Jórfetaður Grotesque

Rás – sýningarlok

Sunnudaginn 19. október kl. 15 tekur Ívar Valgarðsson myndlistarmaður þátt í leiðsögn og ræðir við gesti um verk sín á sýningunni Rás, sem nú stendur yfir í Hafnarborg en sýningunni lýkur nú um helgina.

Ívar Valgarðsson hefur lengi verið í framvarðarsveit íslenskra myndlistarmanna eða allt frá því hann lauk framhaldsnámi í Hollandi árið 1979. Verk hans hafa víða verið sýnd og eru í eigu margra safna og safnara bæði hér heima og erlendis. Hann á að baki á annan tug einkasýninga og fjölda samsýninga meðal annars í Listasafni Íslands og umdeilda sýningu á Kjarvalsstöðum árið 1991. Verk Ívars endurspegla áhuga hans á þeim sköpunarkrafti sem á sér stað í mótun og uppbyggingu manngerðs umhverfis. Verk hans á sýningunni Rás eru unnin inn í sýningarsal Hafnarborgar, þar sem efni og form kallast á við arkitektúr hússins.

Nú um helgina er jafnframt síðasta sýningarhelgi sýningarinnar Rásar. Sýningarstjóri er Helga Þórsdóttir, menningarfræðingur en hugmynd hennar að þessari sýningu var valin úr innsendum tillögum síðastliðið haust þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu 2014 í Hafnarborg. Auk verka eftir Ívar eru á sýningunni verk eftir þau Daníel Magnússon, Guðrúnu Hrönn Ragnarsdóttur, Ívar Brynjólfsson, Sólveigu Aðalsteinsdóttur og Þóru Sigurðardóttur. Nánar um sýninguna hér.

kallaðeftirtillögum2

Kallað eftir tillögum að sýningu haustið 2015

Haustsýning Hafnarborgar 2015 – Kallað eftir tillögum

Eins og undanfarin fjögur ár gefst sýningarstjórum tækifæri til að senda inn tillögur að sýningu í Hafnarborg haustið 2015. Sýningin Rás sem nú stendur yfir í safninu var valin úr athyglisverðum tillögum sem sendar voru inn á síðasta ári. Markmiðið með því að óska eftir innsendum tillögum er að fá tækifæri til að velja til samstarfs sýningarstjóra sem leggur fram áhugaverða tillögu að sýningu en jafnframt að kalla til leiks nýtt fólk. Þannig er sérstaklega hugað að því að veita tækifæri sýningarstjórum með stuttan feril að baki. Hafnarborg er eina safnið hér á landi sem opnar dyr sínar fyrir sýningarstjórum með þessum hætti. Það hefur sýnt sig að fyllsta ástæða er til að halda úti slíku verkefni, en út frá því hafa orðið til fjölbreyttar og áhugaverðar sýningar sem vakið hafa athygli og verið vel sóttar.

Óskað er eftir hugmyndum að samsýningum þar sem viðfangsefni, vinnuaðferð eða aðrar hugmyndir tengja verk listamanna en einnig koma til greina sýningar sem fela í sér greiningu eða sýn á verk ákveðins listamanns. Jafnt koma til greina sýningar á verkum samtímalistamanna og sýningar sem fela í sér sögulega greiningu.

Frestur til að skila inn tillögum rennur út mánudaginn 13. október 2014. Aðeins er tekið við efni rafrænt á netfangið haust2015@hafnarfjordur.is

Umsóknarferlið er tvískipt.

1. Hluti

Í fyrri umferð er óskað eftir eftirfarandi upplýsingum:

– Lýsing á verkefninu þar sem lögð er áhersla á hugmyndina að baki sýningunni. Hámark 1000 orð.
– Ferilskrá sýningarstjóra.
– Stuttar ferilskrár listmanna / listamanns og annarra sem lagt er til að verði hluti af sýningarverkefninu.

Gefið eins nákvæma lýsingu og unnt er en virðið uppgefinn orðafjölda. Ekki er tekið við sýningarskrám, myndefni eða dvd-diskum í fyrstu umferð. Kynnið ykkur húsnæði Hafnarborgar áður en tillögur eru sendar inn. Listráð Hafnarborgar metur innsendar tillögur ásamt forstöðumanni og velur tillögur til frekari skoðunar.

2. Hluti

Sýningarstjórum sem eiga tillögurnar sem valdar eru til frekari skoðunar er boðið að kynna hugmyndir sínar og senda inn ítarefni s.s. sýningarskrár, myndefni eða dvd-diska auk þess sem vinna þarf að raunhæfri fjárhagsáætlun fyrir sýninguna. Haustsýningin 2015 verður valin úr þessu úrtaki fyrir 1. desember 2014.

Sendið tillögur á netfangið haust2015@hafnarfjordur.is. Send verður staðfesting á því að tillagan hafi borist. Vinsamlega hafið samband ef staðfesting berst ekki. Allar niðurstöður verða sendar með tölvupósti.

Með því að kalla eftir tillögum er verið að opna fyrir nýja sýn á myndlist en jafnframt gefa nýjum sýningarstjórum tækifæri til að vinna sýningar. Reiknað er með að sýningin og vinnan við hana falli að fjárhagsáætlun safnsins eða að leitað verði leiða til að fá sérstakan stuðning við verkefnið.

Við mat á tillögum verður skoðað:

– Val á listamönnum
– Hvort sýningin kynni nýstárlega sýn á myndlist – innihald og/eða miðla
– Hvort verkin á sýningunni eru ný eða eldri verk eða blanda nýrra og eldri
– Hvort sýningin hafi sérstaka skírskotun til Hafnarborgar þ.e. safneignar, umhverfis, bæjarlífs  osfrv.
– Hvort sýningin nýti rými Hafnarborgar á frumlegan hátt
– Ferill sýningarstjóra (frekar er verið að leita eftir sýningarstjórum sem ekki eiga langan feril að baki)
– Tillögur að dagskrá í tengslum við sýninguna (leiðsögn, málþing, námskeið)
– Tillögur að hugsanlegri útgáfu
– Að kostnaður við verkefnið sé innan viðráðanlegra marka (nánari útfærsla kostnaðar er í síðari hluta ferlisins)

Teikningar af sölum Hafnarborgar eru hér fyrir neðan. Þær eru til viðmiðunar við undirbúning tillagna en ekki er ætlast til að sýningar séu hannaðar nákvæmlega inn í rýmið.

Grunnmynd af öllum sölum