Margoft við sjáum og margoft við sjáum aftur

Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir

Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir fæst við margþættar innsetningar þar sem hún fléttar saman ólíkum miðlum, svo sem hefðbundnum olíumálverkum, viðarskúlptúrum, vídeóverkum, textum og gjörningum. Í verkum hennar má finna óhlutbundnar birtingarmyndir á ljóðrænni tjáningu út frá því formræna tungumáli sem hún vinnur með. Þá ríkir mikil leikgleði í verkunum, sem eiga jafnt í samtali við samtímann sem og listasöguna, en þau einkennast af flæði óhlutbundinna forma og lita, sem hún vinnur með á ljóðrænan hátt líkt og um sjálfstætt tungumál sé að ræða. Á sýningunni í Hafnarborg eru innsetningar, sem samanstanda af málverkum, skúlptúrum og myndböndum, en flestar hafa ekki verið áður sýndar hérlendis.

Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir er fædd árið 1982. Hún starfar bæði í Reykjavík og Antwerpen í Belgíu, þaðan sem hún lauk M.A. gráðu frá málaradeild KASK (2013) í Gent og tveggja ára postgratuate námi frá HISK, Higher Institute for Fine Arts (2014–2015) í Gent. Áður útskrifaðist hún með B.A. gráðu frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2008. Jóhanna er ein listamannanna hjá Trampoline Gallery í Antwerpen og einn af stofnendum ABC Klubhuis, sem er nýtt listamannarekið sýningarrými í Antwerpen. Jóhanna hefur sýnt verk sín víða, meðal annars í listasafninu S.M.A.K. í Gent, Moskvutvíæringnum 2015, Andersen’s Contemporary í Kaupmannahöfn, Ornis A. Gallery í Amsterdam og Kunsthalle São Paulo í Brazilíu.