Kvenhetjan

Steingrímur Eyfjörð

Listamaðurinn Steingrímur Eyfjörð sýnir úrval verka, sem hafa konur eða kvenpersónur að viðfangi, frá upphafi ferils síns til dagsins í dag. Mörg hver hafa verið sýnd áður en nú gefst tækifæri til að sjá þau á sama stað, þar sem hægt er að kanna sýn Steingríms í þessum efnum og sjá hvernig konur hafa fylgt honum sem viðfangsefni allt frá því snemma á ferlinum.

Það er vissulega vandmeðfarið fyrir karlmann í nútímasamhengi að tjá sig um konur eða eigin sýn á tilfinningar þeirra og stöðu en engu að síður er nauðsynlegt að endurspegla samfélagið með margradda og ósamhljóma kór allra kynja. Steingrímur hefur hér tekið sér stöðu í liði kvenna, ef svo má að orði komast, og skoðar orðræðuna um konuna sem tákn, jafnt sem hina eilífu togstreitu milli marglaga veruleikans og ímyndarinnar um konur.

Þá er klisjan í listrænni nálgun eða umfjöllun um konur – karlkyns listamaður með nakið kvenkyns módel – órafjarri í verkum Steingríms. Hann leiðir okkur á vit hins liðna með aðstoð spámiðla, skoðar ímyndariðnaðinn og birtir okkur myndir af konum í ólíkum hlutverkum frá móður til kvenhetju – nema það sé eitt og hið sama.