hádegistónleikar-2019-7

Hádegistónleikar á nýju ári

Hafnarborg kynnir með stolti dagskrá hádegistónleika á nýju ári. Fyrstu hádegistónleikar ársins fara fram í aðalsal Hafnarborgar þriðjudaginn 5. febrúar kl. 12. Þar mun koma fram tenórinn Elmar Gilbertsson ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara og listrænum stjórnanda hádegistónleika í Hafnarborg.

Hér má sjá dagskrá hádegistónleika fram á vor:

5. febrúar – Elmar Gilbertsson, tenór
5. mars – Bergþór Pálsson, barítón
2. apríl – Sigrún Pálmadóttir, sópran
7. maí – Rósalind Gísladóttir, mezzo-sópran

Hádegistónleikar eru á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann. Þeir hefjast tímanlega kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis.

Dagskrá er birt með fyrirvara um breytingar.

bogagluggar-featureimage

Lokað vegna framkvæmda

Hafnarborg verður lokuð frá mánudeginum 7. janúar til laugardagsins 26. janúar vegna framkvæmda við sýningarsali og uppsetningar nýrra sýninga.

Krydd veitingahús er þó að sjálfsögðu á sínum stað á jarðhæð Hafnarborgar, þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi og tekið verður vel á móti ykkur.

Á tímabilinu verður einnig hægt að leigja salinn Apótekið á jarðhæð Hafnarborgar, eins og venjulega, fyrir fundi, fyrirlestra eða móttökur.

Næstu sýningar, Hljóðön – sýning tónlistar, í sýningarstjórn Þráins Hjálmarssonar, og Umrót, með verkum Mörtu Maríu Jónsdóttur, munu svo opna í Hafnarborg laugardaginn 26. janúar.

Hlökkum til að bjóða ykkur velkomin í breytta og bætta Hafnarborg.

mummi-smith-fbevent

Síðasta sýningarhelgi

Nú er að renna upp síðasta sýningarhelgi sýninganna SNIP SNAP SNUBBUR, með nýjum verkum eftir Guðmund Thoroddsen, og Til móts við náttúrunna, með verkum eftir Eirík Smith úr safneign Hafnarborgar, en síðasti sýningardagur verður sunnudaginn 6. janúar.

Opið er í Hafnarborg kl. 12–17 til sunnudags og aðgangur að sýningunum er ókeypis fyrir alla, eins og venjulega. Ekki láta þetta fram hjá ykkur fara.

jol-2018-opnunartimi

Opnunartími um jól og áramót

Opið verður í Hafnarborg að vanda fram að jólum, alla daga nema þriðjudaga, frá kl. 12–17. Opnunartími yfir hátíðarnar er eftirfarandi:

Þorláksmessa 23. desember – opið kl. 12–17

Aðfangadagur 24. desember – lokað

Jóladagur 25. desember – lokað

Annar í jólum 26. desember – lokað

27.–30. desember – opið kl. 12–17

Gamlársdagur 31. desember – lokað

Nýársdagur 1. janúar – lokað

Opið verður samkvæmt hefðbundnum opnunartíma aftur frá miðvikudeginum 2. janúar. Yfirstandandi sýningum lýkur sunnudaginn 6. janúar. Aðgangur er ókeypis.

jól-safnbúð-2

Kærleikskúlan og Jólaóróinn 2018

Kærleikskúlan Terrella eftir Elínu Hansdóttur er nú fáanleg í safnbúð Hafnarborgar til 19. desember 2018. Að vanda er Kærleikskúlan blásin glerkúla, tær eins og kærleikurinn, með borða í rauðum lit, lit lífskrafts og gleði, jóla og vináttu. Eins og mennirnir eru engar tvær kúlur nákvæmlega eins en allar fallegar, hver á sinn hátt.

kúla

Svona lýsir Elín sýn sinni á bakvið hönnun kúlunnar í ár:

Innan glerhjúpsins er kúla sem dregur að sér efni og skapar heild sem einungis varir eitt andartak. Um leið og utanaðkomandi kraftur hreyfir við henni verður samsetningin á yfirborði hennar önnur. Fegurðin býr í tilviljanakenndri lögun, þeim margbreytileika sem aðdráttaraflið býður upp á og þeim áhrifum sem við getum haft á umhverfi okkar – því kærleikurinn getur með krafti sínum sameinað og umbreytt því sem kemst í tæri við segulmagn hans.

