fram á opinberum tónleikum á Sönghátíð í Hafnarborg, ásamt píanóleikaranum Matthildi Önnu Gísladóttur. Tónleikarnir verða hljóðritaðir og fá þátttakendur eintak af upptökunni. Námskeiðið fer fram í aðalsal Hafnarborgar.

Mánudag 9. júlí–fimmtudag 12. júlí, kl. 9:30–16:30

Vinsamlegast athugið að fullt er á námskeiðið fyrir virka þátttakendur en hægt er að fylgjast með sem hlustandi.

Námskeiðsgjald fyrir hlustendur er 3.000 kr. á dag eða 6.000 kr. alla fjóra dagana.
Athugið að fjöldi þátttakenda er takmarkaður.

Skráning fyrir hlustendur fer fram í gegnum netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is.

Vinsamlegast látið upplýsingar um nafn, kennitölu, símanúmer og netfang fylgja umsókninni.

Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu Sönghátíðar í Hafnarborg. Til að fá aðstoð við skráningu, vinsamlegast hafið samband í síma 585 5790 eða í gegnum netfangið info@songhatid.com.

Listrænn stjórnandi Sönghátíðar í Hafnarborg er Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir.

Funi-Bára-Grímsdóttir-and-Chris-Foster-1

Námskeið í íslenskum þjóðlagasöng

Á námskeiðinu Syngjum og kveðum saman verða sungnar og kveðnar stemmur, tvísöngslög og fleiri íslensk þjóðlög. Einnig verður hlustað á frumupptökur af lögum og horft á brot úr kvikmyndum en fyrst og fremst mikið sungið. Kenndar verða m.a. stemmur úr Segulböndum Iðunnar, nýrri bók með 160 lagboðum sem Kvæðamannafélagið Iðunn gaf út í maí síðastliðnum. Öll lögin verða kennd eftir heyrn og fólki er velkomið að hljóðrita. Einnig verða lögin til á nótum fyrir þá sem vilja. Námskeiðið fer fram í Apótekssal Hafnarborgar og er opið öllum. Kennarar eru Bára Grímsdóttir og Chris Foster.

Föstudag 13. júlí, kl. 17–19.

Námskeiðsgjald (2 klst.) er 5.000 kr.
Athugið að fjöldi þátttakenda er takmarkaður.

Skráning fer fram í gegnum netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is.

Vinsamlegast látið upplýsingar um nafn, kennitölu, símanúmer og netfang fylgja umsókninni.

Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu Sönghátíðar í Hafnarborg. Til að fá aðstoð við skráningu, vinsamlegast hafið samband í síma 585 5790 eða í gegnum netfangið info@songhatid.com.

Listrænn stjórnandi Sönghátíðar í Hafnarborg er Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir.

Gudrun Olafsdottir portrait-sm

Söngnámskeið fyrir áhugafólk

Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, mezzósópran, kennir námskeið fyrir áhugafólk um söng. Farið verður í ýmislegt varðandi söngtækni, svo sem líkamsstöðu, öndun, stuðning og sérhljóðamyndun, að syngja hreint, hátt og lágt, veikt og sterkt. Markmið námskeiðsins er að nemendur nái að njóta þess að syngja af enn meira frelsi en áður. Námskeiðið er tilvalið fyrir alla þá sem hafa gaman af því að syngja og vilja ná betra valdi á röddinni, eins og t.d. þá sem syngja í kór. Ekki er nauðsynlegt að hafa lært söng áður, verið í tónlistarskóla eða að kunna að lesa nótur. Aldurslágmark er 13 ár en aldurshámark er ekkert. Námskeiðið fer fram í Hafnarborg.

Laugardag 7. júlí, kl. 15–17
Sunnudag 8. júlí, kl. 15–17

Námskeiðsgjald (4 klst.) er 12.000 kr.
Innifalinn er einn boðsmiði (að andvirði 3.000 kr.) á eina tónleika að eigin vali á Sönghátíð í Hafnarborg 2018. Athugið að fjöldi þátttakenda er takmarkaður.

Skráning fer fram í gegnum netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is.

Vinsamlegast látið upplýsingar um nafn, kennitölu, símanúmer og netfang fylgja umsókninni.

Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu Sönghátíðar í Hafnarborg. Til að fá aðstoð við skráningu, vinsamlegast hafið samband í síma 585 5790 eða í gegnum netfangið info@songhatid.com.

