Vígsla Hafnarborgar

Málverkasýning Eiríks Smith

Opnunarsýning Hafnarborgar, hinnar nýju menningar- og listastofnunar Hafnarfjarðar, var málverkasýning hins þekkta hafnfirska listamanns Eiríks Smith (1925-2016), en fullkláruð bygging stofnunarinnar var vígð við hátíðlega athöfn þann 21. maí árið 1988, á 80 ára kaupstaðarafmæli Hafnarfjarðarbæjar.

Á árinu voru enn fremur liðin 40 ár síðan Eiríkur hélt sína fyrstu einkasýningu í Hafnarfirði, í því skyni að safna sér náms- og farareyri til listnáms í Kaupmannahöfn, en á opnunarsýningu Hafnarborgar voru til sýnis 64 listaverk eftir málarann, 31 olíumálverk og 33 vatnslitamyndir, en flest voru verkin ný eða nýleg. Sýningin var sölusýning, í samræmi við þáverandi stefnu safnsins.

Ferill Eiríks var í senn langur og margbreytilegur. Hann tókst á við málverkið sem tjáningarform og eftir hann liggja verk sem bera vitni um einstök tök á jafn ólíkum viðfangsefnum og strangflatarlist, tjáningarríku abstraktmálverki og raunsæisverkum þar sem maðurinn er oft í forgrunni en landið og mannanna verk mynda magnþrungna umgjörð.