Tilgangurinn með sölu Kærleikskúlunnar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna og rennur allur ágóði til starfsins í Reykjadal en þar dvelja fötluð börn og ungmenni í sumarbúðum og um helgar yfir vetrartímann. Dvölin í Reykjadal er börnunum og fjölskyldum þeirra afar mikilvæg. Mikið er lagt upp úr því að börnin njóti dvalarinnar til hins ýtrasta, þau upplifi ævintýri og skemmti sér í hópi jafnaldra.

Kúla Elínar Hansdóttur bætist í fjölbreytt safn Kærleikskúla sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hefur gefið út fyrir jólin síðan 2003. Fjölmargir listamenn hafa lagt málefninu lið í gegnum árin og því eru Kærleikskúlurnar fjölbreytt safn listaverka. Listamennirnir hafa allir gefið vinnu sína og þannig stutt dyggilega við starf í þágu fatlaðra barna og ungmenna. Allir þeir söluaðilar sem selja Kærleikskúluna gera það sömuleiðis án þóknunar og leggja þannig sitt af mörkum til þessa mikilvæga málefnis.

Einnig er fáanlegur í safnbúðinni Jólaóróinn Stekkjastaur, sem hannaður er af Dögg Guðmundsdóttur en með honum fylgir kvæði eftir Dag Hjartarson. Allur ágóði af sölu Jólaóróans rennur til Æfingastöðvar Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, þar sem fram fer umfangsmesta iðju- og sjúkraþjálfun barna á landinu.

órói
jol2017-featureimage-red

Syngjandi jól 2018

Laugardaginn, 1. desember verða Syngjandi jól haldin í Hafnarborg líkt og fyrri ár. Þá fyllist Hafnarborg af söng og hátíðaranda er fjölmargir kórar Hafnarfjarðar skipaðir söngfólki á öllum aldri koma saman. Dagskráin hefst kl. 10:20 og lýkur kl. 15:40. Syngjandi jól eru nú haldin í tuttugasta og annað sinn en verkefnið er samstarfsverkefni skrifstofu fræðslu- og frístundarþjónustu Hafnarfjarðar, Jólaþorpsins og Hafnarborgar.

Vegna tónleikanna eru sýningar Hafnarborgar lokaðar þennan dag.

Dagskrána má sjá hér að neðan:

Syngjandi jól 2018
haustsyning-featureimage2

Haustsýning Hafnarborgar 2019 – umsóknarfrestur framlengdur

Eins og undanfarin ár gefst sýningarstjórum tækifæri til að senda inn tillögur að sýningu í Hafnarborg haustið 2019. Sýningin Allra veðra von var valin úr athyglisverðum tillögum sem sendar voru inn á síðasta ári. Markmiðið með því að óska eftir innsendum tillögum er að fá tækifæri til að velja til samstarfs sýningarstjóra sem leggur fram áhugaverða tillögu að sýningu en jafnframt að kalla til leiks nýtt fólk. Þannig er sérstaklega hugað að því að veita tækifæri sýningarstjórum með stuttan feril að baki. Það hefur sýnt sig að fyllsta ástæða er til að halda úti slíku verkefni, en út frá því hafa orðið til fjölbreyttar og áhugaverðar sýningar sem vakið hafa athygli og verið vel sóttar.

Frestur til að skila inn tillögum hefur verið framlengdur um eina viku og rennur út sunnudaginn 25. nóvember 2018.

Óskað er eftir hugmyndum að samsýningum þar sem viðfangsefni, vinnuaðferð eða aðrar hugmyndir tengja verk listamanna en einnig koma til greina sýningar sem fela í sér greiningu eða sýn á verk ákveðins listamanns. Jafnt koma til greina sýningar á verkum samtímalistamanna og sýningar sem fela í sér sögulega greiningu.

Umsóknarferlið er tvískipt og eru þeir sem áhuga hafa á að takast á við þetta verkefni hvattir til að kynna sér verkefnið frekar hér.