Listrænn stjórnandi Sönghátíðar í Hafnarborg er Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir.

Songhatid-Smidja-Courses

Tónlistar- og söngsmiðjur fyrir 6–12 ára börn

Tónlistarsmiðja fyrir 6–9 ára

Á námskeiðinu verður aðaláhersla lögð á skapandi og skemmtilega vinnu með þjóðsögur og þjóðlög. Hvað er þjóðlag? Eru öll þjóðlög um tröllskessur og álfa? Er hægt að búa til þjóðsögu? Þátttakendur kynnast þjóðlögum og sögum frá Íslandi og öðrum löndum í gegnum leik, spuna og tónlistarvinnu með leiðbeinendum. Saman munu krakkarnir undirbúa atriði og koma fram á fjölskyldutónleikum Sönghátíðar. Námskeiðið er fyrir öll börn á aldrinum 6–9 ára, sem hafa gaman af sögum og tónlist, hvort sem þau hafa tónlistarbakgrunn eða ekki. Námskeiðið fer fram í Apótekssal Hafnarborgar. Kennarar eru Ingibjörg Fríða Sigurðardóttir, söngkona, og Sigurður Ingi Einarsson, trommuleikari.

Mánudag 9. júlí–föstudag 13. júlí, kl. 9–12
Laugardag 14. júlí, mæting kl. 16 fyrir tónleika kl. 17

Námskeiðsgjald er 17.ooo kr.
Innifaldir eru tveir miðar (að andvirði 3.000 kr. hvor, samtals 6.000 kr.) á tónleika á Sönghátíð í Hafnarborg laugardaginn 14. júlí kl. 17:00, þar sem börnin koma fram.

Söngsmiðja fyrir 1012 ára

Söngsmiðjan er fyrir krakka á aldrinum 10–12 ára, sem elska að syngja og spila tónlist. Þar fá þau þjálfun í að læra lög eftir eyranu, búa til eigin útsetningar, syngja í röddum, syngja í keðjusöng og að semja sín eigin lög. Íslensk þjóðlög og þjóðsögur verða rauður þráður í gegnum námskeiðið, enda hafa Íslendingar sungið sig í gegnum lífið í mörg hundruð ár. Þátttakendur kynnast þjóðlögum og sögum frá Íslandi og öðrum löndum í gegnum leik, spuna og tónlistarvinnu með leiðbeinendum. Saman munu krakkarnir undirbúa atriði og koma fram á fjölskyldutónleikum Sönghátíðar. Námskeiðið fer fram í Apótekssal Hafnarborgar. Kennarar eru Ingibjörg Fríða Sigurðardóttir, söngkona, og Sigurður Ingi Einarsson, trommuleikari.

Mánudag 9. júlí–fimmtudag 12. júlí, kl. 13–16
og föstudag 13. júlí, kl. 9–12
Laugardag 14. júlí, mæting kl. 16 fyrir tónleika kl. 17

Námskeiðsgjald er 17.ooo kr.
Innifaldir eru tveir miðar (að andvirði 3.000 kr. hvor, samtals 6.000 kr.) á tónleika á Sönghátíð í Hafnarborg laugardaginn 14. júlí kl. 17:00, þar sem börnin koma fram.

Skráning fer fram í gegnum netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is.

Vinsamlegast látið upplýsingar um nafn og kennitölu barns, nöfn foreldra eða forráðamanna, símanúmer og netfang fylgja umsókninni.

Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu Sönghátíðar í Hafnarborg. Til að fá aðstoð við skráningu, vinsamlegast hafið samband í síma 585 5790 eða í gegnum netfangið info@songhatid.com.

Listrænn stjórnandi Sönghátíðar í Hafnarborg er Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir.

sumarnámskeið-featureimage

Myndlistarnámskeið Hafnarborgar

Í sumar er boðið upp á námskeið fyrir börn á aldrinum 6–12 ára í Hafnarborg. Farið verður í rannsóknarleiðangra og undirstöðuatriði myndlistar kynnt bæði í gegnum rannsókn á umhverfinu, sýningar í safninu og með skapandi vinnu. Unnin verða skapandi verkefni í fjölbreytta miðla – teiknað, málað og mótað – með það að markmiði að þjálfa sjónræna athygli, örva skapandi hugsun og persónulega tjáningu barnanna. Leiðbeinandi er Vigdís Hlíf Sigurðardóttir, grafískur hönnuður og sjónlistakennari.

