Þitt er valið

Úr safneign

Þitt er valið er sýning á verkum úr safneign Hafnarborgar, sem stendur frá 1. febrúar til 9. mars 2014, þar sem öll verkin eru valin af almenningi. Valið fer fram í gegnum heimasíðuna Sarpur.is en þar má nálgast listaverkaskrá Hafnarborgar og munaskrá margra annarra íslenskra safna. Með sýningunni er öllum boðið að hafa bein áhrif á sýningarstarf safnsins, en allir sem vilja – hvar sem þeir eru staddir í veröldinni – eru hvattir til að taka þátt.

Sýningin er í aðalsal Hafnarborgar og mun taka stöðugum breytingum allt sýningartímabilið, reglulega verða ný verk sett upp og önnur tekin niður. Reynt verður að verða við óskum allra en umskipti í salnum fara eftir þátttöku. Leitast verður við að láta verkin njóta sín og gera þeim jafnframt skil með hugmyndalegu og sögulegu samhengi í uppsetningu.

Safneign Hafnarborgar er fjölbreytt en stór hluti hennar eru málverk og höggmyndir frá síðari hluta 20. aldar. Stofnendur Hafnarborgar, þau Sverrir Magnússon lyfsali og kona hans Ingibjörg Sigurjónsdóttir lögðu grunn að safninu með listaverkagjöf sinni árið 1983 en einnig skipa verk eftir listamanninn Eirík Smith stóran sess í safneigninni. Hafnarborg á verk eftir innlenda og erlenda listamenn unnin í ýmsa miðla, má þar meðal annars nefna nokkurn fjölda leirlistaverka. Safnið á nú rúmlega 1400 listaverk og reglulega bætist eitthvað við.