Árið 2011 hóf haustsýningaröðin göngu sína með sýningunni Í bili sem unnin var af Ólöfu Gerði Sigfúsdóttur mannfræðingi, 2012 var sett upp sýningin SKIA í sýningarstjórn Guðna Tómassonar listsagnfræðings og Anna María Bogadóttir menningarfræðingur og arkitekt vann sýninguna Vísar – húsin í húsinu árið 2013. Á árinu 2014 var hugmynd Helgu Þórsdóttur, menningarfræðings og myndlistarmanns, að sýningunni Rás valin úr áhugaverðum tillögum. Haustið 2015 voru það listfræðingarnir Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir með sýninguna Heimurinn án okkar. Á síðasta ári, 2016, var tillaga hönnunartvíeykisins TOS fyrir valinu en TOS er skipað þeim Hildi Steinþórsdóttur og Rúnu Thors með sýninguna Tilraun – leir og fleira. 2017 var tillaga Jóhannesar Dagssonar listheimspekings Málverk – ekki miðill fyrir valinu og í ár var það sýningina Allra veðra von, tillaga Mörtu Sigríðar Pétursdóttur, menningar- og kynjafræðings, sem fjallaði um samband mannsins við veður .

Með haustsýningaröðinni vill Hafnarborg skapa farveg fyrir áhugaverðar hugmyndir þannig að safnið verði vettvangur þar sem myndlist fær notið sín, mótuð af fjölbreyttum viðhorfum og viðfangsefnum. Sýningarnar og málþing sem skipulögð hafa verið samhliða þeim hafa skapað markverðan vettvang umræðna og þróunar í Hafnarborg.

Sendið tillögur á netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is, merktar „Haust 2019“.

Nánari upplýsingar í síma Hafnarborgar 585 5790.

vetrarfri2018-featureimage

Listasmiðjur í vetrarfríi

Hafnarborg býður börnum á grunskólaaldri í vetrarfríi að koma og taka þátt í skemmtilegum og skapandi listasmiðjum á vegum safnsins. Smiðjurnar fara fram mánudaginn 22. október og þriðjudaginn 23. október kl. 13–15. Hægt er að mæta báða dagana eða annan hvorn daginn og eins og alltaf er ókeypis aðgangur að smiðjunum og safninu sjálfu. Mælst er til þess að börn komi í fylgd fullorðinna.

Mánudagur 22. október kl. 13–15
Haustlistasmiðja fyrir alla fjölskylduna. Unnið verður með haustið. Tilraunir með lauf, liti, málun og samsetningar. Smiðjan er fyrir börn á grunnskólaaldri ásamt foreldrum/forráðamönnum.
Leiðbeinandi er Berglind Jóna Hlynsdóttir, listakona.

Þriðjudagur 23. október kl. 13–15
Hrekkjavökulistasmiðja fyrir alla fjölskylduna. Hrekkjavaka er á næsta leiti og í smiðju dagsins verður unnið út frá því þema. Smiðjan er fyrir börn á grunnskólaaldri ásamt foreldrum/forráðamönnum.
Leiðbeinendur eru Áslaug Friðjónsdóttir og Irene Hrafnan, myndlistarkonur og starfsmenn Hafnarborgar.

Listasmiðjurnar fara fram í Apótekinu, sal á fyrstu hæð safnsins.

haust-featureimage

Haustsýning Hafnarborgar 2019 – kallað eftir tillögum

Eins og undanfarin ár gefst sýningarstjórum tækifæri til að senda inn tillögur að haustsýningu næsta árs í Hafnarborg. Haustsýning Hafnarborgar í ár, Allra veðra von, var valin úr athyglisverðum tillögum síðasta árs og var opnuð þann 31. ágúst sl.

Markmiðið með því að óska eftir innsendum tillögum er að fá tækifæri til að velja til samstarfs sýningarstjóra, sem leggur fram áhugaverða tillögu að sýningu, en jafnframt að kalla til leiks nýtt fólk. Þannig er sérstaklega hugað að því að veita tækifæri sýningarstjórum með stuttan feril að baki. Það hefur sýnt sig að fyllsta ástæða er til að halda úti slíku verkefni en út frá því hafa orðið til fjölbreyttar og áhugaverðar sýningar, sem vakið hafa athygli og fengið góða aðsókn.

Óskað er eftir hugmyndum að samsýningum þar sem viðfangsefni, vinnuaðferð eða aðrar hugmyndir tengja verk listamanna en einnig koma til greina sýningar sem fela í sér greiningu eða sýn á verk ákveðins listamanns. Jafnt koma til greina sýningar á verkum samtímalistamanna og sýningar sem fela í sér sögulega greiningu.

Frestur til að skila inn tillögum hefur verið framlengdur um eina viku og rennur út sunnudaginn 25. nóvember 2018.
Aðeins er tekið við tillögum rafrænt á netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is.

Umsóknarferlið er tvískipt.