Í boði eru þrjú vikulöng (5 daga) námskeið fyrir aldurshópana 6–9 ára og 10–12 ára. Hvert námskeið um sig fjallar um ólíkt þema því er hægt að taka þátt í fleiri en einu.

Boðið verður upp á eftirfarandi námskeið:

11.–15. júní
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára: kl. 13:00–16:00

18. júní–22. júní
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára: kl. 13:00–16:00

25. júní–29. júní
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára: kl. 13:00–16:00

Námskeiðsgjald er 12.500 krónur fyrir hvert vikulangt námskeið.

  • Systkinaafsláttur: Fullt gjald er greitt fyrir eitt barn en 50% afsláttur er veittur af námskeiðagjaldi annarra systkina.
  • Vinsamlegast látið vita ef barn er með sérþarfir sem taka þarf tillit til.

Athugið að fjöldi þátttakenda er takmarkaður.

Skráning fer fram í gegnum íbúagátt Hafnarfjarðarbæjar. Frekari upplýsingar eru veittar í síma 585 5790 eða í gegnum netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is.

29983091_2166346410172887_1370367422894568932_o

Dagskrá Hafnarborgar á Björtum dögum 2018

Miðvikudagur 18. apríl
Kl. 17 Afhending menningarstyrkja og bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2018 kynntur.
Tilkynnt um hvaða Hafnfirðingur hlýtur nafnbótina Bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2018 og menningarstyrkir bæjarins afhentir. Tónlistarmenn úr hópi styrkhafa flytja tónlist við athöfnina og að henni lokinni verður boðið upp á léttar veitingar.
Kl. 19:30 Sinfóníuhljómsveit Tónlistarskóla Hafnarfjarðar leikur fyrir börn og fullorðna.
Flutt verður sagan Tindátinn staðfasti eftir Þorbjörgu Roach Gunnarsdóttur af sögumanni og hljómsveit og verða hljóðfæri hljómsveitarinnar kynnt stuttlega. Einnig verða flutt íslensk lög og léttklassísk tónlist. Tónleikarnir standa í um 30 mínútur. Aðgangur ókeypis.

Fimmtudagur 19. apríl – Sumardagurinn fyrsti.
Kl. 12 – Káta Ekkjan, Hádegistónleikar Alda Ingibertsdóttir
Alda Ingibergsdóttir, söngkona, og Antonia Hevesi, píanóleikari, flytja íslenska tónlist og óperettuaríur. Aðgangur ókeypis.

Föstudagur 20. apríl
Kvöldopnun – Opið frá kl. 12–21
Kl. 18
– Þráður – mynd í vatni
Kynningarsýning um undirbúning og vinnslu mósaíkmyndar á Norðurbakka opnar í Apóteki.

Laugardagur 21. apríl
Sýningar opnar frá kl. 12–17

Sunnudagur 22. apríl
Kl. 13 – Fjölskyldusmiðja
Smiðja í tengslum við sýninguna Margoft við sjáum og margoft við sjáum aftur, sem stendur yfir í Aðalsal safnsins, sniðin að bæði börnum og fullorðnum.
Kl. 14 – Listamannsspjall – Jón Axel Björnsson
Listamaðurinn Jón Axel Björnsson verður með listamannsspjall í tengslum við sýningu sína Afstæði sem nú stendur yfir í Sverrissal. Allir velkomnir.
Kl. 20 – Hljóðön – Andþemu og örsögur
Hulda Jónsdóttir, fiðluleikari, og Tinna Þorsteinsdóttir, píanóleikari, slá botninn í fimmta starfsár tónleikaraðarinnar Hljóðön í Hafnarborg með tónleikum tileinkuðum andþemum og örsögum. Frumflutt verður nýtt verk Karólínu Eiríksdóttur Örsögur að vori, sem samið er sérstaklega í tilefni tónleikanna, og fléttast verkið saman við andþemu og styttri frásagnir allt frá miðbiki 20. aldar og fram á okkar daga, í verkum Pierre Boulez, Karlheinz Stockhausens, Giacinto Scelsis og Bryns Harrisonar. Aðgöngumiðar eru seldir í Hafnarborg. Almennt miðaverð kr. 2500, fyrir eldri borgara og námsmenn kr. 1500.