1. Hluti

Í fyrri umferð er óskað eftir eftirfarandi upplýsingum:

– Lýsingu á verkefninu þar sem lögð er áhersla á hugmyndina að baki sýningunni (hámark 1000 orð).
– Ferilskrá sýningarstjóra.
– Stuttum ferilskrám listmanns/-manna og annarra sem lagt er til að verði hluti af sýningarverkefninu.

Vinsamlegast gefið eins nákvæma lýsingu og unnt er en virðið uppgefinn orðafjölda. Ekki er tekið við sýningarskrám, myndefni eða dvd-diskum í fyrstu umferð. Kynnið ykkur húsnæði Hafnarborgar áður en tillögur eru sendar inn. Listráð Hafnarborgar metur innsendar tillögur ásamt forstöðumanni og velur tillögur til frekari skoðunar.

2. Hluti

Sýningarstjórum sem eiga tillögurnar sem valdar eru til frekari skoðunar verður boðið að kynna hugmyndir sínar og senda inn ítarefni, s.s. sýningarskrár, myndefni eða dvd-diska, auk þess sem vinna þarf að raunhæfri fjárhagsáætlun fyrir sýninguna.

Með því að kalla eftir tillögum er verið að opna fyrir nýja sýn á myndlist en jafnframt gefa nýjum sýningarstjórum tækifæri til að vinna sýningar. Reiknað er með að sýningin og vinnan við hana falli að fjárhagsáætlun safnsins eða að leitað verði leiða til að fá sérstakan stuðning við verkefnið.

Við mat á tillögum verður skoðað:

– Val á listamönnum.
– Hvort sýningin kynni nýstárlega sýn á myndlist – innihald og/eða miðla.
– Hvort verkin á sýningunni eru ný eða eldri verk eða blanda nýrra og eldri.
– Hvort sýningin hafi sérstaka skírskotun til Hafnarborgar, þ.e. safneignar, umhverfis, bæjarlífs o.s.frv.
– Hvort sýningin nýti rými Hafnarborgar á frumlegan hátt.
– Ferill sýningarstjóra (sérstaklega er leitað eftir sýningarstjórum sem ekki eiga langan feril að baki).
– Tillögur að dagskrá í tengslum við sýninguna (leiðsögn, málþing, námskeið).
– Tillögur að hugsanlegri útgáfu.
– Að kostnaður við verkefnið sé innan viðráðanlegra marka (nánari útfærsla kostnaðar er í síðari hluta ferlisins).

Teikningar af sölum Hafnarborgar má sjá hér fyrir neðan. Þær eru ætlaðar til viðmiðunar við undirbúning tillagna en ekki er þess krafist að sýningar séu hannaðar nákvæmlega inn í rýmið.

Grunnmynd-af-öllum-sölum

Vinsamlegast sendið tillögur á netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is. Send verður staðfesting á því að tillagan hafi borist. Hafa má samband í síma 585 5790 ef staðfesting berst ekki. Allar niðurstöður verða sendar með tölvupósti.

Tillögur skulu merktar „Haust 2019“.

Nánari upplýsingar í síma Hafnarborgar 585 5790.

Gudrun Olafsdottir portrait-sm

Tónlistarnámskeið fyrir börn og fullorðna

Sönghátíð í Hafnarborg blæs til mikillar söngveislu dagana 7.–15. júlí 2018 með fjölda tónleika og námskeiða. Haldið er upp á aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands 2018 með því að bjóða upp á mikið úrval af íslenskri tónlist í alls konar mismunandi raddsamsetningum, frá gamalli þjóðlagatónlist til nýrra tónverka, að ógleymdri hinni erlendu tónlist sem mótaði hana – og okkur – frá barokktímanum til samtímans.

Á hátíðinni verður boðið upp á fjögur námskeið: master class fyrir unga söngvara og söngnemendur með Kristni Sigmundssyni, söngnámskeið fyrir áhugafólk með Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur, tónlistar- og söngsmiðjur fyrir 6–12 ára börn með Ingibjörgu Fríðu og Sigurði Inga og íslenskt þjóðlaganámskeið með Báru Grímsdóttur og Chris Foster.

Sönghátíð í Hafnarborg var fyrst haldin sumarið 2017 og er þetta því í annað sinn sem hún fer fram. Hátíðin var stofnuð með það að markmiði að koma list raddarinnar á framfæri en listrænn stjórnandi er Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og meðstjórnandi er Francisco Javier Jáuregui. Nánari upplýsingar um námskeiðin má finna á heimasíðu Sönghátíðar í Hafnarborg.